Fara í efni

Verulegar tekjur af komum skemmtiferðaskipa

Fréttir

Komur skemmtiferðaskipa og málefni tengd þessari tegund ferðaþjónustu hafa verið ofarlega á baugi í umræðunni undanfarin ár og hefur umræðan aukist nokkurnvegin í takti við fjölgun skipa. Sitt sýnist hverjum líkt og eðlilegt er í frjálsri umræðu, en þar sem lítið hefur verið um gögn til að styðjast við hefur umræðan oft byggst að stórum hluta á tilfinningu fólks. Í síðustu viku hélt Ferðamálastofa kynningarfund um heimsóknir erlendra skemmtiferðaskipa og var áherslan á að setja fram tölulegar upplýsingar um helstu hagsmuni hérlendis vegna þeirra.

Fjögur erindi voru á dagskrá fundarins sem hófst með inngangi Arnars Más Ólafssonar, ferðamálastjóra, sem kom inn á mikilvægi þess að byggja upp þekkingu á greininni, framkvæma kannanir og halda utan um talnagögn til að byggja undir upplýsta umræðu.

Þórný Barðadóttir, hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála var með erindi um útgjöld farþega skemmtiferðaskipa sem byggði á niðurstöðum könnunar sem framkvæmd var í Reykjavík síðastliðið sumar. Jóhann Viðar Ívarsson hjá Ferðamálastofu fjallaði um tekjur Íslendinga af þjónustu við skemmtiferðaskip. Sú breyting hefur orðið á eftir Covid að fjöldi þeirra ferðalanga sem fara um borð og frá borði skemmtiferðaskipanna á Íslandi hefur stóraukist. Það þýðir bæði gisting hér á landi sem og flug og hefur þessi breyting leitt til mikillar aukningar á tekjum af skipagestum. Þetta bætist ofan á þær tekjur sem skipin voru áður að skapa, líkt og vegna hafnargjalda, eldsneytissölu, ferðasölu og umboðsþjónustu. Talið er að heildartekjur stærstu innlendu þjónustuaðilanna í ár hafi numið í kringum 52 milljörðum króna. Þá eru frá talin opinber gjöld og þjónusta og sala minni fyrirtækja.

Rannsóknamiðstöð Ferðamála hefur með spurningakönnunum og viðtölum vaktað reglulega viðhorf íbúa landsins til ferðaþjónustunnar og var í ár í fyrsta sinn spurt út í afstöðu íbúa til komu skemmtiferðaskipa. Eyrún Jenný Bjarnadóttir sagði frá niðurstöðum þeirrar könnunar. Könnunin var framkvæmd á Ísafirði, Akureyri og í Reykjavík. Samkvæmt niðurstöðum hennar telja um 70% Ísfirðinga hafnaryfirvöld ráða vel við að taka á móti skemmtiferðaskipum en aðeins 49% töldu heimabyggð sína ráða vel við að þjónusta farþega skipanna. Ísfirðingar skáru sig úr þegar spurt var hvort skipin væru efnahagslega mikilvæg fyrir heimabyggð en 83% töldu svo vera í móti 46% Reykvíkinga. Hæst var líka hlutfall Ísfirðinga sem töldu að íbúar yrðu fyrir ónæði af komum skemmtiferðaskipa en 49% töldu svo vera á móti 25% Reykvíkinga og 34% Akureyringa. Á Ísafirði höfðu hlutfallslega fæstir áhyggjur af mengun skipanna eða 58%. Í könnuninni var spurt hvort svarendur vildu fá fleiri skemmtiferðaskip, það vildu aðeins 8% Akureyringa, 9% Ísfirðinga og 13% Reykvíkinga.

Lokaerindið var í höndum Þorsteins Aðalsteinssonar hjá Hagstofu Íslands og bar það heitið: Bleiki fíllinn í stofunni: Mengun af skemmtiferðaskipum í íslenskri landhelgi. Fór hann yfir í talnagögnum olíunotkun á hvern farþega sem er talsvert hærri en af flugfarþegum til að mynda og sorp og skólpmál, sem skipin sinna almennt vel. Í máli hans kom fram að opinber loftslags- og mengunaruppgjör sem eru unnin hér á landi nái ekki til skemmtiferðaskipa nema að litlu leyti, en margir kostir standi til boða sem gætu bætt úr gagnaleysi í tengslum við skemmtiferðaskip til dæmis að taka upp umhverfiseftirlitskerfi sem hafnir gætu haft með höndum.

Hægt er að hlusta á öll erindin og nálgast glærur og annað efni hér.