Fara í efni

Púkinn atkvæðahæstur meðal vestfirskra púka

Fréttir Verkefni

Grunnskólar á Vestfjörðum voru settir í vikunni og eitt af verkefnum nemendanna þessa fyrstu skóladaga var að kjósa um nafn á Barnamenningarhátíð á Vestfjörðum, sem verður haldin í fyrsta sinn dagana 11.-22. september. Farið var inn í alla bekki í öllum skólum með kjörseðla og kosið úr fimm nöfnum sem söfnuðust í vor er kallað var eftir hugmyndum. Nöfnin sem hægt var að setja x-ið sitt við á kjörseðlinum voru: Askur, Klaki, Krass, Punktur og Púkinn.

Það er gaman að segja frá því að Púkinn var atkvæðahæstur meðal hinna vestfirsku púka og er því barnamenningarhátíð á Vestfjörðum komið með þetta grípandi heiti. Það er líka viðeigandi þar sem á mörgum stöðum innan fjórðungsins er það einfaldlega samheiti yfir börn. Púkanum voru greidd 243 atkvæði, en það var talsverð spenna í atkvæðatalningunni þar sem Klaki fékk 207 atkvæði. Eftir það tók bilið að breikka og Askur var í þriðja sæti með 150 atkvæði og þar á eftir Krass með 124 atkvæði. Lestina rak Punktur með 57 atkvæði. Ógildir seðlar voru 15 og auðir 8.

Nemendum þótti það spennandi að fá að taka þátt í lýðræðislegri kosningu og var virkilega skemmtilegt að hitta þá og heyra hversu margir höfðu skoðanir á því hvert nafnið ætti að vera. Að sama skapi voru börnin spennt fyrir hugmyndinni um barnamenningarhátíð og spurðu talsvert um hvað gæti verið fólgið í slíkri hátíð. Verið er að fastmóta dagskrána og enn er hægt að senda inn dagskrárliði á skuli@vestfirdir.is