Fara í efni

Myndlistarsýningin Nr 4 Umhverfing víðsvegar um Vestfirði og Dali

Fréttir Uppbyggingasjóður Vestfjarða Vestfjarðaleiðin

Myndlistarsýningin Nr 4 Umhverfing er ferðalag um Dali, Vestfirði og Strandir og tengist hinni nýju Vestfjarðarleið sem varð til við opnun Dýrafjarðarganga. Með sýningunni gefst ferðamönnum tækifæri á að ferðast í gegnum fjórðunginn með nýstárlegum og óvæntum hætti. 126 myndlistarmenn taka þátt í sýningunni.
Myndlistarmennirnir tengja sig ákveðnum stöðum, en á margvíslegum forsendum; þeir ýmist eiga þar beinar rætur, forfeður þeirra og mæður eiga þar einhverja sögu, jafnvel langt aftur í aldir, eða þá að þeir sjálfir hafa sótt þangað innblástur. Í þannig ferli verða til ólík listaverk með vísun til einstakrar sögu eða staðhátta eða sem sprottin eru úr ímyndunaraflinu sjálfu. Mörg verkanna eru algerlega staðbundin og gætu aldrei verið annarsstaðar. Þátttakendur hafa mjög mismunandi bakgrunn í myndlistinni og má segja að í þessum mikla fjölda megi finna fulltrúa margra helstu strauma og stefna í myndlist samtímans. Hér er hún aðgengileg fyrir alla á hringferð um menningarlandslag Vestfjarða, Dala og Stranda.
Akademía skynjunarinnar stendur fyrir verkefninu Umhverfing.
Myndlistarsýningin Nr 4 Umhverfing er fjórða sýningin í sýningarröð verkefnisins. Akademía skynjunarinnar gefur út veglega bók um sýninguna, myndlistarmennina og verk þeirra.
QR kóði sýningarinnar opnar inn á leiðarkort á Google Maps um sýninguna. Myndlistarsýningin Nr 4 Umhverfing er styrkt af Uppbyggingasjóðum Vesturlands og Vestfjarða, Myndlistarsjóði og Listasjóði Dungal.