Vestfjarðastofa fékk styrk að upphæð 4.500.000 úr Lóu vegna nýsköpunarhraðals, sem í umsókninni bar vinnuheitið Landið og miðin, en hefur nú formlega hlotið nafngiftina Startup Landið. Vestfjarðastofa fór í umsókninni fram fyrir hönd landshlutasamtakanna sem auk Vestfjarðastofu eru Austurbrú, SASS, SSNE, SSNV, SSS og SSV. Þessir aðilar vinna allir að því að vera frumkvöðlum á landsbyggðinni innan handar við þróun verkefna sinna og því var kjörið að efna til samstarfs um hraðal sem frumkvöðlar vítt og breitt um landið geta í sameiningu sótt á haustmánuðum.
Hraðallinn verður frá 18. september-30. október og fer hann að mestu leyti fram á netinu, en tvær sameiginlegar vinnustofur verða haldnar á tímabilinu. Opnað hefur verið fyrir umsóknir og má sækja um til 31. ágúst 2025. Startup Landið tengir saman náttúru, nýtingu og nýsköpun og leitað er eftir hugmyndum sem styrkja samfélög, skapa störf og skila verðmætum um land allt.
Hér er hægt að sjá heimasíðu Startup Landið og hér Fésbókarsíðu verkefnisins
Þrír styrkir til Vestfjarða
Þrjú vestfirsk verkefni fengu styrk úr Lóu. Cannartica fékk 7.500.000.- fyrir HydroTherma sem er þróunarverkefni með það að markmiði að bæta skilvirkni og sjálfbærni í ræktunarlýsingu með þróun vatnskældra ræktunarljósa.
Marinó Bjarnason fékk 5.290.000.- fyrir verkefnið Traust vegferð, sem snýr að því að þróa á Eysteinseyri námsupplifunarstað hvar jafningjar og geðheilbrigðisstarfsfólk mun taka þátt í upplifunum sem stuðla að miðlun þekkingar og nýsköpun. Framtakinu er ætlað að skapa ný tækifæri fyrir byggðalög á Vestfjörðum til að efla og þróa geðheilbrigðisþjónustu í gegnum alþjóðlegt samstarf.
Gylfi Ólafsson 4.500.000.- fyrir Ný tegund skíðalyftu, sem snýr að því að þróa og smiða frumgerð að skíðalyftu sem er ódýr, sveigjanleg og umhverfisvæn. Lyftan er léttur kassi með mótor, rafhlöðum og stýringu sem dregur sig og skíðamanninn upp eftir kaðli.
Til viðbótar við þau eru áðurnefnt verkefni landshlutasamtakanna og styrkur sem samtök þekkingarsetra hlaut vegna gagnvirkra vinnustofa sem til stendur að halda um allt land þar sem unnið verður að því að auka stafræna hæfni á landsbyggðinni.