Fara í efni

Innviðauppbyggingar enn krafist

Fréttir Fjórðungssamband Vestfirðinga

Margt að því sem kom fram á 68. Fjórðungsþingi Vestfirðinga snýr að uppbyggingu innviða svæðisins – og það ekki í fyrsta sinn. Fjórðungsþingið samþykkti ályktun þess efnis að Vestfirðir fari úr biðflokk í verkefnaflokk í orkumálum og krefst þess að stjórnvöld taki fyrir lok árs þær ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til að umbylta flutningsmálum raforku og framleiðslu raforku innan Vestfjarða. Þingið harmar að orkuskortur hafi hindrað eðlilega framþróun atvinnulífs og samfélaga á svæðinu og minnir á einróma samþykkt þingsályktunar Alþingis frá árinu 2018 þar sem ákveðið var að setja Vestfirði í forgang í raforkumálum. Í greinargerð með ályktunni má sjá aðgerðir sem lagðar eru til svo þetta megi verða að veruleika, líkt og að uppbygging virkjunar innan Vestfjarða með að lágmarki 20 MW meðalframleiðslu til að stórbæta flutning raforku innan Vestfjarða. Lokatakmarkið er hinsvegar tvöföldun Vesturlínu frá Hrútatungu í Hrútafirði í afhendingarstað á norðanverðum Vestfjörðum, en því verkefni má áfangaskipta í takt við uppbyggingu virkjana og flutningskerfi þeim tengdum s.s. tengipunktur í Ísafjarðardjúpi. Lesa má ályktunina og greinargerðina í heild sinni hér í þingskjali.

Þegar innviðir á Vestfjörðum eru annarsvegar má gefa sér að samgöngur á svæðinu beri á góma. Á Fjórðungsþingi voru margir samankomnir sem láta sig þær varða og má nefna að Guðmundur Fertram Sigurjónsson, oftast kenndur við viðskiptaundið Kerecis, lagði til í framsöguerindi sínu að sameinast yrði um samgöngusáttmála á Vestfjörðum. Þar sér hann fyrir sér að vegagerð á svæðinu verði tekin úr farvegi ríkisframkvæmda og sett í einkaframkvæmd svo tryggja megi að hún gerist á meiri hraða en þeim sem kveðið er á um í samgönguáætlun. Flestir sveitarstjórar á svæðinu virtust tilbúnir í þá vegferð með Guðmundi er fram kom í pallborðsumræðum að loknum framsöguerindum.

Á þinginu mátti heyra að sveitarstjórnarfólk á svæðinu væri orðið langþreytt á biðinni eftir nauðsynlegum samgöngubótum sem löngum hefur hamlað Vestfirðingum í eðlilegri samfélagslegri uppbyggingu og setur atvinnulífinu skorður sem ekki má una við lengur. Í ályktun um samgöngur út frá ímynd Vestfjarða beinir þingið því til yfirvalda samgöngumála að skoðaðar verði nýjar fjármögnunarleiðir til að jafna samkeppnisstöðu Vestfjarða í samgöngumálum. Óskar það þess að þegar verði aukið fjármagn til vetrarþjónustu og viðhalds vega á Vestfjörðum til að bæta ásýnd Vestfjarða til búsetu, fjárfestinga og heimsókna. Þá kemur fram að 68. Fjórðungsþing Vestfirðinga að hausti sé hlynnt gjaldtöku nýrra samgönguframkvæmda þar með talin jarðgangaverkefni, verði það til þess að hægt verði að flýta framkvæmdum á Vestfjörðum. Hér má lesa ályktunina og greinargerðina sem henni fylgir.