Fara í efni

Fundur Sóknarhóps Vestfjarðastofu: Hvernig eflum við ímynd Vestfjarða?

Fréttir Markaðsstofa Vestfjarða

Fimmtudaginn 16. nóvember 2023 verður fyrsti fundur Sóknarhóps Vestfjarðastofu, sem er nýr vettvangur atvinnu- og byggðaþróunar auk Markaðsstofu Vestfjarða. Hugmyndin er að ná saman fyrirtækjum á Vestfjörðum og skapa þannig samstarfsvettvang til að vinna enn betur að hagsmunum þeirra og svæðisins í heild.

Þemað á fyrsta fundinum er „Hvernig eflum við ímynd Vestfjarða?“ og er dagskrá fundarins eftirfarandi:

Hvernig eflum við ímynd Vestfjarða?

Fundarstjóri Sigríður Ó. Kristjánsdóttir

14:45 Kaffispjall

15:00 Netagerðin - Sköpun og rekstur á Vestfjörðum Heiðrún Björk Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri og frumkvöðull

15:15 Hvernig byggjum við upp jákvæða ímynd Vestfjarða - og hvernig miðlum við henni? Ingvar Örn Ingvarsson, almannatengill og framkvæmdastjóri Cohn & Wolfe

15:45 Eru til skemmtilegar aðferðir við að miðla hver við erum og hvað svæðið stendur fyrir? Bragi Valdimar Skúlason, Brandenburgarmaður og Baggalútur

16:15 Háskólasetur Vestfjarða og áhrif þess Peter Weiss - Forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða

16:30 Heimsókn á stúdentagarðana á Ísafirði með Halldóri Halldórssyni

Fundurinn verður haldinn í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og verður boðið upp á léttar veitingar á meðan á honum stendur.

Það er fátt mikilvægara en að hittast og ræða málin og er það eitt af markmiðum með sóknarhópi að skapa grundvöll til þess. Síðan er ekki verra að beita jákvæðni, húmor og skemmtilegheitum við að ná markmiðum okkar um sterka ímynd Vestfjarða og tekur dagskrá fundarins mið af því.

Fundurinn er haldinn fyrir félaga í Sóknarhóp Vestfjarðastofu, en hann var formlega stofnaður í maímánuði og er enn opið fyrir fyrirtæki að skrá sig í hópinn. Aðild er tvískipt, annarsvegar eru það fyrirtæki undir hatti atvinnu- og byggðaþróunar og hinsvegar undir hatti ferðaþjónustu og menningar. Fyrirtæki sem eru hluti af Markaðsstofu Vestfjarða fara sjálfkrafa í sóknarhóp en aðrir þurfa að skrá sig að eigin frumkvæði.

Hér má fræðast betur um sóknarhópinn og neðst má finna hnapp til að skrá sig í hann.