Fara í efni

Evrópusamvinna í 30 ár

Fréttir
Staðfundur í MERSE verkefninu var haldinn á Vestfjörðum í síðasta mánuði
Staðfundur í MERSE verkefninu var haldinn á Vestfjörðum í síðasta mánuði

9. maí er Evrópudagurinn og af því tilefni er Evrópusamstarfi fagnað víða. Í dag er boðið á sérstaka uppskeruhátíð í Kolaportinu í Reykjavík þar sem Evrópusamvinnu er fagnað. Hátíðin ber yfirskriftina Evrópusamvinna í 30 ár og þar verður fagnað árangri undanfarinna ára. Gestir geta kynnt sér fjölmörg verkefni sem hafa fengið styrki úr áætlunum ESB og meðal þeirra sem þar kynna sig eru Baskavinafélagið á Íslandi og Menntaskólinn á Ísafirði.

Hér má lesa meira um þennan viðburð sem stendur til klukkan 18 í dag.

Vestfjarðastofa er um þessar mundir þátttakandi í tveimur Evrópuverkefnum. Annarsvegar er það orkuskiptaverkefnið RECET og hins vegar MERSE sem snýr að samfélagslegri nýsköpun.

RECET eða Rural Europe for the Clean Energy Transition hlaut árið 2023 styrk sem nemur um 1,5 milljónum evra (225 milljónum ISK) úr LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Verkefnið er samstarfsverkefni fimm landa og fjölmargra sveitarfélaga, og er það leitt af Íslendingum. RECET er ætlað að efla getu sveitarfélaga á fimm svæðum í Evrópu til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin í samvinnu og samstarfi við hagsmunaaðila og atvinnulíf. Hjörleifur Finnsson leiðir verkefnið fyrir hönd Vestfjarðastofu og hér má lesa meira um það.

Hér má lesa meira um RECET 

MERSE eða Business Models Empowering Rural Social Entrepreneurship voicing the rural norm, hefur að markmiði að þróa viðskiptamódel, stuðningskerfi og aðstæður fyrir samfélags-frumkvöðla sem annað hvort vilja stofna eða þróa samfélagsdrifin verkefni í dreifðum byggðum.

Verkefnið hlaut á vormánuðum 2023 styrk úr Norðurslóðaáætluninni (Northern Periphery and Arctic Programme) og auk Vestfjarðastofu vinna að því; Mid Sweden University (SE) sem leiðir verkefnið, Companion Co-operative Development (SE), KBT Vocational School (NO), The Gaeltacht Authority (IE) og University of Helsinki (FI). Þórkatla Soffía Ólafsdóttir leiðir verkefnið fyrir hönd Vestfjarðastofu og einnig vinnur að því Anna Sigríður Ólafsdóttir.

Hér má lesa meira um MERSE