Fara í efni

Áhrif loftslagsbreytinga á hafið og auðlindir þess

 

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum var með erindi á málþinginu Af hverju orkuskipti: Loftslags- og orkuskiptaáætlanir sveitarfélaga, sem fram fór í Edinborgarhúsinu á Ísafirði þann 8. febrúar s.l.

Erindi Guðbjargar Ástu Áhrif loftslagsbreytinga á hafið og auðlindir þess varðar með beinum og áþreifanlegum hætti grunnstoðir atvinnulífs á Vestfjörðum. Hún beindi sjónum sínum að vistfræði þorsksins, en vandamál hans eiga við flestar aðrar botnfisktegundir.

Áhrif loftslagsbreytinga sagði Guðbjörg að yrðu bæði bein og óbein. Þau fælust meðal annars í breyttu hitastigi sem myndi valda hraðari vexti, hraðari kynþroska og þar af leiðandi smærri fiski þar sem hann hættir að vaxa við kynþroska. Einnig myndi þetta leiða til minni frjósemi.

Með auknum hita fyrr að vori myndi skapast ósamræmi milli bráðar og afræningja þannig að samfella réttrar og nægilegrar fæðu fyrir t.d. þorskseiði raskast. Þá myndi súrnun sjávar og breytingar á seltustigi valda auknum dauða fæðudýra og mögulega þorsklirfa.

Breytingar á umhverfisþáttum í kjölfar loftslagsbreytinga eins og: seltu, hita, straumum og súrnun valda breyttri dreifingu í rúmi og tíma sem getur raskað viðkvæmum lífsferli. Einnig myndu breyttar umhverfisaðstæður leiða til nýs náttúruvals sem leiðir af sér breyttar stofngerðir með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Hlusta má á erindi Guðbjargar Ástu hér.