Fara í efni

Mennta- og barnamálaráðuneytið styrkir forvarnaraðgerðir á Vestfjörðum

Verkefnið Samræmdar forvarnaraðgerðir á Vestfjörðum hefur hlotið styrk að fjárhæð 8,9 milljón kr. til að efla forvarnarstarf, fræðslu og samvinnu fagaðila í þágu barna og ungmenna á Vestfjörðum. Styrkurinn er á vegum Mennta- og barnamálaráðuneytisins í þágu farsældar barna og er hluti af aðgerðum stjórnvalda í áætlun vegna ofbeldis meðal barna og gegn börnum.

Að verkefninu standa öll sveitarfélögin á Vestfjörðum í samstarfi við Menntaskólann á Ísafirði og lögregluna á Vestfjörðum og var það Vesturbyggð sótti um styrkinn fyrir þeirra hönd. Vesturbyggð og Vestfjarðastofa hafa gert með sér samning um að Vestfjarðastofa annist framkvæmd verkefnisins. Umsóknarferlið leiddi Erna Lea Bergsteinsdóttir, verkefnastjóri farsældarráðs Vestfjarða og mun hún sjá um áframhaldandi verkefnastjórn.

Markmið verkefnisins er að draga úr áhættuhegðun meðal barna og ungmenna með snemmtækum stuðningi, markvissri fræðslu og öflugu samstarfi milli skóla, tómstundastarfs, foreldra og lögreglu. Verkefnið leggur grunn að heildstæðri forvarnarvinnu sem mun nýtast sveitarfélögunum til framtíðar.

Verkefnið spannar alla Vestfirði: Ísafjarðarbæ, Vesturbyggð, Bolungarvíkurkaupstað, Súðavíkurhrepp, Strandabyggð, Árneshrepp, Kaldraneshrepp og Reykhólahrepp. Með verkefninu er stigið mikilvægt skref í að samræma og samhæfa forvarnarstarf í fámennum og dreifðum byggðum þar sem aðstæður og aðgengi að þjónustu eru víða ólík.

Verkefnið byggir á þekktum forvarnaraðgerðum sem hafa sannað sig víða á landsvísu, en verða nú innleiddar á Vestfjörðum í sameiginlegu átaki sveitarfélaganna.

Helstu áherslur eru:

  • Samráð foreldra, tómstundafulltrúa og lögreglu á bæjarhátíðum og öðrum viðburðum,
  • Viðburðir og fræðsla fyrir ungmenni á framhaldsskólaaldri,
  • Fræðsluröð fyrir starfsfólk skólaþjónustu til að efla hæfni fagfólks,
  • Innleiðing jafningjafræðslu fyrir 16–18 ára ungmenni,
  • Efling félagsmiðstöðvastarfs í sveitarfélögunum, og
  • Átak í að virkja ungmennaráð og styrkja þátttöku ungmenna í ákvörðunum sem snerta þau sjálf

Verkefnið nær yfir tímabilið 2025–2027, og verður þróað í nánu samráði við sveitarfélög, stofnanir og ungmenni sjálf. Lögð er áhersla á að forvarnir verði hluti af daglegu starfi skóla, félagsmiðstöðva og fjölskyldna. Með því að efla 1. stigs þjónustu farsældar tryggjum við að börn og ungmenni fái stuðning áður en vandamál verða umfangsmikil.

Vestfirðir standa frammi fyrir sértækum áskorunum vegna fámennis og fjarlægða, sem geta haft áhrif á aðgengi barna og ungmenna að tómstundum, fræðslu og heilbrigðisþjónustu. Verkefnið miðar að því að mæta þessum áskorunum með sameiginlegum lausnum og efla tengsl samfélaganna á svæðinu.

„Þetta er dæmi um hvernig sveitarfélög á Vestfjörðum geta með samstilltu átaki skapað raunverulegar breytingar fyrir börn og ungmenni svæðisins. Með öflugri samvinnu, fræðslu og snemmtækum stuðningi leggjum við grunn að farsæld til framtíðar,“ – Erna Lea