55 ungmenni á aldrinum 13-18 ára alls staðar af Vestfjörðum komu saman á þriðja ungmennaþingi Vestfjarða sem fór fram á Hótel Breiðuvík dagana 8.-10. september.Þema þingsins 2025 var jafnrétti og komu fjölmargir gestafyrirlesarar til þess að fræða ungmennin um málefni því tengdu.
Bjarni Snæbjörnsson hóf leika á mánudeginum með erindi sínu Góðan daginn, faggi og las hann upp úr bók sinni, Mennsku. Miriam Petra Ómarsdóttir Awad fræddi ungmennin um fordóma og inngildingu og Eyrún Þórsdóttir frá Reykjavík Global Forum fjallaði um kynjajafnrétti og konur í leiðtogastöðum. Á mánudagskvöldinu skemmti Gugusar ungmennunum með tónleikum.
Svæðisskipulag Vestfjarða var fyrst á dagskrá á þriðjudeginum og í tengslum við það veltu ungmennin því fyrir sér hvernig Vestfirðir yrðu árið 2050. Einnig komu þau með sínar hugmyndir að menningarstefnu Vestfjarða sem er nú í mótun. Samtökin 78 voru með hinseginfræðslu og Sólborg Guðbrandsdóttir var með kynfræðslu og bauð ungmennunum eintak af bók sinni, Fávitar. Ólafur Þór Ólafsson sveitarstjóri Reykhólahrepps vakti áhuga ungmennanna á stjórnmálum og mynduðust líflegar umræður í kjölfarið. Á kvöldvöku var farið í jafnréttiskviss og tónlistarmaðurinn Háski skemmti.
Að lokum var kosið í nýtt ungmennaráð Vestfjarða og fyrsti fundur nýs ungmennaráðs haldinn. Vestfjarðastofa þakkar öllum þeim gestum sem komu að ungmennaþinginu og sérstaklega Birnu og Keran vertum í Breiðvík sem og öllu starfsfólki hótelsins.
Það eru Erna Lea Bergsteinsdóttir og Embla Dögg Bachmann sem sáu um skipulagningu ungmennaþingsins fyrir hönd Vestfjarðastofu. Ungmennaþingið hlaut í ár veglegan styrk frá Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins sem gerði það að verkum að hægt var að halda þingið með svo glæsilegum hætti.
Ungmennin stóðu sig mjög vel og við erum afar stolt af okkar flotta hópi ungmenna á Vestfjörðum.