Fara í efni

Góða ferð verðlaunað á Hacking Vestfjarðaleiðin

Verkefnið Góða ferð bar sigur úr býtum í lausnamótinu Hacking Vestfjarðaleiðin sem fram fór í síðustu viku. Á mótinu, sem skipulagt var af Hacking Hekla í samstarfi við Vestfjarðastofu, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Bláma, gafst áhugasömum um nýsköpun á svæðunum kostur á taka þátt og þróa nýjar og spennandi lausnir. Það var til mikils að vinna en Vestfjarðastofa og SSV lögðu til 300.000 verðalaunafé fyrir sigurlausnina. Þau Diego Ragnar Angemi og Leiry Seron eru fólkið á bak við Góða ferð sem er sjálfbær, notendavæn og örugg samflotslausn fyrir heimafólk og ferðamenn á leið til eða um Vestfirði. Í dómnefnd Hacking Vestfjarðaleiðin sátu Gunnar Ólafsson frá Blábankanum, Bjargey Anna Guðbrandsdóttir frá Gleipni og Brack Hale, Háskólasetri Vestfjarða. Í umsögn dómnefndar kom fram að Góða ferð leysti afmarkaða áskorun sem er hvernig kemstu til Vestfjarða? Taldi hún lausnina er raunhæfa, einfalda og byggja á tækni sem þegar er til. Þá hafi lausnin sterka tengingu við sjálfbærni hvort heldur sem það er efnahagsleg, félagsleg eða umhverfisleg. Hefð er fyrir samfloti til Vestfjarða og Góða ferð gerir samflotið (e. ride-sharing) aðgengilegra fyrir fólk sem er ekki á Facebook eða hefur ekki beina tengingu við Vestfirði. Auk verðlaunafésins hlutu sigurvegararnir bátsferð með Borea Adventures og máltíð á Verbúðinni í Bolungarvík.

Tvær aðrar hugmyndir hlutu viðurkenningu. Það var Medieval Westfjords Way þeirra Atla Freys Guðmundssonar og Bjarnheiðar Jóhannsdóttur, sem er 4-5 daga ferð á Vestfjarðaleiðinni í víkingastíl. Lögð er áhersla á sjálfbærni og lítið umhverfisfótspor þar sem ferðast er hægt í núinu um fáfarnari ferðaleiðir. Þau fengu gistingu á Við höfnina í Bíldudal og á Hótel Ísafirði auk ferðar á SUP bretti hjá Westfjords Adventures í verðlaun. Þá hlaut einnig viðurkenningu hugmyndin Vatnsfjörður - vegamót Vestfjarða sem Elva Björg Einarsdóttir og Valgerður María Þorsteinsdóttir stóðu að. Lausn þeirra felst í allsherjar ímyndarvinnu fyrir friðlandið í Vatnsfirði sem ýtir undir sjálfbærni Vestfjarðaleiðarinnar. Úr vinnunni verður til skapalón sem hagaðilar, þá helst ferðaþjónar á svæðinu, Vestfjarðastofa, Vesturbyggð og Umhverfisstofnun geta nýtt í markaðssetningu og sem leiðarvísi og í áhersluvinnu fyrir frekari uppbyggingu innviða og vöruþróun. Hlaut hópurinn gistingu og kvöldverð hjá Dalahyttum og gistingu á Dalahóteli á Laugum í Sælingsdal, sem og ferð leiðsögn um Eiríksstaði.

Vestfjarðastofa þakkar góða þátttöku á lausnamótinu og óskar sigurvegurum innilega til hamingju og hlökkum við til að sjá Góða ferð verða að veruleika. Lausnamót sem þetta hafa verið að sækja í sig veðrið síðustu ár. Þau skapa afbragðs samvinnuvettvang þar sem fjölbreyttur hópur getur tengst og unnið að verkefnum á sviði nýsköpunar.

Við minnum líka á að starfsfólk Vestfjarðastofu veitir hverskonar frumkvöðlum aðstoð, hvort sem hugmyndir þeirra eru á frumstigi eða komnar í þann fasa að fara að sækja um styrki úr viðeigandi sjóðum.