Fara í efni

Ráðgjöf fyrir veitinga- og kaffihús

Fréttir Markaðsstofa Vestfjarða Westfjords Food Vestfjarðaleiðin

Vestfjarðastofa, í samstarfi við Hinrik Carl Ellertsson matreiðslumeistara, býður upp á ráðgjöf fyrir veitinga- og kaffihús á Vestfjörðum. Verkefnið er í tengslum við  Vestfjarðaleiðina og gengur út á að efla veitingastaði á svæðinu. Áhersla verður lögð á að aðstoða þátttakendur við að finna og vinna með sína sérstöðu og leita lausna við áskorunum hvers og eins. Unnið verður með árstíðabundna hugmyndafræði, hráefni úr nærumhverfi og sjálfbærni í rekstri veitingastaða. Þátttakendur fá fræðslu og aðstoð við uppsetningu matseðla og annað sem viðkemur rekstri veitingastaðarins.  Að bjóða upp á góðan mat og bjóða fólk velkomið er svo sannarlega hluti af vestfirskri matarmenningu. 

Verkefnið er samsett af fyrirlestrum og einkaráðgjöf ásamt því að Hinrik heimsækir veitingastaðina og vinnur með þeim að þeim verkefnum sem fyrir liggja.

Innifalið er:

Fyrirlestur: 
Þar sem áhersla verður lögð á mikilvægi þess að skapa sér sérstöðu, uppsetningu matseðla, nýtingu hráefnis úr nærumhverfi ofl.

Ráðgjöf x 2:
Einkaráðgjöf bæði fyrir og eftir heimsókn Hinriks þar sem farið er yfir stöðuna, áskoranir og markmið.

Heimsókn:
Hinrik heimsækir veitingastaðinn, kynnir sér starfsemina betur og vinnur með viðkomandi að þeim markmiðum sem sett hafa verið.

Eftirfylgni: 
Ráðgjafar Vestfjarðastofu í samstarfi við Hinrik vinna saman að því að fylgja eftir þeim verkefnum og markmiðum sem hver og einn hefur sett sér.

Hinrik Carl hefur komið að rekstri fjölda veitingastaða og hefur yfirgripsmikla reynslu af matartengdri vöruþróun. Hann hefur m.a. starfað sem rekstrarstjóri hjá Dill restaurant, bruggmeistari hjá KEX brewing auk þess að hafa verið yfirkokkur á Radisons SAS Hóteli í Kristjansand. Hinrik hefur einnig unnið fyrir Matarauð Íslands í fjölda verkefna og setið í stjórn SlowFood í 3 ár. Í dag starfar hann sem kennari við Hótel og veitingaskóla Íslands.

Áætlað er að verkefnið hefjist í byrjun maí.

Þátttökugjald er 150.000 en meðlimir í  Markaðsstofu Vestfjarða greiða 45.000. 

Skráningareyðublað má nálgast hér, eins er hægt að óska eftir skráningu í Markaðsstofu Vestfjarða inni í sama eyðublaði. 

 * Árgjald í Markaðsstofu Vestfjarða er 45.000