Fara í efni

Styrkúthlutun Áfram Árneshreppur!

Fréttir Áfram Árneshreppur!
Ljósmynd: Skúli Gautason
Ljósmynd: Skúli Gautason

14 verkefni hlutu styrkvilyrði þegar var úr sjóðnum Áfram Árneshreppur! á dögunum. Heildarupphæð styrkveitinga var 7.000.000 kr.

Auglýst var eftir styrkumsóknum í byggðaþróunarverkefnið Áfram Árneshreppur í febrúar 2022. Alls bárust alls 15 umsóknir um styrki, en heildarfjárhæð styrkumsókna nam 21.316.622 kr. 
Umsóknir voru metnar með tilliti til níu mismunandi viðmiðunarþátta:
• Að verkefnið falli vel að skilaboðum íbúaþings og stefnumótun verkefnisins.
• Útkoma nýtist sem flestum íbúum Árneshrepps.
• Að verkefnið trufli ekki samkeppni á þjónustusvæði.
• Leiði til atvinnusköpunar, helst á heilsársgrundvelli.
• Sé líklegt til árangurs og þekking og/eða reynsla sé til staðar.
• Að markaðslegar og/eða rekstrarlegar forsendur séu trúverðugar.
• Áhrifa gæti fyrst og fremst í samfélaginu í Árneshreppi.
• Hvetji til samstarfs og samstöðu.
• Að styrkveiting hafi mikil áhrif á framgang verkefnis.
Enn fremur er gengið úr skugga um að styrkhæfni verkefna sé í samræmi við reglur Byggðastofnunar um styrki í Brothættum byggðum.

Eftirfarandi verkefni hlutu styrkvilyrði. Reiknað er með því að verkefnin komi til framkvæmda á árinu 2022

Sveindís Guðfinnsdóttir - Strandaband - Styrkvilyrði: 1.650.000 kr.
Nýsköpun í atvinnulífi með því að koma á fót ullarverksmiðju sem vinnur prjónaband úr hráull af svæðinu.

Salti síkáti ehf - Reyking á þorski og ýsu - Styrkvilyrði: 400.000 kr.
Reyking þorsks og ýsu til manneldis, einnig harðfiskvinnsla. Gert ráð fyrir að heimaaðilar geti nýtt aðstöðuna þegar vinnslan er ekki í gangi.

Oddný Ágústa Hávarðardóttir - Nytjaplöntur í Árneshreppi - Styrkvilyrði: 200.000 kr.
Tilraunaræktun og úrvinnsla nytjaplantna í Árneshreppi. Fyrstu ræktunartegundir verða iðnaðarhampur og burnirót. Tilraunaverkefni til skamms tíma í fyrsta fasa.

Ferðamálasamtök Árneshrepps - Markaðssetning Árneshrepps - Styrkvilyrði: 600.000 kr.
Sameiginlegt átak aðila til að markaðssetja og kynna Árneshrepp. Verkefninu er ætlað að laða að fleiri ferðamenn í byggðarlagið og hvetja til samstöðu heimamanna. 

Urðartindur ehf - Deiliskipulag fyrir heilsárshús - Styrkvilyrði: 600.000 kr.
Hönnun og hnitsetning deiliskipulags í Norðurfirði. Til stendur að deiliskipuleggja lóðir fyrir heilsárshús bæði til sölu og leigu. 

Arnar Arinbjarnarson - Fjarvinna í Árneshreppi - Styrkvilyrði: 400.000 kr.
Greining á möguleikum til fjarvinnslustöðvar í Árneshreppi.  Afurðin er viðskiptaáætlun eða greiningarskýrsla tilbúin til markaðskynningar.  

Verzlunarfjelag Árneshrepps ehf - Handverkshorn í Verzlunarfjelaginu - Styrkvilyrði: 300.000 kr.
Kaup á ísvél, hátölurum, hillum, hengi, stólum og borðum fyrir handverkshorn í búðinni. Tilgangurinn er að gera Verzlunarfjelagið meira aðlaðandi í anda handverks, verslunar og kaffihúsamenningar og bæta aðbúnað.

Guðmundur Pétursson - Báturinn Mjóni - Styrkvilyrði: 300.000 kr.
Koma þarf upp aðstöðu til að hýsa menningarminjar til varðveislu og sýningarhalds á bátnum Mjóna sem hefur verið gerður upp. Á næsta ári verða 150 ár frá því að hann kom fyrst í Ófeigsfjörð. 

Hótel Djúpavík ehf - The Factory - Styrkvilyrði: 250.000 kr.
Myndlistarsýning í verksmiðjubyggingunum í Djúpavogi. Fjöldi listamanna kemur að sýningunni, innlendir sem erlendir.

Urðartindur ehf - Rafvæðing tjaldstæða - Styrkvilyrði: 200.000 kr.
Framhaldsstyrkur til rafvæðingar á tjaldsvæði. Aukin og bætt þjónusta við ferðamenn.

Hilmar Vilberg Gylfason - Það er heim - Styrkvilyrði: 150.000 kr.
Menningartengt framhaldsverkefni til hönnunar á myndrænni umgjörð fyrir lagið „Víkursveit - það er heim“. 

Baskasetur Íslands - Baskavígin - Styrkvilyrði: 1.000.000 kr.
Framhaldsstyrkur vegna uppbyggingar Baskaseturs í Djúpavík til hönnunar og kaupa á byggingarefnum og sérfræðiráðgjöf. Að baki verkefninu er alþjóðlegur hópur fræða- og listamanna.

Tyler Wacker - Heitur pottur á enda hjólaleiðar - Styrkvilyrði: 250.000 kr.
Hönnun þriggja daga hjólaleiðar um Árneshrepp og markaðssetning á henni. Gert er ráð fyrir samvinnu við þjónustuaðila í byggðarlaginu vegna þessa. Gefur svæðinu tækifæri á að verða hluti af hjólaleið. 

Háireki ehf - Smávirkjun í Húsá í Ófeigsfirði - Styrkvilyrði: 700.000 kr.
Framhaldsstyrkur til efniskaupa og uppsteypu á stöðvarhúsi vegna smávirkjunar í Ófeigsfirði. Rafmagnið verður nýtt m.a. til atvinnusköpunar vegna hreinsunar á æðardúni. Einnig batnar aðgengi að rafmagni á tjaldsvæði og í þremur íbúðahúsum.