Fara í efni

Raforkuspá fyrir Vestfirði - krafa um aukna orkuafhendingu

Fréttir Fjórðungssamband Vestfirðinga Vestfirðir 2035 Skýrslur og greiningar Innviðagreining Innviðir
Flutningslínur raforku á Hjallahálsi
Flutningslínur raforku á Hjallahálsi

Fjórðungssamband Vestfirðinga kynnir í dag skýrslu Eflu - verkfræðistofu um mat á orkuþörf sviðsmynda um mögulega þróun atvinnu og mannlífs á Vestfjörðum árið 2035. Metið er sem svo að raforkuþörf á Vestfjörðum geti verið rúmlega 60% meiri en Orkuspánefnd sem spáir fyrir um og er m.a. lögð til grundvallar tillögu Landsnets að Kerfisáætlun 2020-2029   

Skýrslan var unnin fyrir FV sem hluta af langtímaverkefni sambandsins um eflingu orkuframleiðslu og flutningsmál raforku á Vestfjörðum. Ætlun var að skýrslan yrði kynnt á málþingi nú fyrr í vor en heimsfaraldur kórónuveiru frestaði þeim atburði fram til hausts. Skýrslan var unnin með stuðningi Samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytis.

Í útdrætti skýrslunnar segir ; Út frá sviðsmyndum Vestfirski þjóðgarðurinn og Vestfirðir í sókn sem koma fram í Krossgötum er reiknuð raforkuþörf á Vestfjörðum fram til ársins 2035. Til samanburðar er Raforkuspá Orkuspárnefndar, en í henni er spáð 0,8% aukningu á ári og raforkunotkun verði um 295 GWh árið 2035. Í sviðsmyndinni Vestfirski þjóðgarðurinn mun raforkunotkun dragast sama um 0,1% á ári og spáð að notkun verði 256 GWh. Í sviðsmyndinni Vestfirðir í sókn eykst raforkunotkun um 3,6% á ári og verður um 475 GWh árið 2035. Helstu þættir sem skýra þessar breytingar i sviðsmyndum eru fólksfjöldi, atvinnustarfsemi m.a. í kalkþörungarvinnslu og fiskeldi, fiskafli og hagvöxtur. 

Til upplýsingar er hér tenging á skýrslu Vestfjarðastofu „Á Krossgötum – Sviðsmyndir um mögulega þróun atvinnu- og mannlífs á Vestfjörðum 2035“  en sviðsmyndir skýrslunnar eru lagðar til grundvallar raforkuspár https://www.vestfirdir.is/static/files/Innvidir/nmi_a-krossgotum_loka.pdf