Fara í efni

Jarðgöng á Vestfjörðum – kynningarfundur

Fréttir Fjórðungssamband Vestfirðinga Skýrslur og greiningar Innviðagreining Almenningssamgöngur Innviðir

Vestfjarðastofa fyrir hönd Fjórðungssambands Vestfirðinga hélt fjölmennan fjarfund fimmtudaginn 27. janúar þar sem kynnt var jarðgangnaáætlun fyrir Vestfirði og samfélagsgreining vegna jarðgangna sem unnin var af KPMG. Fundurinn var öllum opinn en öllum sveitarstjórnarmönnum á Vestfjörðum, þingmönnum og embættismönnum í ráðuneytum og stofnunum sem tengjast samgöngumálum var sérstaklega boðið. Fundarstjóri var Jóhanna Ösp Einarsdóttir stjórnarformaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og Vestfjarðastofu.

Í kynningunum var farið yfir þá sameiginlegu sýn Vestfirðinga að áherslu skuli leggja á uppbyggingu heildstæðra atvinnusvæða á norðan og sunnanverðum Vestfjörðum með þremur jarðgöngum, Súðavíkurgöngum og göngum um Mikladal og Hálfdán auk breikkunar Breiðadals- og Botnsheiðarganga. Jafnframt kom fram að jarðgöng eru drifkraftur markmiða stjórnvalda um jákvæða byggðaþróun sem fram koma í Byggðaáætlun, samgönguáætlun og stefnu í málefnum sveitarfélaga.

Á fundinum kom fram að engin jarðgöng á Vestfjörðum eru í gildandi samgönguáætlun og ekki í augsýn fyrr en eftir 2035 ef ekkert verður að gert og var fundurinn í raun ákall til stjórnvalda um að við þá stöðu verði ekki búið. Í samfélagsgreiningu er dregnar fram staðreyndir varðandi vaxandi atvinnulíf, breytingar í samfélagsgerð og kröfum sem gerðar eru til búsetukosta.

Á fundinum afhenti Iða Marsibil Jónsdóttir, formaður innviðanefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga, Sigurði Inga Jóhannssyni, innviðaráðherra og Viljálmi Árnasyni, formanni umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis skýrslurnar og þeir ávörpuðu fundinn.

Ráðherra kynnti vinnu við gerð jarðgangnaáætlun fyrir Ísland og félagshagfræðilega greiningu á áhrifum þeirra og þakkaði vinnu sem unnin hefur verið á Vestfjörðum sem mun nýtast í þá vinnu.

Vilhjálmur Árnason þakkaði góða vinnu og sagði góðan undirbúning og rökfastan málflutning skila árangri. Vilhjálmur fjallaði í ávarpi sínu um mikilvægi samgangna bæði varðandi efnahag, umhverfi og samfélag og sagði Vestfirði eina af „mjólkurkúm“ íslensks þjóðarbús sem þyrfti að gæta að.

Upptaka frá fundinum

Glærur frá fundinum: 

Erindi Aðalsteins Óskarssonar, Vestfjarðastofu

Erindi Sævars Kristinssonar, KPMG