Fara í efni

Vel heppnað málþing um orkumál á Vestfjörðum

Fréttir Fjórðungssamband Vestfirðinga Innviðir

Í gær hélt Vestfjarðastofa fyrir hönd Fjórðungssambands Vestfirðinga málþing um orkumál á Vestfjörðum. Húsfylli var í Edinborgarhúsinu og að auki fylgdust um 40 manns í streymi.

Meginefni málþingsins var að kynna tillögur starfshóps umhverfis- orku og loftslagsráðherra um orkumál á Vestfjörðum. Meginniðurstöður starfshópsins eru að til þess að bæta afhendingaröryggi á Vestfjörðum og tryggja nægilegt afl (ásamt því að auka kerfisstyrk) sé nauðsynlegt að vinna að úrbótum og verkefnum sem snerta náanst alla hluta raforkukerfisins. Þar er átt við meginflutningskerfið, svæðisbundna flutningskerfið, dreifikerfið og síðast en ekki síst orkuframleiðslu innan svæðsins auk jarðhitaleitar.

Dagskráin var þétt og hófst á ávarpi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, síðan tók við stjórnarformaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og Vestfjarðastofu, Jóhanna Ösp Einarsdóttir.

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, formaður starfshópsins kynnti því næst niðurstöður skýrslunnar. Fram kom í máli Eyrúnar að sjö þúsund íbúar Vestfjarða nota rafmagn á við 50 þúsund íbúa á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að hús eru kynnt með rafmagni þar sem ekki er kostur á hitaveitu. Vegna bilana og viðhalds á flutningskerfi raforku á Vestfjörðum getur brennsla á disilolíu í varaaflsstöðvum og olíukötlum hæglega numið 500 tonnum á ári. Ef til kemur alvarleg bilun í flutningskerfi Vestfjarða sem varir dögum saman getur þessi tala margfaldast.

Þorsteinn Másson framkvæmdastjóri Bláma fór yfir áhrif orkuskipta á vestfirska raforkþörf. Þorsteinn benti á þá staðreynd að í slík staða getur komið upp að rafmagnsbíll er hlaðinn með rafmagni sem framleitt er með dísel!

Raforkuframleiðendur sem halda á leyfum vegna orkukosta sem nefndir eru í ramma 3 og 4 kynntu verkefni sín eftir hádegishlé. Þar reið Ríkharður Örn Ragnarsson á vaðið og kynnti Vindorkugarð í Garpsdal og þá undirbúningsvinnu sem þegar er lokið vegna þess verkefnis. Elías Jónatansson fór yfir verkefni Orkubús Vestfjarða sem hefur þá sérstöðu að vera bæði framleiðandi og dreifiveita raforku. Ásbjörn Blöndal stjórnarformaður Vesturverks fór yfir stöðu mála varðandi Hvalá og fleiri virkjanakosti sem í skoðun hafa verið hjá fyrirtækinu og að lokum kynnti Kristinn Pétursson stöðu mála vegna Austurgilsvirkjunar.

Orkumálastjóri Halla Hrund Logadóttir átti síðasta orðið í kynningum dagsins og tók saman helstu atriði sem komið höfðu fram og dró saman stöðu mála.

Í lokin var síðan líflegt pallborð.

Hér má finna upptökur af einstökum erindum og glærur sem notaðar voru.

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis- orku og loftslagsráðherra  ¦  upptaka 

Vestfirðir – fullir af orku  ¦  upptaka

 Jóhanna Ösp Einarsdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga

Skýrsla starfshóps um orkumál á Vestfjörðum  ¦  upptaka - glærur
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, formaður starfshóps um orkumál á Vestfjörðum

Orkuþörf og orkuskipti  ¦  upptaka - glærur
Þorsteinn Másson, framkvæmdastjóri Bláma

Framleiðsla og dreifing raforku á Vestfjörðum
Ríkharður Örn Ragnarsson, EM Orka ¦  upptaka - glærur
Elías Jónatansson, Orkubú Vestfjarða  ¦  upptaka - glærur
Ásbjörn Blöndal, Vesturverk / HS Orka  ¦  upptaka - glærur
Kristinn Pétursson, Austurgil  ¦  upptaka - glærur

Innlegg og samantekt orkumálastjóra  ¦  upptaka
Halla Hrund Logadóttir

Pallborð  ¦  upptaka

Lokaorð   ¦  upptaka