70. Fjórðungsþingi Vestfirðinga að hausti er lokið. Fyrir þinginu lágu 12 ályktanir sem kynntar voru í gær og teknar fyrir í nefndum í dag. Nefndarstörf gengu vel og nokkuð greiðlega.
Samþykkti þingið eftirfarandi 11 ályktanir, sem hægt er að skoða með því að smella á hlekkina: Ályktun stjórnar, Vestfirðir áfram gullkista, ályktun um samgönguverkefni á Vestfjörðum, ályktun um vetrarþjónustu Vegagerðarinnar í Strandabyggð, ályktun um stöðu fjarskiptamála á Vestfjörðum, ályktun um aukið samstarf í fræðslumálum á Vestfjörðum, ályktun um kræklingarækt, ályktun um setningu laga um lagareldi, ályktun um byggðakvóta, ályktun um innviðagjöld, ályktun um fyrirhugaðar breytingar á eftirliti með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum, Ályktun um breytingar samþykkta FV – atkvæðavægi, þá samþykkti þingið árstillag sveitarfélaga og fjárhagsáætlun 2026, auk áætlunar þess efnis til þriggja ára sem má sjá hér undir þingskjölum númer 30. Ein ályktun var felld.
Þingið fór fram í Félagsheimilinu í Hnífsdal og stóð dagana 16. og 17. september. Mættir voru 39 þingfulltrúar með 89% atkvæðavægi að meðtöldum umboðum. Á þriðjudag sóttu þingið Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra og Arna Lára Jóndóttir og María Rut Kristinsdóttir þingmenn kjördæmisins. Á miðvikudag sóttu þingið Jón Björn Hákonarson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem hélt þar erindi og Arnar Þór Sævarsson framkvæmdastjóri sambandsins.
Við lok hefðbundinna þingstarfa í gær, leiddi Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu, stutta sögugöngu um Hnífsdal þar sem meðal annars var kíkt í heimsókn í bátasafnið hjá Inga Bjössa. Þá var farið í heimsókn í HG áður en hópurinn bjóst til sameiginlegs kvöldverðar sem einnig fór fram í Félagsheimilinu í Hnífsdal.