Fara í efni

Bragi Valdimar og Ingvar Örn leiða fund með Sóknarhópi Vestfjarðastofu

Fréttir

Á morgun, þriðjudaginn 6. febrúar, verður haldinn vinnufundur Sóknarhóps Vestfjarðastofu. Fundurinn verður haldinn á Teams frá klukkan 15-17 og leiða þeir Bragi Valdimar Skúlason frá Brandenburg og Ingvar Örn Ingvarsson frá Cohn & Wolfe vinnuna. Vinnufundurinn byggir á því starti sem Sóknarhópurinn fékk á fundi í nóvembermánuði síðastliðnum þar sem yfirskriftin var Hvernig eflum við ímynd Vestfjarða? Á vinnufundinum verður nýjustu tækni beitt til að kalla fram frá viðstöddum þær áherslur sem þeir vilja sjá unnið út frá í ímyndarmálum Vestfjarða. Við munum kafa aðeins undir yfirborðið og finna gildin sem sameina okkur og þau skilaboð sem við viljum senda frá okkur sem heild.

Boð hefur verið sent á meðlimi í Sóknarhópi Vestfjarðastofu með tölvupósti. Margir hafa staðfest þátttöku og viljum við hvetja ykkur sem hyggist vera með að haka við samþykki (accept) svo við getum áætlað hópastærðir sem best. Ef þú ert hluti af hópnum, hvort heldur sem er á atvinnu- og byggðaþróunarsviði eða í gegnum Markaðsstofu Vestfjarða, og hefur ekki fengið boð á fundinn endilega smelltu pósti á Guðrúnu Önnu á gudrunanna@vestfirdir.is og því verður kippt í liðinn. Hafir þú áhuga á að vera hluti af Sóknarhópi Vestfjarðastofu máttu einnig senda okkur póst og við skráum þig til leiks.