Fara í efni

Fundargerð 7. Stjórnarfundar Vestfjarðastofu

26.06.2018 11:00

7. stjórnarfundur Vestfjarðastofu

Haldinn í fjarfundi, þriðjudaginn 26. júní 2018, kl 11.00.

Mætt voru: Pétur G Markan, formaður, Margrét Jómundsdóttir, Jón Örn Pálsson, Sigurður Hreinsson, og Víkingur Gunnarsson. Auk þeirra sátu fundinn Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri og Aðalsteinn Óskarsson og Díana Jóhannsdóttir sviðstjórar. Aðalsteinn og Díana sáu um að rita fundinn.

Ágústa Ýr Sveinsdóttir, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, Ingibjörg Emilsdóttir og Kristján G Jóakimsson boðuðu forföll og ekki tókst að boða varamenn í þeirra stað vegna skamms fyrirvara.

Boðuð dagskrá fundarins er sem hér segir;

  1. Breytingar á samþykktum
  2. Verklagsreglur stjórnar, starfsháttanefndar, faghópa og fagnefnda
  3. Önnur mál

Formaður setti fundinn og bað framkvæmdastjóra um að stýra fundi í samræmi við dagskrá.

1.    Breytingar á samþykktum.
Framkvæmdastjóri lagði fram uppfært minnisblað frá 5. fundi stjórnar Vestfjarðastofu, með tillögum til ársfundar um breytingar á samþykktum Vestfjarðastofu. 

Stjórn hefur þegar samþykkt tillögur um breytingu á 3. gr og 6. gr en nú er gerð tillaga um breytingu á 1. mgr 8. gr. Rætt um efni máls og formaður gerði tillögu um að samþykkja tillögu nr 2. Tillaga formanns samþykkt samhljóða og verði sem hér segir (breyting lituð);

Stjórn stofnunarinnar skal skipuð níu aðalmönnum og jafnmörgum til vara. Skulu fimm þeirra koma af vettvangi sveitarstjórnarmála en fjórir af vettvangi atvinnulífs og menningar. Stjórnarmenn af vettvangi sveitarstjórna skulu vera þeir sömu og skipa stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga. Stjórnarmenn af vettvangi atvinnulífs- og menningar eru kosnir til eins árs á ársfundi fulltrúaráðs. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.

Í framhaldi af samþykkt á breytingu á 1. mgr 8. gr þá er gerð tillaga um breytingu á 10. gr. Rætt um efni máls og formaður gerði tillögu um samþykkja tillögu minnisblaðsins. Tillagan samþykkt og verði því sem hér segir (breyting lituð).

Hlutverk starfsháttanefndar er að vera umsagnaraðili um starfsreglur stofnunarinnar, vinna tillögur til ársfundar um breytingar á samþykktum þessum, leggja fram tillögu um fulltrúa atvinnulífs- og menningar í stjórn stofnunarinnar og starfsháttanefnd, ásamt því að gera tillögu um þóknun stjórnar. Starfsháttanefnd gerir tillögu til stjórnar að siðareglum stjórnar og starfsmanna stofnunarinnar. Ársfundur getur falið starfsháttanefnd önnur verkefni. Fulltrúar í starfsháttanefnd geta ekki jafnframt átt sæti í stjórn stofnunarinnar.

Rætt um samþættingu samþykkta Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfirðinga. Samþykkt að beina til stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga að endurskoða samþykktir sambandsins í samræmi við breytingar á samþykktum Vestfjarðastofu.

2.    Verklagsreglur stjórnar, starfsháttanefndar, faghópa og fagnefnda
Framkvæmdastjóri kynnti tillögu að verklagsreglum stjórnar, starfsháttarnefndar, faghópa og fagnefnda Vestfjarðastofu. Rætt um efni máls.

Formaður gerði tillögu um að samþykkja tillögu um verklagsreglur stjórnar, starfsháttarnefndar, faghópa og fagnefnda Vestfjarðastofu og leggja fram til kynningar á ársfundi Vestfjarðastofu 29. júní n.k.. 

Tillagan samþykkt.

3.    Önnur mál.

a) Undirbúningur að skipan fulltrúa í svæðisráð strandsvæðaskipulags á Vestfjörðum.  Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðaþróunar kynnti minnisblað um nýsamþykkt lög á Alþingi um skipulag haf- og strandsvæða, mál 425, 148. löggjafarþing. Lögin hafa þegar tekið gildi.

Samkvæmt bráðabrigðaákvæði frumvarpsins skal þann 1. september n.k. vera hafinn vinna að gerð strandsvæðaskipulags á Vestfjörðum, á svæði sem nær frá Bjargtöngum að Straumnesi. Aðliggjandi sveitarfélög að fyrirhuguðu strandsvæðaskipulagi eru Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður, Súðavíkurhreppur og Strandabyggð. 

Umhverfisráðherra skipar samkvæmt 2. mgr 5. gr, átta manna svæðisráð til að annast gerð strandsvæðaskipulags, þar af koma þrír fulltrúar aðliggjandi sveitarfélaga og einn fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Skipulagsstofnun fer með framkvæmd skipulagsvinnu í umboði svæðisráðs.

Í minnisblaði er bent á að skammur tími er til stefnu, en samtímis er um brýnt hagsmunamál að ræða og mikilvægt að hefja nú þegar undirbúning þess. Skipan svæðisráðs er þar fyrsta viðfangsefnið og stjórn Vestfjarðastofu geti boðist til að taka frumkvæði í þeim efnum gagnvart sveitarfélögunum.

Rætt um efni máls. Formaður gerði að tillögu; Vestfjarðastofa sendi erindi til viðkomandi sveitarfélaga þar sem gert er að tillögu að sveitarfélög á norðanverðum Vestfjörðum, skipi einn fulltrúa, sveitarfélög á sunnanverðum Vestfjörðum skipi einn fulltrúa og sveitarfélög á Ströndum og Reykhólahreppi einn fulltrúa. Leitað verði til Sambands íslenskra sveitarfélaga um að skipa sinn fulltrúa úr héraði.

Tillagan samþykkt.

Rætt um skipan samráðshóps samkvæmt f lið 5. gr. Formaður gerði tillögu; Stjórn Vestfjarðastofu beinir því til umhverfisráðherra að nýta ákvæði um fjölgun fulltrúa í samráðshópi um þrjá í átta og þeir fulltrúar komi m.a. úr sjávarútvegi og fiskeldi. Vestfjarðastofa geti verið ráðherra til ráðgjafar í málinu ef óskað er.

Tillagan samþykkt.

b) Tillaga að endurskoðaðri fjárhagsáætlun 2018 og fjárhagsáætlun 2019.

Framkvæmdastjóri kynnti tillögu að endurskoðaðri fjárhagsáætlun 2018 og fjárhagsáætlun 2019. Rætt um efni máls og samþykkt að leggja tillöguna fyrir ársfund Vestfjarðastofu, 29. júní n.k..

 c) Tillaga að merki Vestfjarðastofu.

Framkvæmdastjóri kynnti að nýju tillögu að merki Vestfjarðastofu í samræmi við umræðu frá 5. fundi stjórnar. Með tillögunni fylgir hönnunarstaðall fyrir lit, svarthvítt og gráskalað merki. Stjórn fellst á þessa tillögu og felur framkvæmdastjóra að kynna tillöguna á ársfundi Vestfjarðastofu þann 29. júní n.k..

Fleira ekki gert og fundi slitið kl 12.00.