Fara í efni

Fundargerð 27. fundar stjórnar Vestfjarðastofu

12.05.2020 14:00

Fundargerð aukafundar stjórnar Vestfjarðastofu haldin í fjarfundi fimmtudaginn 12. maí 2020, kl 11.30.

Mætt voru: Hafdís Gunnarsdóttir, formaður, Ágústa Ýr Sveinsdóttir, Iða Marsibil Jónsdóttir, Jóhanna Ösp Einarsdóttir,  Kristján Jón Guðmundsson, Kristján G. Jóakimsson, Sigurður Hreinsson og Víkingur Gunnarsson.  Auk þess sátu fundinn Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri og Aðalsteinn Óskarsson sviðsstjóri sem ritaði fundargerð.

Boðuð dagskrá fundarins er sem hér segir;

1. Afgreiðsla tillögu um átaksverkefni vegna Covid 19

Formaður setti fundinn og kynnti að Hólmfríður Vala Svavarsdóttir hefði boðað forföll og vegna skamms fyrirvara hefði ekki tekist að boða varamann í hennar stað.

Aðalsteinn óskaði eftir að gerð yrði tillaga um breytingu á dagskrá og fundagerð 26. fundar væri tekin til afgreiðslu. Tillagan samþykkt.

1. Fundargerð 26. stjórnarfundar

Fundargerð 26. stjórnarfundar Vestfjarðastofu frá 7. maí s.l. lögð fram  til staðfestingar. Fundargerð hafði áður kynnt á svæði stjórnar. Fundargerð borin upp og samþykkt.

2. Afgreiðsla tillögu um átaksverkefni vegna Covid19.

Formaður kynnti að áður en tillaga um átaksverkefni vegna Covid19 væri tekin til umræðu þá færi fram umræða um hæfi stjórnarmanna um afgreiðslu tillögunnar með vísan til kafla um vanhæfni í Verklagsreglum fyrir stjórn.  

Óskaði formaður eftir að stjórnarmenn gerðu grein fyrir hæfi sínu ef þeir teldu það orka tvímælis, eða þeir teldu aðrir stjórnarmenn væru í þeirri stöðu við afgreiðslu tillögu um átaksverkefni vega Covid19.

Enginn stjórnarmanna tók til máls og úrskurðaði formaður að stjórn væri þar með hæf til afgreiðslu tillögu um skiptingu fjármagns til átaksverkefna vegna Covid 19.

Framkvæmdastjóri vísaði til samþykktar 26. fundar um að vinna tillögu á grundvelli umræðu stjórnarfundar. Upphaflega hefði verið miðað við að tillagan væri afgreidd með tölvupósti eigi síðar en 11. maí s.l., en í samráði við formann var boðað til aukafundar til afgreiðslu málsins. 

Framkvæmdastjóri kynnti forsendur við afgreiðslu tillögunnar og hvernig þeim yrði fylgt eftir, eða sem hér segir:

  • Verkefni gætu haft atvinnuskapandi áhrif hratt en einnig með áherslu á störf til framtíðar
  • Verkefni vektu athygli á Vestfjörðum sem valkosti fyrir ferðalög sumarisins fyrir íslendinga og þannig komið til móts við erfiða stöðu ferðaþjónustu
  • Verkefni hefðu nýsköpunargildi fyrir Vestfirði
  • Áhersla var á að verkefnin nýttust sem mest fyrir allt svæðið 

Framkvæmdastjóri kynnti efni tillögunnar, sem hér segir:

  1.  Verkefni til að efla ferðaþjónustu – kr. 21.500.000
    1. Kvikmyndaverkefni: Verkefnið felst í endurgreiðslum á kostnaði sem verður til innan Vestfjarða vegna kvikmyndaverkefna sem fyrirhuguð eru s.s. gisting, veitingar ofl. Hámarksstyrkur fyrir hvert verkefni er kr. 5 milljónir. Verkefnið hefur burði til að nýtast bæði aðilum í gistingu og veitingum og skapa umtalsverð umsvif á svæðinu. Kr. 10.000.000
    2. Viðburðadagskrá á Vestfjörðum: Unnið út frá hugmynd umGÚRMEFLAKK UM VESTFIRÐI (smakkað og flakkað um Vestfjarðahringinn) Tónlistarfólk og hljómsveitir ferðast Vestfjarðahringinn með nokkrum stoppistöðvum þar sem boðið er upp á tónleika ásamt einhvers konar matarupplifun. Veitingastaðir, menningarhús og aðrir rekstraraðilar í ferða- og veitingaþjónustu búa til þétt net af viðkomustöðum í hringferðinni og úr verður kort af girnilegu Gúrmeferðalagi. Verkefnið tengist fleiri tillögum um viðburðadagskrár sem sendar voru inn – kr. 6.500.000
    3. Markaðsátak fyrir ferðaþjónustu: Ný vefsíða og markaðsátak sem hægt er að koma strax af stað og ýta undir komur innlendra ferðamanna á árinu 2020 en nýtist einnig til framtíðar við markaðssetningu til erlendra ferðamanna á næstu árum. Í þessu verkefni er einnig gert ráð fyrir kostnaði við birtingaráætlun fyrir sumarið 2020. Nýtist einnig Vestfjarðaleiðinni.  – kr. 5.000.000
    4. Nýsköpun í starfandi fyrirtækjum – kr. 16.000.000
      1. Oddi: Flýting á verkefni Odda hf á laxavinnslu. Verkefnið snýst um að flýta og skapa með því bæði sumarstörf og störf til framtíðar við vinnslu á laxi á Patreksfirði.  Samstarfsverkefni Odda og fiskeldisfyrirtækja sem miðar að aukinni verðmætasköpun laxaafurða til útflutnings.  kr. 7.000.000
      2. 3X Technology: Verkefnið felst í þróun og smíði á tæki til að ná í nýtanlegra ástandi þeim hluta laxaflaks, sem verður eftir á hryggnum við flökun. Þróunarvinnan skapar 10-12 störf til skamms tíma og framleiðsla tækis skapa til framtíðar 2-4 ársstörf hið minnsta við vélahönnun, rafhönnun, forritun, stálsmíði og samsetningu. Verkefni skilyrt við að störf verði til við starfsstöð á Ísafirði.  kr. 7.000.000
      3. Þörungaklaustur: Þróun á þörungasafa við Þörungaklaustur á Reykhólum og styrkari stoðir við þróunarstarf Þörungaklausturs. kr. 2.000.000
      4. Samstarfsverkefni í orkumálum: kr. 7.500.000

Samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Vestfjarðastofu, Fjórðungssambands Vestfirðinga, Orkubús Vestfjarða og mögulega fleiri á Vestfjörðum um að fara í samstarfsverkefni um orkumál og sjálfbærni á Vestfjörðum. Verkefnið væri sambærilegt verkefninu Eimur á Norðurlandi.  Gert ráð fyrir að ráða 2 fasta starfsmenn og a.m.k. 2 sumarstarfsmenn á þessu ári, 2021 og 2022. Mögulegt framhald eftir það ef vel gengur.

Formaður gaf orðið laust, til máls tóku allir stjórnarmenn og lýstu sig samþykka áherslum tillögunnar að velja færri og stærri verkefni og samþykki fyrir tillögu um skiptingu fjármagns.

Jafnframt þökkuðu stjórnarmenn öllum þeim aðilum sem sendu inn tillögur. Stjórnarmenn beindu því einnig til framkvæmdastjóra að haft verið samband við alla aðila og kannað hvernig koma megi tillögum þeirra í farveg. Kannað verði hvort vinna megi að tillögu í samstarfi við Vestfjarðastofu og eða fundin leið s.s. innan annarra verkefnasjóða s.s. Uppbyggingsjóðs Vestfjarða eða verkefnasjóða sem starfa á landsvísu.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl 12.10.