Fara í efni

Fundargerð 3.des 2014

03.12.2014 11:00

Símafundur framkvæmdarráðs umhverfisvottunar

 Miðvikudagur 3. desember 2014

Mættir á fundinn: Ásthildur Sturludóttir Vesturbyggð,  Elías Jónatansson Bolungarvíkurkaupstað,  Elín Agla Briem Árneshreppi, Indriði Indriðason Tálknafjarðarhreppi, Pétur G. Markan Súðavíkurhreppi, Sandra Rún Björnsdóttir Reykhólahreppi og Lína Björg Tryggvadóttir FV sem einnig skrifaði fundargerð.

1. Eina málið á dagskrá  var að fara yfir og koma með athugasemdir er varða Framkvæmdaráætlun sem send var til fundarmanna þann 10. nóvember 2014.

a) Ásta Þórisdóttir Strandabyggð lét vita að hún gæti ekki komið á fundinn og sendi inn ábendingar í tölvupósti sem farið var yfir á fundinum. Hefur þeim verið bætt inn í skjalið þar sem það þótti eiga við.  

b) Elías Jónatansson kom með ábendingar um hluti sem þyrfti að laga í skjalinu og hafa þau atriði verið löguð.

c) Rætt var um þau markmið sem sett eru í áætlunina,  eins og plastpokalausir Vestfirðir 2017 og voru fundarmenn sammála um að setja ætti „ að mestu plastpokalausir Vestfirðir árið 2017“ til þess að markmið verði ekki of háleit og jafnvel ekki mögulegt að framfylgja.

d)  Rætt var um moltugerð – kom upp sú tillaga að sveitarfélögin færu sameiginlega í þá vinnu, það er að samliggjandi sveitarfélög tæku sig saman við að kaupa þann búnað sem til þarf.

Flest ef ekki öll sveitarfélög á Vestfjörðum hafa hafið flokkun á sorpi og koma Vestfirðir nokkuð vel út varðandi það. Í framkvæmdar skýrslunni er komið inn á þann punkt að „Tekið verði upp þriggja tunnu kerfi þar sem heimilissorp er flokkað í þrjár mismunandi tunnur, græn tunna ætluð undir endurvinnanlegt efni, brún tunna undir lífrænan úrgang og grá tunna undir almennt óendurnýtanlegt sorp“ Var þetta að einhverju leiti rætt á fundinum en ekki kom nein niðurstaða hvort að þessi punktur eigi að vera í skjalinu.

e) Rætt var um hvort að kveða eigi sterkara að orði varðandi það að hvort sveitarfélögin hættu að nota eiturefni varðandi illgresiseyðingar og nota önnur ráð s.s salt.  Ekki var tekin nein ákvörðun varðandi það hvort að ráðið telji að sú tillaga eigi að vera sett inn í skjalið.

e) Elín Agla benti á að ekki væru neinir skilgreindir sjálfbærnivísar fyrir lykilsvið 12 Verndun menningarminja og kom hún  með uppástungu um að sveitarfélögin á Vestfjörðum myndu setja sér sjálf sjálfbærnivísa. Ætlaði hún að koma með tillögu þess efnis og einnig voru fundarmenn beðnir um að koma með ábendingar varðandi það ef þeir gætu.

f) Rætt var um notkun vatns og mælingar þess. Verkefnastjóri átti í miklum vandræðum að fá upplýsingar um notkun vatns sveitarfélagana á síðasta ári þar sem ekkert sveitarfélagana var búið að skila inn gögnum varðandi það til Veðurstofunnar í september á síðasta ári. Veðurstofan hefur haldið utan um gögn varðandi vatnsnotkun síðustu ár. Rætt var um að úr þessu þyrfti að bæta þar sem útilokað er fyrir sveitarfélögin að fá gull vottun ef gögnum er skilað svo seint á árinu. Árið 2015 er áætlað að skila inn gögnum ekki seinna en í endaðan mars og því þurfa gögn frá sveitarfélögunum að liggja fyrir ekki seinna en í febrúar 2015.

g) Farið var yfir hvernig ætti að kynna verkefnið fyrir almenningi og ákveðið var að kynning á verkefninu ætti að fara fram í sveitarfélögunum sem fyrst eftir áramót. Verkefnastjóri myndi vilja vera á þeim kynningum til þess að geta svarað þeim spurningum sem vænta má að komi. Var rætt um að sú kynning yrði einnig nýtt fyrir atvinnulífið í sveitarfélögunum þar sem mörg fyrirtæki, þá einkum á sunnanverðum Vestfjörðum hafa verið að spyrjast fyrir um framgang verkefnissins.

h) Rætt var um fræðslu til almennings varðandi orkunýtingu og sparnað og var komið inn á það að fá Orkubú Vestfjarða með í þá kynningu. Verður þetta atriði skoðað nánar af verkefnastjóra.

i) Ekki meira gert en fundarmenn voru beðnir um að lesa yfir áætlunina og koma með ábendingar ekki síðar en í 17. nóvember 2015 þar sem það þarf að senda áætlunina í sveitarfélögin níu þar sem sveitarstjórnir þurfa að taka hana fyrir og afgreiða. 

 

Fundi slitið kl. 11:25