Fundargerð stækkaðar samgöngunefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga haldinn í fjarfundi þann 11. nóvember 2020 kl 10.00.
Mætt voru Iða Marsibil Jónsdóttir, formaður, Þórkatla Soffía Ólafsdóttir, Eva Sigurbjörnsdóttir, Sigurður Jón Hreinsson, Sif Huld Albertsdóttir, Finnur Ólafsson og Jón Gísli Jónsson. Auk þess sat fundinn Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri.
Á fundinn var mættur Ólafur Guðmundsson, sérfræðingur í umferðaöryggi.
- Kynning fundarefnis.
Aðalsteinn opnaði fundinn og kynnti aðdraganda verkefnisins Öryggisúttekt á Vestfjörðum sem samið var við Ólaf Guðmundsson fyrr á þessu ári um að vinna fyrir Fjórðungssamband Vestfirðinga.
Formaður lagði áherslu á að verkefnið ætti að geta greint hvar öryggi væri mest áfátt og að samræma áherslur gagnvart stjórnvöldum.
2. Kynning fyrstu niðurstaðna.
Ólafur kynnti vinnu að álíka verkefnum í öðrum landshlutum og öryggisúttekt sem gerð var í samstarfi Eurorapport og Vegagerðarinnar árið 2018 á umferðarþyngstu vegum landsins. Hann kynnti yfirlit um slysatíðni á Vestfjörðum og samanburð við aðra landshluta. Hann kynnti síðan helstu niðurstöður á greiningu á ástandi vega á Vestfjörðum, en greining fór fram með akstri um vegina og skráningu með myndum og hreyfimyndum.
3. Umræður.
Til máls tóku Iða, Sigurður, Sif Huld, Jón Gísli, Eva, Finnur og Aðalsteinn og Ólafur var til svara.
Samantekt. Mjög lítill hluti vegakerfis á Vestfjörðum stenst evrópska staðla um öryggi en það er einnig almennt um vegakerfið á Íslandi. Hámarkshraði ræður hér miklu, en með 90 km hámarkshraða á vegi með slitlagi lækkar öryggisstuðla mjög mikið, lækkun hámarkshraða myndi hækka öryggi en það vinnur gegn flæði umferðar. Með mikilli fjölgun ferðamanna hækkaði hlutfall vegfarenda, sem eru að ferðast í fyrsta sinn um viðkomandi svæði og meta verður öryggi vega á þeim grunni.
Einkennandi fyrir vestfirska vegi er
- næst hæsta hlutfall malarvega á Íslandi
- lélegar yfirborðsmerkingar á vegum með slitlagi
- fjöldi einbreiðra brúa
- ástand bundins slitlags víða komið að hættumörkum endist í 2-4 ár í viðbót
- einkennandi „bútasaumur“ vegkafla af mismunandi gæðum á sama vegnúmeri og eða útskotsvegir t.d. að áhugaverðum áfangastöðum eru af mun lægri gæðum
- uppsetning leiðbeinandi skilta við vegamót skerðir útsýni
- grjót í vegrásum
- lausagangur búfjár
Úrbætur
- víða má setja bundið slitlag á malarvegi án mikils undirbúnings en meta um leið lækkun hámarkshraða.
- gera kröfu um yfirborðsmerkingar verði í samræmi við aðra staði á landinu. Umferðaþungi á í engu að skipta.
- setja upp ræsi í stað lítilla brúa, umferðarþungi á þar engu að skipta, þarf þó að meta með hliðsjón af flóðahættu
- aukið fjármagn í viðhald vega s.s. endurnýjun burðarlags
- forgangsraða verkefnum til að útrýma „bútasaum“
- sveitarfélög og Vegagerð geri átak í að færa leiðbeinandi skilti sem hindra nú útsýni
- hreinsa grjót úr vegrásum vor og haust
- girða fjölfarna vegi
Önnur atriði. Nauðsyn á að gera einnig úttekt að vetri til með hliðsjón af vetrarþjónustu og ræða við Vegagerð. Skipulagssvið sveitarfélaga eða sértækar umferðarnefndir fái aðgengi að gögnum. Fram kom að tækifæri var nýtt til að safna gögnum um gatnakerfi í þéttbýli og geta sveitarfélög fengið aðgengi að þeim með samningi við Ólaf.
Næstu skref. Samgöngunefnd fari yfir gögn, samræmi nálgun og setji fram forgangsröðun. Fara í framhaldinu með kynningu og kröfugerð gagnvart þingmönnum, ráðuneyti og Vegagerð. Gögn verði birt á heimasíðu Vestfjarðastofu til kynningar fyrir íbúum og fyrir sveitarfélög til að vinna að sértækum málum.
Fram kom að boðað hefur verið til almennrar kynningar fyrir sveitarstjórnarfulltrúa með hádegisfundi þann 12. nóvember n.k..
Fleira ekki gert og fundi slitið 11.50