Fara í efni

Ársfundur Vestfjarðastofu 2021

02.06.2021 13:30

Ársfundur Vestfjarðastofu haldinn á Reykhólum 2. júní 2021

Jóhanna Ösp Einarsdóttir Formaður Vestfjarðastofu setur fundinn og leggur til að Ólafur Þór, sveitarstjóri á Tálknafirði, verði fundarstjóri. Ólafur kjörinn fundarstjóri með lófataki.

Ólafur tekur við og leggur til að Guðrún Anna Finnbogadóttir og Sigurður Líndal verði ritarar á fundinum. Kjörið með lófataki. Ólafur ber upp lögmæti fundarins, engar mótbárur og telst því löglega til fundsins boðað.

Auk þess leggur Ólafur til að 5 og 6 lið þessarar dagskrár verði frestað til lok fundar vegna eðli þeirra mála, tillagan samþykkt samhljóða.

1)    Erindi sem varða málefnasvið Vestfjarðastofu

Sóknaráætlun Vestfjarða – Sigríður Ó. Kristjánsdóttir

Sigríður kynnti ferli við innleiðingu og framkvæmd Sóknaráætlunar Vestfjarða, fór yfir verkefni sóknaráætlunar og hvernig kynningu á verkefninu var háttað. Sóknaráætlun er lykilþáttur í starfsemi Vestfjarðastofu. Á árinu 2020 var aukafjármagni veitt til Sóknaráætlana landshlutanna vegna Covid-19 og var 25,2 milljónum veitt til Sóknaráætlunar Vestfjarða og Fjórðungssamband Vestfirðinga lagði til 19,8 milljónir til viðbótar þannig að 45 milljónum króna var varið í verkefni vegna Covid-19 á Vestfjörðum.  

Meðal áhersluverkefna ársins 2020 eru Vestfjarðaleiðin, Visit Westfjords, styrkir til Nýsköpunar og samfélagsmiðstöðva, gerð nýrrar Samgönguáætlunar og Sýnileiki Vestfjarða er verkefni sem sjónvarpsstöðin N4 unnu fyrir Vestfjarðastofu haustið 2020 voru um 30 innslög gerð um mannlíf og atvinnulíf og nú er verið að vinna að næstu 30 með áherslu á ferðaþjónustuna á Vestfjörðum. 

Farið yfir helstu áherslur Sóknaráætlunar og sviðsmyndirnar sem þar eru. Markmið eru mælanleg, en markmið eru aðeins sett þar sem mælanleg gögn eru til staðar. Fundarmenn hvattir til að lesa hana yfir nú þegar við erum hálfnuð í verkefninu sem hófst haustið 2019.  Sóknaráætlun talar inn í heimsmarkmiðin. Sigríður kynnir Þorstein sem mun kynna Bláma. Ólafur Þór gefur Þorsteini orðið.

Dæmi um áhersluverkefni

i.    Blámi – Þorsteinn Másson
Þorsteinn kynnir starfsemi Bláma, orkuskipti í sjávartengdri starfsemi og tækifæri því tengt. Þorsteinn fór yfir ýmsar leiðir sem hið opinbera gæti nýtt til að koma að orkuskiptum með jákvæðum hætti og tækifæri Vestfjarða í orkuskiptum. Helstu tækifæri gætu verið orkuívilnun, þörungarækt/þaravinnsla, nýting á glatvarma, hvatar í gegnum umhverfissjóð/auðlindagjald, framleiðsla/nýting á metan til hitunnar á vatni, framleiðsla/afhending/nýting á rafeldsneyti, þróun/prófun á rafeldsneyti og að fyrirtæki sem færu í grænar lausnir fengju einhverjar ívilnanir frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða úr öðrum sjóðum.

ii.    Vestfjarðaleiðin – Díana Jóhannsdóttir
Verkefnið gekk lengi undir nafn nafninu Hringvegur 2 en fékk svo nafnið Vestfjarðarleiðin eftir mörkunarvinnu. Vestfjarðarleiðin er ný ferðamannaleið sem fór í loftið við opnun Dýrafjarðargangna þegar hringurinn opnaðist og er samstarfsverkefni Vestfirðinga og Dalamanna. Díana kynnir í þessu samhengi verkefnið “Upplifðu” sem nýtist ferðaþjónum til markaðssetningar. Díana fer yfir verkefnin framundan, stuðning við ferðaþjóna og áherslur markaðsstofunnar. „Keyrðu Kjálkann“ er markaðsherferð á innanlandsmarkaði.

2)    Skýrsla stjórnar – Jóhanna Ösp Einarsdóttir
Jóhanna kynnir skýrslu stjórnar og vísar í Ársskýrslu Vestfjarðastofu.
Sjá Ársskýrslu Vestfjarðastofu

3)   Staðfesting ársreiknings – Sigríður Ó. Kristjánsdóttir 
Lagðir fram til staðfestingar, opið fyrir umræður.Sigríður kynnir ársreikning Vestfjarðastofu árið 2020. Enginn kveður sér hljóðs til að bera upp spurningar. Ársreikningur borinn upp til atkvæða og samþykktur samhljóða. 

4)    Fjárhags- og starfsáætlun kynnt – Sigríður Ó. Kristjánsdóttir
 Fjárhags- og starfsáætlun Vestfjarðastofu fyrir árið 2021 kynnt.  Borin upp til atkvæða og samþykkt.

5)    Breytingar á samþykktum – Jóhanna & Sigríður 
Óskað eftir umboði til að halda áfram með vinnu sem er í gangi  og lagt fyrir að  fundi verði frestað til hausts 2021- fer aftast – verður liður 9

6)    Staðfesting á starfsreglum stjórnar og nefnda Vestfjarðastofu   - fer aftast – verður liður 9

7) Kosningar: Baldur Smári Einarsson - starfsháttanefnd

a. Kjör stjórnar
Baldur flytur tillögu starfsháttanefndar um fulltrúa í stjórn Vestfjarðastofu

Aðalmenn í stjórn:

  • Aðalbjörg Óskarsdóttir, Kaupfélag Steingrímsfjarðar
  • Elísabet Gunnarsdóttir, Háskólasetur Vestfjarða
  • Kristján G. Jóakimsson, Hraðfrystihúsið Gunnvör
  • Neil Shiran Þórisson, Arctic Sea Farm

Varamenn í stjórn:

  • Inga Hlín Valdimarsdóttir, Hnjóti
  • Marta Guðrún Jóhannesdóttir, Kaldrananeshreppi
  • Halldór Halldórsson, Íslenska kalkþörungafélagið
  • Linda Pálsdóttir, Vesturferðir 

Tillaga til stjórnarkjörs tekin til umfjöllunar. Fundarstjóri leyfir afbrigði frá fundarsköpum til að ræða tillögu starfsháttanefndar.

Friðbjörg Matthíasdóttir, fulltrúi Vesturbyggðar, tók til máls um stjórnarkjör og óskaði eftir frekari skýringum frá formanni starfsháttanefndar um tillögu hennar, og hví tillagan er ekki með þeirri svæðisskiptingu sem hefð er fyrir að það komi fulltrúi frá öllum svæðum Vestfjarða.

Baldur skýrir að óskað hafi verið eftir framboðum til fjögurra stjórnarsæta, og aðeins hafi komið fjögur framboð og því sé tillagan með þessum hætti.

Gengið til atkvæða að aflokinni skýringu Sigríðar Ó Kristjánsdóttur á hverjir hafi atkvæðisrétt á ársfundi fulltrúaráðs Vestfjarðastofu.
8 aðilar með atkvæðarétt voru mættir á fundinn og 6 samþykkir og enginn á móti.

b. Kjör endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis
Starfsháttanefnd leggur til að Endurskoðun Vestfjarða verði endurskoðunarfyrirtæki Vestfjarðastofu. Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum

c. Kjör nefnda
Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum

8) Ákvörðun um þóknun stjórnar og framkvæmdastjórnar – Baldur Smári Einarsson
Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum

9) Breytingar á samþykktum – Jóhanna & Sigríður (fært aftast)
Ákveðið að fara í breytingar á samþykktum til að skýra tengsl atvinnulífsins og sveitarfélaganna við Vestfjarðastofu. Það þarf líka að skýra  atkvæðahlutfall það er hversu margir með atkvæðisrétt eru á fundinum eins og staðan er núna er það ekki skilgreint.

Vestfjarðastofa hefur verið að skoða hvernig málum er háttað á Austfjörðum en þar er komin lengri reynsla af sama fyrirkomulagi og Vestfjarðastofa þar sem atvinnuþróunarfélögin og fjórðungssamböndin voru sett undir einn hatt.

Það eru 28 aðilar í fulltrúaráði þar sem sveitarfélögin hafa öll einn fulltrúa, stofnanir hafa ákveðinn fjölda og fyrirtækin hafa í raun ekki mjög marga fulltrúa.  Bornar voru saman samþykktir Austurbrúar og Vestfjarðastofu til að meta hvernig best væri að þróa Vestfjarðastofu.

Eingöngu sveitarfélög og stofnanir sem geta verið stofnaðilar fyrir austan.  Svo hefur verið bætt við hagsmunaaðilum á Vestfjörðum er það eingöngu ferðaþjónustan sem greiðir árlegt framlag til stofnunarinnar. 

Meðal mögulegra tillagna gæti verið að stofna fagráð Vestfjarðastofu þar sem aðrir aðilar en sveitarfélögin eru.  Kosið í fagráðið úr hópi hagsmunaðila sem eru í hópnum.

Óskað eftir umboði fundarins til að halda áfram vinnu við breytingar á samþykktum Vestfjarðastofu.

Fundarstjóri leggur til að ársfundi verði frestað til hausts. Fundarstjóri gefur orðið laust.

Til máls tóku Ingimar Ingimarsson, Peter Weiss, Sigríður Ó. Kristjánsdóttir og Friðbjörg Matthíasdóttir

10)  Önnur mál

Engin erindi hafa borist til fundarins um önnur mál og enginn óskaði eftir að taka til máls undir þessum lið.

Formaður þakkar fráfarandi stjórn, starfsmönnum fundarins og Hótel Bjarkalundar.

Fundarstjóri leggur fram tillögu um frestun, og litið er svo á að fundarfrestun jafngildi samþykki fyrir yfirferð samþykktanna. Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Fundarstjóri frestar ársfundi til hausts

Fundarstjóri þakkar fundarmönnum og slítur fundinum kl. 15.36