Fara í efni

Úthlutun úr fiskeldissjóði

Fiskeldi á Vestfjörðum
Fiskeldi á Vestfjörðum

Matvælaráðuneytið tilkynnti í dag aðra úthlutun Fiskeldissjóðs. Úthlutað var 185,1 milljón króna og það vor sex sveitarfélög sem fengu úthlutun að þessu sinni en á síðu ráðuneytisins má sjá að úthlutunina sem er svohljóðandi:

Eftirfarandi níu verkefni frá sex sveitarfélögum hlutu styrk:

  • Vatnsveita í Bolungarvík, bygging miðlunartanks, Bolungarvíkurkaupstaður, 33,4 milljónir kr.
  • Endurnýjun vatnslagna í Staðardal, Ísafjarðarbær (framhaldsverkefni), 33,4 milljónir kr.
  • Nemendagarðar Háskólaseturs, frágangur lóðar, Ísafjarðarbær, 16 milljónir kr.
  • Fráveituframkvæmdir í Djúpavogi (framhaldsverkefni), Múlaþing, 32,4 milljónir kr.
  • Smitvarnir í Súðavíkurhöfn, Súðavíkurhreppur, 4,1 milljón kr.
  • Uppbygging á hafnarsvæði, Tálknafjarðarhreppur, 28,8 milljónir kr.
  • Áhaldahús og slökkvistöð á Bíldudal, Vesturbyggð, 22,6 milljónir kr.
  • Vatnsöryggi í Vesturbyggð, (framhaldsverkefni), Vesturbyggð, 4,1 milljón kr.
  • Öruggar gönguleiðir, gerð gangstétta, Patreksfirði, Vesturbyggð, 10,3 milljónir kr.

Þrjú af ofangreindum verkefnum fengu einnig styrk við úthlutun 2021.

Það vakti athygli við fyrstu úthlutun úr sjóðnum að aðeins 33% komu til Vestfjarða sem hafa verið í uppbyggingu fiskeldis síðastliðin áratug en í þessari úthlutun koma 82% til Vestfjarða. Taflan sýnir hvernig úthlutun hefur verið háttað milli þeirra landshluta sem stunda fiskeldi í opnum sjókvíum árið 2021 og 2022 ásamt hlutfallstölum.

Á síðasta ári var úthlutað úr fiskeldissjóði 34.351.497 kr til Vestfjarða eða 33% af heildarúthlutuninni en 70.654.503 kr eða 67% til Austfjarða. Úthlutunin nú er 152.700.000 kr eða 82% til Vestfjarða og 32.400.000 kr til Austfjarða. Þetta gerir fyrir úthlutanirnar 2021 og 2022 samanlagt 187.051.497 kr og 64% til Vestfjarða og 103.054.503 kr eða 36 % til Austfjarða eða í heildina 290.106.000 kr sem hefur verið úthlutað.

Fiskeldi er atvinnugrein sem hefur verið í hröðum vexti síðastliðinn áratug á Vestfjörðum í sveitarfélögum sem hafa verið í varnarbaráttu fleiri áratugi á undan vegna fólksfækkunar og breyttra atvinnuhátta.

Vestfjarðastofa skilaði umsögn um Fjálmálaáætlun fyrir árin 2023-2027 fyrir tveimur vikum. Í umsögninni er áhersla lögð á hraðari uppbyggingu innviða fiskeldissveitarfélaga og dregið fram mikilvægi þess að sveitarfélög á Vestfjörðum geti sinnt þeirri innviðauppbyggingu sem nauðsynleg er til að tryggja að vöxtur vegna fiskeldis skili sér til samfélaganna í fjölgun íbúa og auðugra mannlífs.

Í umsögninn er lögð áhersl á hröðun uppbyggingar innviða fiskeldissveitarfélaga.

  • Hlutdeild fiskeldissveitarfélaga (sveitarfélög sem eiga land að sjó þar sem eldi á frjóum laxi er heimiluð) á framlögum Fiskeldissjóðs verði hækkað og nemi að lágmarki 80% af tekjum sjóðsins frá og með árinu 2022.
  • Beint verði til ríkisstjórnar að lögum um gjaldtöku í fiskeldi verði breytt á þann hátt að Fiskeldissjóður verði lagður niður og framlög sjóðsins renni til rekstur A hluta fiskeldisveitarfélaga. “

 

Nú rennur 1/3 framlaga Fiskeldissjóðs til fiskeldissveitarfélaganna og 2/3 til ríkisins en það er skýr krafa samfélaga á Vestfjörðum að hærra hlutfall renni til sveitafélaganna til að geta mætt kröfum um hraða uppbyggingu innviða. Vekja má athygli á því að sú upphæð sem sjóðurinn er að úthluta er sama fjárhæð og nemur öllu veltufé frá rekstri samkvæmt fjárhagsáætlun fiskeldissveitarfélaga á Vestfjörðum fyrir árið 2022.

Úthlutanir sjóðsins byggja á árlegum umsóknum fiskeldissveitarfélaga á Austfjörðum og Vestfjörðum til sjóðsins og þriggja manna stjórn sjóðsisn ákveður áherslur sjóðsinns á hverju ári. Þetta fyrirkomulag úthlutunar gerir sveitarfélögum erfitt fyrir að setja verkefni inn í sínar langtímaáætlanir og skerðir sjálfstæði þeirra í forgangsröðun verkefna. Það er ekki hentugt að skatttekjum af greininni sé úthlutað í samkeppnissjóði.

Fiskeldisfyrirtæki fá í dag afslátt af fiskeldisgjaldi en sá afsláttur fer stiglækkandi fram til ársins 2027 og miðað við forsendur frumvarps um fiskeldisgjald, þá er áætlað að það geti numið um 1,4 milljörðum á því ári. Auk þess greiðist umhverfisgjald og öll þjónustu og leyfisgjöld til ríkissjóðs eða stofnana ríkisins. Að lokum er það síðan tekjuskattur ríkisstjóðs af launþegum og fyrirtækjum. Samkvæmt greiningu KPMG 2020 gæti skattspor ríkisins af fiskeldi á Vestfjörðum numið um 1,1 milljarði um 2026 (51 þús tonn) til varúðar var ekki reiknað með tekjuskatti fyrirtækja, sem kæmi þá til hreinnar viðbótar.

Ríkissjóður ber í sjálfu sér litla áhættu af uppbyggingu fiskeldis og lítið hefur verið um sértæk úrræði af hálfu ríkissjóðs sem annars eru þekkt s.s. við uppbyggingu stóriðju. Fiskeldssveitarfélög bera hinsvegar meginhluta af fjármögnun og áhættu af uppbyggingu innviða og því er það krafa sveitarfélaga að þau fái stærri hlut af gjaldtöku stjórnvalda. Tekjumyndun fiskeldissveitarfélaga önnur en fiskeldisgjald er háð óvissu og jákvæð áhrif á rekstur sveitarfélaga kemur mun hægar inn, því samtímis þarf að auka útgjöld til að veita þjónustu vegna fjölgunar íbúa.

Vestfjarðastofa leggur því til við fjárlaganefnd að úthlutun fiskeldisgjalds verði breytt í fjármálaáætlun 2023-2027 og 80% fiskeldisgjalds renni til Fiskeldissjóðs til úthlutunar til fiskeldssveitarfélaga. Eins verði breytt lögum 89/2019 um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó með það að markmiði að starfsemi fiskeldissjóðs verði lögð niður og hlutfall fiskeldisgjalds verði úthlutað til A hluta reksturs fiskeldissveitarfélaga.

Það er mikilvægt að vel sé að málum staðið til að þessi nýja atvinnugrein geti byggst upp og eflt fiskeldissveitarfélögin til framtíðar.