Fara í efni

Umsögn um fiskeldisfrumvarp

Fréttir Umsagnir

Í umsögn Vestfjarðastofu er athygli vakin á því að umræða um uppbyggingu fiskeldis hefur skipst í tvo andstæða póla sem er líklega eðlilegt í ljósi þess að í grunninn er verið að ræða tvö aðskilin mál.  Annars vegar er verið að fjalla um framtíðaruppbyggingu atvinnugreinar á grundvelli hagstæðra náttúrulegra og samfélagslegra aðstæðna og hins vegar verndun villtra laxastofna sem hluti af markmiðum um verndun einstæðra erfðaeiginleika.  Svo virðist sem með frumvarpinu sé gerð tilraun til að mæta þessum tveimur málum með einni kjarnalausn, áhættumatinu.  Sú lausn er að mati Vestfjarðastofu ekki nógu þróað stýritæki. 

Í umsögninni er farið yfir það samráðsleysi sem vestfirsk sveitarfélög hafa ítrekað bent á varðandi vinnu að ætluðu stefnumótunarskjali árið 2017, einnig er dregið fram að áhættumat erfðablöndunar nýtist ekki sem stjórnsýslutæki einmitt vegna þess að matið hefur ekki fengið að þróast og þroskast sem skildi, á því skortir vísindalega rýni og kynningu á opinberum vettvangi. Vestfjarðastofa beinir í því samhengi til atvinnuveganefndar Alþingis að nefndin kalli eftir minnisblöðum af fundum Hafrannsóknarstofnunar við tilgreinda erlenda sérfræðinga og eftir atvikum kalli þá til fundar. Að auki er skorað á nefndina að kalla til aðra sérfræðinga sem hafa gagnrýnt þessa aðferðafræði Hafrannsóknarstofnunar. 

Lögð er áhersla á að áhættumat erfðablöndunar komi í veg fyrir nýtingu eldissvæða á Vestfjörðum þrátt fyrir að byggt sé á takmörkuðum gögnum á reynslu af laxeldi við Ísland. Gagnrýnin beinist ekki síst að því að deilur um gildi áhættumats hefur tekið athygli frá mikilvægari þáttum svo sem útbreiðslu sjúkdóma, lúsasmit og hvíld eldissvæða. Þættir sem þó eru lykilatriði til að byggja megi upp fiskeldi sem framtíðaratvinnugrein í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. 

Í umsögninni segir orðrétt:

Verndun erfðamengis á jaðri útbreiðslusvæðis villtra laxastofna er hliðarverkefni sem sýnt hefur verið fram á að hægt er að leysa með markvissum mótvægisaðgerðum í þeim takmarkaða fjölda áa á Vestfjörðum sem lax gæti þrifist í til langframa.

Fjallað er um fyrirhugaða aðferðafræði við úthlutun eldissvæða og áhersla lögð á frumkvöðlarétt þeirra fyrirtækja sem sótt hafa um leyfi á grundvelli burðarþols sem metið hefur verið í Ísafjarðardjúpi. Einnig er í umsögninni bent á vinnu við skipulag haf- og strandsvæða sem er að hefjast og möguleika á að efni frumvarpsins skarist á við þá vinnu. 

Að lokum er dregið fram í samantekt umsagnar að: 

Kjarni frumvarpsins sé þannig í raun að hamla hugsanlegum vexti, í stað þess að andi frumvarpsins væri að byggja upp nýja atvinnugrein á grundvelli stefnumörkunar.