Fara í efni

Sögur lifa með gestum

Fréttir Markaðsstofa Vestfjarða

Fundurinn „Sögur og sagnalist sem markaðstól í ferðaþjónustu“ var haldinn mánudaginn 28. apríl á Vestfjarðastofu. Fundurinn var haldinn í samstarfi Markaðsstofu Vestfjarða, Hæfniseturs ferðaþjónustunnar og Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF). Meginmarkmið fundarins var að ræða hvernig sagnalist og samfélagsmiðlar, myndir og móttaka gesta geta verið lykilatriði í að skapa áhrifaríkar upplifanir gesta af áfangastöðum.

Fundarstjóri var Sölvi Guðmundsson, teymisstjóri markaðs og menningar hjá Markaðsstofu Vestfjarða, sem leiddi gesti í gegnum dagskrána.

Fyrirlesarar voru:

  • Haukur Sigurðsson, sérfræðingur í samfélagsmiðlum, sem fjallaði um hvernig best er að nýta sögur á samfélagsmiðlum. Haukur er Vestfirðingum flestum vel kunnur og hefur hann séð um samfélagsmiðla Visit Westfjords í áratug. Haukur fjallaði um hversu mikilvægt það væri að setja reglulega inn færslur til að týnast ekki á samfélagsmiðlum. Lykilinn að velgengni sagði hann vera einlægar sögur því þær standast tímans tönn og eru ekki háðar tískubylgjum.
  • Sólveig Nikulásdóttir, sérfræðingur hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, sem lagði áherslu á mikilvægi þess að styðja starfsfólk í móttöku ferðamanna með áherslu á íslensku og menningararfinn. Hún sagði frá ríkulegu stuðningsefni, eins og grunni að starfsmannahandbók og málstefnu fyrir fólk sem starfar í ferðaþjónustu sem finna má inn á https://haefni.is/
  • Guðrún Hildur Ragnarsdóttir, stofnandi Keeps, sem ræddi gildi myndefnis og góðra lýsinga á sölusíðum. Hún fjallaði um mikilvægi þess að vera sýnilegur á netinu og að kynningarefni ætti að vera samræmt yfir miðla til að koma í veg fyrir óánægju. Hún benti jafnframt á að stærstur hluti þeirra sem ferðast til Íslands í dag bóki sjálfir ferðalög sín og afþreyingu út frá því sem þeir finna á netinu.
  • Auður Ösp Ólafsdóttir, markaðsklappstýra, sem útskýrði hvernig staðreyndir geta orðið að hrífandi upplifun með réttum frásagnaraðferðum. Hún fjallaði um hvernig sögu skapa tengsl og þannig hvetji þær til aðgerða af hálfu aðnjótenda. Hún fjallaði einnig um mikilvægi þess að þeir sem segi sögurnar skoði við hvern þeir eru að tala hverju sinni.

Erindin voru einstaklega góð. Þar var rakið mikilvægi þess að nýta persónulegar sögur og ólíkar raddir samfélagsins. Áhrifaríkt efni sem talar til tilfinninga ferðamanna var áberandi þráður í gegnum alla fundardagskrána – því fólk man sögur sem hreyfa við því.

Um 30 manns mættu á fundinn sem fór fram bæði á staðnum og í fjarfundi. Við þökkum öllum sem tóku þátt og hlökkum til að sjá hvernig sagnalistin verður nýtt í markaðssetningu Vestfjarða á komandi misserum.