Fara í efni

Skoðuðu samfélagslega nýsköpun í Finnlandi

Fréttir MERSE

Verkefnastjórar Vestfjarðastofu í MERSE, Steinunn Ása Sigurðardóttir og Anna Sigríður Ólafsdóttir, héldu í vikunni til Finnlands þar sem fjórði staðfundur verkefninu fór fram. Fundurinn var haldinn í Mikkeli sem er um 50.000 manna borg í vatnalöndum Finnlands (f. Järvi-Suomi), en Mikkeli er við Saimaa sem er stærsta vatn lands hinna þúsund vatna.

Fyrri deginum var varið í vettvangsheimsóknir en seinni degi heimsóknarinnar varið í fundastörf þar sem næstu skref þessa þriggja ára langa Evrópuverkefnis voru yfirfarin. Fundurinn var haldinn í háskólasetrinu í Mikkeli sem meðal annars hýsir Ruralia sem er einn þeirra aðila sem taka þátt í MERSE.

MERSE snýr að samfélagslegri nýsköpun í dreifðum byggðum. Í vettvangsheimsóknunum í þátttökulöndunum fimm: Íslandi, Írlandi, Finnlandi, Svíþjóð og Noregi er því lagt upp með að heimsækja samfélagslega drifin verkefni á landsbyggðinni.

Vettvangsferðir geta verið gríðarlega gott kennslutæki þar sem þær veita raunverulega innsýn í viðfangsefni íbúa á hverjum stað. Í hinum dreifðu byggðum eru áskoranir íbúa oft áþekkar, eins og breytingar á aldurssamsetningu, íbúafækkun, skortur á innviðum og samdráttur í þjónustu. Það er því sérstaklega skemmtilegt að heimsækja samfélagsfrumkvöðla sem láta aðstæður ekki aftra sér heldur nýta krafta sína samfélögum sínum til heilla.

Fyrsti viðkomustaður var Mikkelin Kotikaari ry, sem er samfélagsrekið óhagnaðardrifið hjúkrunarheimili sem er með tvær starfsstöðvar í Suður-Savonia. Hjúkrunarheimilið hefur verið starfrækt frá árinu 1984 og starfa þar um 40 manns. Starfsemin er margverðlaunuð og lét starfsfólkið sem við ræddum við vel af störfum sínum þar. Sögðu þau kosti þess að vinna hjá samfélagsreknu félagi felast í því að auðveldara væri fyrir það að hafa áhrif á þá þjónustu sem veitt væri, auk þess sem kjör þeirra væru almennt betri en hjá þeim sem ynnu hjá svipuðum stofnunum með annars konar eignarhaldi. Í Finnlandi er það þannig að íbúar í þjónustukjörnum og hjúkrunarheimilum meta sjálfir gæði þeirrar þjónustu sem staðirnir veita í stað þess að mat sé í hendi óháðs aðila.

 

Að þeirri heimsókn lokinni var farið á eyjuna Hurissalo, sem er ein af stærstu innlandseyjum Finnlands. Íbúar tóku sérlega vel á móti hópnum og fræddu um samfélagsmiðstöð staðarins sem rekin er af íbúum og býður upp á allra handa viðburði árið um kring. Húsnæðið er fyrrum barnaskóli staðarins, en börnum hefur fækkað umtalsvert og fara þau því í dag með skólabíl til nærliggjandi bæjar. Samfélagsmiðstöðin rekur meðal annars áhugamannaleikhús, Hurissalon Harrastajateatteri ry, sem setur upp leiksýningar á hverju sumri og sýnir undir berum himni. Árið 2014 voru yfirbyggðar stúkur gerðar fyrir sýningargesti sem rúma um 280 áhorfendur og var sviðið einnig yfirbyggt að hluta. Þar er líka skáli þar sem gestir geta keypt veitingar fyrir sýningar. Leikhúsið er stærsta verkefni samfélagsmiðstöðvarinnar og stærsti tekjuliður hennar, en gestir leikhússins á sumri hverju eru í kringum 3000 sem verður að teljast ansi gott fyrir um 300 manna samfélag.

 

Næst heimsótti hópurinn kjörbúðina á staðnum, Sale Hurissalo, sem er verslanakeðja rekin af S-ryhmän sem er gríðarstórt finnskt samvinnufélag. Verslunin er opin alla daga vikunnar og býður upp á afar fjölbreytta þjónustu. Auk þess að vera hefðbundin matvöruverslun er hún bensínstöð, apótek, póstþjónusta, bankaþjónusta, veitingasala og blómaverslun. Verslunin er iðulega kosin besta verslun keðjunnar sem hefur komið stjórnendum hennar í opna skjöldu þar sem þetta er með minnstu verslununum sem hún rekur.

 

Eftir dvölina í Hurissalo var haldið aftur til Mikkeli og Muisti – Miðstöð stríðs og friðar heimsótt. Muisti er nútímalegt safn sem skoðar áhrif stríðs út frá mannlegri reynslu. Safnið er til húsa í gamalli skólabyggingu sem hýsti aðalstöðvar finnska hersins í síðari heimsstyrjöldinni.

Muisti veitir gestum innsýn í stríðssögu Finnlands með nýstárlegum og gagnvirkum sýningum. Unnið er út frá því að sýningin stuðli að friði með því að gera gestum kleift að skilja hvernig stríðið var fyrir þau sem urðu fyrir því, hvernig það hafði áhrif á samfélagið á þeim tíma – og hvernig það hefur enn áhrif í dag.

Muisti er í gamalli skólabyggingu sem hýsti höfuðstöðvar finnska hersins í síðari heimsstyrjöldinni. Henni hefur nú verið breytt í meira en 1000 fermetra sýningarrými. Höfuðstöðvasafnið (Headquarters Museum) var stofnað í byggingunni árið 1974, þegar skrifstofa yfirherhöfðingjans, Mannerheims marskálks, var opnuð almenningi.

Finnska orðið Muisti merkir minni og minning. Stríð eru minnst með ólíkum hætti í mismunandi menningarheimum. Muisti er staður þar sem minningar eru varðveittar.

Finnarnir voru höfðingjar heim að sækja og koma verkefnisstjórar MERSE heim reynslunni ríkari. Vilji Vestfirðingar fræðast meira um MERSE og samfélagslega nýsköpun þá erum við á leið í þriggja daga hringferð um Vestfirði eftir helgi og verðum með fundi sem hér segir:

Mánudaginn 12. maí kl. 16:30 Galdrasýningin á Hólmavík

Þriðjudaginn 13. maí kl. 16:30 Bókaútgáfan Skriða á Patreksfirði

Miðvikudaginn 14. maí kl. 16:30 Netagerðin, vinnustofur, á Ísafirði

Skráið ykkur til leiks hér!