Fara í efni

Nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar

Fréttir

Vestfjarðastofa/ Fjórðungssamband Vestfirðinga sótti um og fékk styrk úr Byggðaáætlun 2018 til verkefnis sem hafði yfirskriftina nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar. Markmið verkefnisins var að kanna hvernig staðan væri á slíkum miðstöðvum á Vestfjörðum og hvort og þá hvernig grundvöllur væri fyrir slíkum miðstöðum víðvegar á svæðinu. Fyrsti fasi verkefnisins er greining með kortlagningu á aðstæðum í öllum byggðakjörnum Vestfjarða, sem byggjast á viðtölum við heimamenn, sveitastjórnir og þjónustuaðila. Þetta er nauðsynlegt til að fá heildaryfirsýn yfir starfsemi í öllum byggðakjörnum og mat á þörf. Sú úttekt sem hér er birt er niðurstaða þeirrar kortlagningar. Mikilvægt er að hver eining verði byggð upp á forsendum þess byggðakjarna sem hýsir starfsemina.

Með öflugum nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvum í byggðakjörnum um alla Vestfirði getur orðið til vettvangur sem getur stutt við markmið stjórnvalda, sem koma fram í byggðaáætlun, um jafnt aðgengi að þjónustu. Slíkar miðstöðvar geta einnig stutt við markmið stjórnvalda um jöfn tækifæri til náms og atvinnu.Í byggðaáætlun 2018-2024 B.7 Störf án staðsetningar kemur einnig fram stefna stjórnvalda í eflingu byggðar sem m.a. felst í fjölbreyttari starfsmöguleikum. Stjórnvöld gáfu tóninn með því að setja sér það verkefnismarkmið m.a. „að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024, þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki í ráðuneytunum“.

Möguleikar á því að skapa störf án staðsetningar eru ekki einvörðungu bundnir við opinber störf heldur getur þessi möguleiki einnig verið fýsilegur kostur fyrir atvinnulífið almennt. Í dag eru til margskonar störf sem ekki eru bundinn sérstökum stöðum eða löndum, einstaklingar geta sinnt sínum störfum í gegnum netið hvar sem er í heiminum. Vinna „hvar sem er“ er aðeins raunverulegur kostur ef til staðar er grunnaðstaða. Þetta er eitt af lykilatriðum byggðaþróunar um allt land ekki síst þar sem mikil fólksfækkun hefur átt sér stað og fábreytt atvinnulíf.  Nýsköpunar-, þróunar- og samfélagsmiðstöðvar geta verið góður vettvangur fyrir slíkt.

Á Vestfjörðum eru nú þegar starfandi nokkrar slíkar stöðvar með mismunandi fyrirkomulagi og rekstrarformi. Á Hólmavík, á Patreksfirði, í Tálknafirði, á Ísafirði, í Bolungarvík og á Þingeyri eru nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar sem fjallað verður nánar um hér í þessari greinargerð.

Vænst er að árangur af þessu verkefni verði  að slík aðstaða verði til staðar á fleiri stöðum, sem gætu því orðið valkostir til að stunda störf án staðsetningar. Stöðvar þær sem hér er fjallað um og stefnt að því að byggja upp eru mikilvægur liður í að ná þeim markmiðum sem nefnd eru í byggðaáætlun. Það að slík aðstaða sé fyrir hendi, gerir opinberum stofnunum og atvinnulífinu almennt auðveldara fyrir að gera starfsmönnum sínum kleift að starfa út á landi. Fyrir starfsmennina er mikilvægt að vera hluti af samfélagi frekar en að vera einn á vinnustað eða vinna heiman frá sér. 

Skýrsla um Nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar