Fara í efni

Efling stjórnsýslu og rannsókna í fiskeldi.

Fréttir

Í frétt frá Atvinnu og nýsköpunarráðuneyti í dag er tilkynnt um ákvörðun Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hafin skuli vinna við heildar stefnumótun fyrir fiskeldi á Íslandi og að rannsóknir, vöktun og eftirlit skuli aukið.

Aðgerðirnar sem ráðist verður í núþegar eru þríþættar:
- Sett verður af stað vinna við stefnumótun fyrir allt fiskeldi á Íslandi. Í þeirri vinnu verður m.a. fjallað um umhverfisþætti, stjórnsýslu, gjaldtöku, útgáfu rekstrarleyfa, menntunarmál ásamt efnahags- og samfélagslegum þáttum.
- Eftirlit verður aukið en Matvælastofnun hefur nýlega ráðið eftirlitsmann á Austfjörðum og á fljótlega verður auglýst eftir eftirlitsmanni á Vestfjörðum.
- Rannsóknir verða auknar og munu tveir sérfræðingar á vegum Hafrannsóknastofnunar verða ráðnir til starfa á Ísafirði og munu þeir sinna innfjarðarrannsóknum m.a. burðarþolsmælingum og leggja mat á lífríki hvers fjarðar. Auk þess verður sviðsstjóri fiskeldismála hjá Hafrannsóknastofnun staðsettur á Ísafirði frá árinu 2018. Er þetta í takt við tillögur í skýrslu nefndar um átak í byggðamálum á Vestfjörðum sem lögð var fram í ríkisstjórn í lok síðasta mánaðar.

Fjórðungssamband Vestfirðinga fagnar þessari ákvörðun ráðherra. Eðillegt er að byggja upp stjórnsýslu og rannsóknir þar sem þungamiðja atvinnustarfsemi er til staðar. Í annan stað að framfylgja stefnu stjórnvalda um eflingu starfsemi hins opinbera utan höfuðborgarsvæðis, á grunni nýrra starfa.