Fara í efni

Átaksverkefni vegna Covid-19 á Vestfjörðum

Fréttir

Vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa vegna Covid 19 samþykkti Alþingi 200 milljóna króna aukafjárveitingu til Sóknaráætlana landshlutanna þann 30. mars 2020. Af þeim fjármunum koma 25,2 milljónir í hlut Vestfjarða. Skilyrt var að fjármunum skuli varið í verkefni sem eru atvinnuskapandi og/eða stuðli að nýsköpun. Hver landshluti skal leggja áherslu á þær atvinnugreinar sem orðið hafa fyrir hvað mestum neikvæðum afleiðingum Covid-19 faraldursins á hverju svæði“.

Auk þeirra fjármuna var farið í að endurskilgreina nokkur verkefni og fjármuni sem ekki höfðu nýst hjá Fjórðungssambandi Vestfirðinga og ákvað stjórn þess á fundi þann 21.04.2020 að bæta 20 milljónum við og auglýsa átaksverkefni vegna Covid19 á Vestfjörðum.  Stjórn fól framkvæmdastjóra og starfsmönnum að setja fram tillögu að matsblaði í samráði við stjórn og að stjórn afgreiði tillögur að úthlutun í byrjun maí.

Vestfirðir hafa nokkra sérstöðu hvað varðar samsetningu atvinnulífs og er sjávarútvegur langmikilvægasta stoð atvinnulífsins og fiskeldi hefur hratt byggst upp til að verða önnur stoð. Ferðaþjónusta hefur einnig verið að byggjast upp og skiptir miklu máli í atvinnulífi svæðisins. Áhrif Covid-19 eru mest á ferðaþjónustuna en áhrifanna gætir einnig verulega í sjávarútvegi og fiskeldi og þar eru möguleikar á hraðri viðspyrnu einnig mestir.  

Auglýst var eftir tillögum að átaksverkefnum á vef Vestfjarðastofu, haft samband við sveitarfélög og samtök fyrirtækja á Vestfjörðum. Tillögum skildi skilað 3. maí. Alls bárust 62 tillögur með allt að 400 milljóna verðmiða.

Stjórn Vestfjarðastofu afgreiddi á fundi sínum þann 12. maí 2020 eftirfarandi tillögu að átaksverkefnum vegna Covid 19.  Við úrvinnslu tillagna voru eftirfarandi þættir lagðir til grundvallar:

  • Verkefni gætu haft atvinnuskapandi áhrif hratt en einnig með áherslu á störf til framtíðar 
  • Verkefni vektu athygli á Vestfjörðum sem valkosti fyrir ferðalög sumarisins fyrir íslendinga og þannig komið til móts við erfiða stöðu ferðaþjónustu
  • Verkefni hefðu nýsköpunargildi fyrir Vestfirði
  • Áhersla var á að verkefnin nýttust sem mest fyrir allt svæðið

Gerð var tillaga um eftirfarandi verkefni en stjórn lagði jafnframt áherslu á að öðrum tillögum yrði fylgt eftir af hálfu Vestfjarðastofu, haft yrði samband við þá sem sendu inn tillögur og reynt að koma verkefnum í farveg til dæmis í aðra sjóði eða með því að stuðla að samstarfi. Þær tillögur sem unnar verða áfram felast að nokkru leiti í að settar hafa verið saman nokkrar innsendar tillögur.

1. Verkefni til að efla ferðaþjónustu – kr. 21.500.000

Kvikmyndaverkefni: Verkefnið felst í endurgreiðslum á kostnaði sem verður til innan Vestfjarða vegna kvikmyndaverkefna sem fyrirhuguð eru s.s. gisting, veitingar ofl. Hámarksstyrkur fyrir hvert verkefni er kr. 5 milljónir. Verkefnið hefur burði til að nýtast bæði aðilum í gistingu og veitingum og skapa umtalsverð umsvif á svæðinu. Kr. 10.000.000
b) Viðburðadagskrá á Vestfjörðum: Unnið út frá hugmynd umGÚRMEFLAKK UM VESTFIRÐI (smakkað og flakkað um Vestfjarðahringinn) Tónlistarfólk og hljómsveitir ferðast Vestfjarðahringinn með nokkrum stoppistöðvum þar sem boðið er upp á tónleika ásamt einhvers konar matarupplifun. Veitingastaðir, menningarhús og aðrir rekstraraðilar í ferða- og veitingaþjónustu búa til þétt net af viðkomustöðum í hringferðinni og úr verður kort af girnilegu Gúrmeferðalagi. Verkefnið tengist fleiri tillögum um viðburðadagskrár sem sendar voru inn – kr. 6.500.000
c) Markaðsátak fyrir ferðaþjónustu: Ný vefsíða og markaðsátak sem hægt er að koma strax af stað og ýta undir komur innlendra ferðamanna á árinu 2020 en nýtist einnig til framtíðar við markaðssetningu til erlendra ferðamanna á næstu árum. Í þessu verkefni er einnig gert ráð fyrir kostnaði við birtingaráætlun fyrir sumarið 2020. Nýtist einnig Vestfjarðaleiðinni.  – kr. 5.000.000

2. Nýsköpun í starfandi fyrirtækjum – kr. 16.000.000
a) Oddi: Flýting á verkefni Odda hf á laxavinnslu. Verkefnið snýst um að flýta og skapa með því bæði sumarstörf og störf til framtíðar við vinnslu á laxi á Patreksfirði.  Samstarfsverkefni Odda og fiskeldisfyrirtækja sem miðar að aukinni verðmætasköpun laxaafurða til útflutnings.  kr. 7.000.000
b) 3X Technology: Verkefnið felst í þróun og smíði á tæki til að ná í nýtanlegra ástandi þeim hluta laxaflaks, sem verður eftir á hryggnum við flökun. Þróunarvinnan skapar 10-12 störf til skamms tíma og framleiðsla tækis skapa til framtíðar 2-4 ársstörf hið minnsta við vélahönnun, rafhönnun, forritun, stálsmíði og samsetningu. Verkefni skilyrt við að störf verði til við starfsstöð á Ísafirði.  kr. 7.000.000
c) Þörungaklaustur: Þróun á þörungasafa við Þörungaklaustur á Reykhólum og styrkari stoðir við þróunarstarf Þörungaklausturs. kr. 2.000.000

3. Samstarfsverkefni í orkumálum: kr. 7.500.000
Samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Vestfjarðastofu, Fjórðungssambands Vestfirðinga, Orkubús Vestfjarða og mögulega fleiri á Vestfjörðum um að fara í samstarfsverkefni um orkumál og sjálfbærni á Vestfjörðum. Verkefnið væri sambærilegt verkefninu Eimur á Norðurlandi.  Gert ráð fyrir að ráða 2 fasta starfsmenn og a.m.k. 2 sumarstarfsmenn á þessu ári, 2021 og 2022.