Fara í efni

Ályktanir haustþings

Fréttir Fjórðungssamband Vestfirðinga
65. Fjórðungsþing Vestfirðinga – haustþing var haldið á nýliðinni helgi. 
Þingið var haldið í fjarfundi. Það má læra af þessu þingi að fjarfundakerfi getur nýst vel til sameiginlegra funda sveitarstjórna með ráðuneytum eða nefndum Alþingis. Auka má skilvirkni með tíðari og styttri fundum með því að verja færri tímum og kostnaði við löng og tímafrek ferðalög. Þess á milli er þó nauðsynlegt að geta hist, enda er maður manns gaman.  

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ávarpaði þingið. Hann kom víða við og útskýrði margt sem snýr að hans málaflokkum. Hann kvaðst óánægður með hversu hægt gengi að fjölga störfum án staðsetningar og hvatti sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum til að taka virkan þátt í endurskoðun Byggðaáætlunar sem fer fram um þessar mundir. Einnig ávarpaði Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, þingið og svaraði fyrirspurnum.

Á þinginu voru samþykktar ályktanir er varða hag samfélags, atvinnulífs og umhverfis á Vestfjörðum. 

Ályktun um samgöngumál. Fagnað var opnun Dýrarfjarðaganga og að framkvæmdir séu hafnar við Vestfjarðaveg 60 um Gufudalssveit og Dynjandisheiði. Stjórnvöld eru hvött til veita fjármagni af fjárfestingarátaki vegna heimsfaraldursins til að flýta framkvæmum á Vestfjörðum s.s. Innstrandavegi, Veiðileysuhálsi, Vestfjarðavegi 60 og Bíldudalsvegi og til að endurbæta tengivegi sem ferðamannleiðir.  

Þingið samþykkti að unnin verði sértæk jarðagangaáætlun fyrir Vestfirði enda jarðgöng mikilvæg fyrir þróun samfélags og atvinnulífs á Vestfjörðum. Þingið ítrekaði mótmæli gegn ákvörðun Alþingis um að sérstakt gjald verði lagt á umferð um jarðgöng sé önnur heilsársleið sé í boði.

Þingið krefst þess að fjármagn verði aukið til vegaþjónustu og þá sérstaklega vetrarþjónustu. Þingið taldi nauðsyn á að endurskoða fyrirkomulag vetrarþjónustu frá grunni.

Þingið gerði einnig kröfu um að fjármagn verði aukið til hafnamála, áætlunarflugvalla og almenningssamgangna.  

Ályktun um orkumál. Ályktunin er tvískipt. Í atvinnumálum er lögð áhersla á umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga um Kerfisáætlun Landsnets 2020-2029.  Þar er lögð áhersla á að Kerfisáætlun verði fylgt eftir til að tryggja afhendingaröryggi byggðarlaga á Vestfjörðum með tvöföldun tenginga. Greining á hagrænum áhrifum af lélegu afhendingaröryggi og takmörkun á afhendingu orku hefur leitt í ljós verri þróun launa m.a. í Ísafjarðarbæ í samanburði við önnur sveitarfélög utan Vestfjarða.

Í samfélagshluta orkumála er gerð krafa á iðnaðarráðherra að leysa orkumál samfélaga á Vestfjörðum á grundvelli tillagna starfshóps ráðherra um bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Stór hluti húsnæðis er hitaður með raforku og er kostnaður mun hærri á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum þrátt fyrir verulegar niðurgreiðslur að hálfu hins opinbera.  Hækkun á raforku og dreifingu hennar er fyrirséð og að óbreyttu þarf þá að hækka niðurgreiðslur. Finna verður framtíðarlausnir til að mæta þessum áskorunum m.a. auka fjárveitingar til jarðhitaleitar.

Ályktun um umhverfismál þar sem sveitarfélög á Vestfjörðum eru hvött til að móta stefnu um  þjóðgarða á Vestfjörðum og vinna að verkefni innan Byggðaáætlunar um hvernig náttúruvernd gæti verið liður í eflingu byggða.

Ályktun um frestun framlagningar frumvarpa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um nýtingu grásleppu og sjávargróðurs, vegna þess hve mikilvæg nýting þessara auðlinda er í þróun byggðar á Vestfjörðum.

Ályktun um mikilvægi framlags Jöfnunarsjóð sveitarfélaga fyrir rekstur sveitarfélaga á Vestfjörðum á tímum heimsfaraldurs. Skorað er á samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að beita sér fyrir því að ríkisstjórnin grípi nú þegar til aðgerða til að styðja við sveitarfélögin í landinu. Standa þarf vörð um lögbundin verkefni sveitarfélaga þannig að þau geti þrátt fyrir mikið tekjutap sinnt verkefnum sínum.  Samtímis þurfa sveitarfélögin að vera í stakk búin að hefja kröfugt endurreisnarstarf þegar farsóttin Covid-19 hefur gengið yfir.  

Ályktun þar sem mótmælt er ákvörðun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um frestun Landsþings sveitarfélaga á árinu 2020. Bent er á að það er fullkomlega gerlegt að halda slíkt þing með fjarfundarbúnaði.

Að lokum var samþykkt ályktun um endurskoðun samþykkta Fjórðungssambands Vestfirðinga og þingskapa Fjórðungsþings Vestfirðinga um skipulag kosninga.

Hér má sjá hverjir voru kosnir í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga.

Kosið var í fagráð og úthlutunarnefndir Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða. Sjá hér: 

 

Endurskoðun Vestfjarða var kosin til að gegna áfram störfum endurskoðanda Fjórðungssambands Vestfirðinga.

Hér má finna ályktanir 65. Fjórðungsþings Vestfirðinga, haustþings