Fara í efni

Framtíð Vestfjarða - þér er boðið að borðinu!

Vestfjarðastofa boðar til íbúafunda á Vestfjörðum þar sem fjallað verður um gerð svæðisskipulags fyrir Vestfirði og gerð Sóknaráætlunar Vestfjarða 2025-2029. Allir Vestfirðingar ungir sem aldnir – nýir sem gamlir eru hjartanlega velkomnir!  Fundirnir verða haldnir sem hér segir: 

27. maí Félagsheimili Patreksfjarðar

29. maí Edinborgarhúsið á Ísafirði

30. maí Félagsheimili Hólmavíkur

30. maí Reykhólaskóli

Fundirnir hefjast kl. 16:30 og lýkur um 18:30 - grillaðar pylsur að fundum loknum!
Boðið verður upp á barnapössun á meðan á fundum stendur. 

Á fundinum mun Hrafnkell Proppé fjalla um gerð svæðisskipulags Vestfjarða 2025-2050, en þetta er í fyrsta sinn sem ráðist er í þá vinnu að gera sameiginlegt skipulag fyrir Vestfirði í heild sinni.

Hjörleifur Finnsson verður með stutt erindi um loftlags- og orkuskiptaáætlanir sem eru mikilvægur liður í þessari vinnu.

Héðinn Unnsteinsson og Herdís Sigurgrímsdóttir fjalla um gerð nýrrar sóknaráætlunar fyrir Vestfirði en hún er aðgerðaráætlun sem gerð er til fimm ára í senn. Í sóknaráætlun á hverjum tíma eru áherslur sem nýttar eru við úthlutun fjármagns úr þeim. 

Hópavinna á borðum þar sem annarsvegar verður unnið með áherslur Sóknaráætlunar Vestfjarða 2025-2029 og hinsvegar með Framtíðarmyndir Vestfjarða 2050. Niðurstöður hópavinnu og umræðna verða nýttar við mótun framtíðarskipulags og aðgerðaáætlun fyrir Vestfirði.

Við hvetjum ykkur öll til að mæta og taka þátt í þessari mikilvægu vinnu sem leggur drög að framtíðarskipulagi á Vestfjörðum í gegnum svæðisskipulagið og áherslum fyrir þau verkefni sem ákveðið verður að ráðast í næstu fimm árin í gegnum sóknaráætlun. Þín rödd skiptir máli! 

VSÓ ráðgjöf fer fyrir gerð Svæðisskipulags Vestfjarða og hefur sér til fulltingis skipulagsráðgjafafyrirtækið Úrbana sem einnig hefur yfirumsjón með gerð Sóknaráætlunar 2025-2029. 

Um Sóknaráætlun Vestfjarða: 

Sóknaráætlanir landshluta eru stefnumótandi áætlanir sem taka til starfssvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga. Í þeim kemur fram stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Í sóknaráætlunum landshluta skal mælt fyrir um svæðisbundnar áherslur sem taka mið af meginmarkmiðum byggðastefnu, landsskipulagsstefnu, skipulagsáætlunum, menningarstefnu og, eftir atvikum, annarri opinberri stefnumótun.

Undir Sóknaráætlun er annars vegar Uppbyggingarsjóður Vestfjarða og hins vegar Áhersluverkefni sem skilgreind eru til allt að þriggja ára í senn.

Um Svæðisskipulag Vestfjarða: 

Svæðisskipulag er sameiginleg stefna tveggja eða fleiri sveitarfélaga um byggðaþróun og þá þætti landnotkunar sem talin er þörf á að samræma vegna sameiginlegra hagsmuna hlutaðeigandi sveitarfélaga. Svæðisskipulag er lögformlegt ferli sem tryggir aðkomu almennings og hagsmunaaðila, auk þess að vera ákveðin skuldbinding hlutaðeigandi sveitarfélaga. Skipulagslýsing svæðisskipulags er aðgengilegt í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar