Fara í efni

Nútíma umhverfi sjávarútvegs

Fréttir Verkefni Hafsjór af hugmyndum
Auðmjúkar rætur alþjóðlegrar matvælaframleiðslu á Íslandi, Staðardalur við Súgandafjörð
Auðmjúkar rætur alþjóðlegrar matvælaframleiðslu á Íslandi, Staðardalur við Súgandafjörð

Stærsta atvinnugrein Vestfirðinga er matvælaframleiðsla en laugardaginn 21. maí var haldinn fundur þar sem gæða- og verkstjórar sjávarútvegsfyrirtækjanna komu saman til að bera saman bækur sínar varðandi stjórnun og gæðamál.

Samstarf ólíkra þjóðerna og þau tækifæri og úrlausnarefni sem það skapar í fjölmenningarlegu umhverfi voru rædd. Niðurstaðan var að þetta hefur aukið víðsýni á Vestfjörðum og gefur góða innsýn í menningu annara þjóða sem eflir samfélagið og skapar ný tækifæri. Til að það takist sem best er mikilvægt að gera átak í íslenskukennslu svo allir geti tekið þátt í samfélaginu en tungumálið er lykillinn að hverju samfélagi.

Kynntar voru niðurstöður könnunar um hvernig erlendir starfsmenn, sem starfa hér, hafa lært íslensku og þar skorar hæst að vinna með íslendingum og eiga samskipti við þá, Því næst er að fara á íslensku námskeið og læra heima en einnig telja margir að það að hlusta á íslenska tónlist hjálpi mikið við að læra málið. Það gæti því verið góð leið að kynna íslenska tónlist betur fyrir þeim sem hingað koma til starfa.

Vinnslurnar þurfa allar að uppfylla ýtrustu alþjóðlegar gæðakröfur og fyrirtækin eru að vinna með mikinn fjölda gæðastaðla og var mikil umræða um hversu miklar breytingar hafa orðið á störfum gæða- og verkstjóra vegna þessa. Vestfirskur sjávarútvegur er að vinna samkvæmt ströngustu alþjóða kröfum en markmið fundarinns var að efla tengslanetið á milli fyrirtækjanna og efla þau þannig til að takast á við þessa hröðu þróun í matvælaframleiðslu.

Námskeiðið var haldið á Súgandafirði og tóku heimamenn og veðurguðirnir vel á móti þáttakendum. Fræðslumiðstöð Vestfjarða sá um námskeiðið en það var Sjávarútvegsklasi Vestfjarða sem stóð að baki fundinum.