Fara í efni

Menntaskólinn á Ísafirði gerir samning um nýja námsbraut við fiskeldisfyrirtæki

Björn Hembre Arnarlaxi, Gauti Geirsson Háafelli, Heiðrún Tryggvadóttir MÍ, Stein Ove Tveiten ArcticF…
Björn Hembre Arnarlaxi, Gauti Geirsson Háafelli, Heiðrún Tryggvadóttir MÍ, Stein Ove Tveiten ArcticFish, Sigríður Kristjánsdóttir og Guðrún Anna Finnbogadóttir Vestfjarðastofu.

Þann 6. janúar skrifaði Menntaskólinn á Ísafirði undir samstarfssamning við fiskeldisfyrirtækin Arctic Fish, Arnarlax og Háafell um framhaldsskólanám í fiskeldi í samstarfi við Vestfjarðastofu. Á Vestfjörðum, eins og víðar um landið, er fiskeldið sem atvinnugrein í miklum vexti og mikill skortur á menntuðu starfsfólki til að svara þeim vexti.

Ný námsbraut sem verður leidd af Menntaskólanum á Ísafirði ber yfirskriftina „hafið, umhverfið og auðlindir.“ Brautin samanstendur af stúdentsbraut með staðgóða þekkingu á umhverfinu, auðlindum hafsins og fiskeldi og innan brautarinnar er eins árs nám sem kennir grunnþætti til starfa í fiskeldi.

Námið verður sett af stað í samstarfi við Fjölbrautaskólann á Snæfellsnesi, Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki og Verkmenntaskóla Austurlands. Brautin verður í boði í öllum skólunum og munu skólarnir samnýta þekkingu en verklegt nám fer fram á hverjum stað fyrir sig. Með náminu byggist upp sérfræðiþekking í landsfjórðungunum sem styrkir einnig fullorðinsfræðslu fræðslumiðstöðva landsins hvað varðar fiskeldi. Námið sem nú er lagt af stað með er afrakstur greiningarvinnu Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða á menntunarþörf í fiskeldi í Evrópuverkefninu Blue Mentor.

Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari í MÍ segist „hlakka til að innleiða, í samstarfi við fleiri framhaldsskóla, nám sem tengist fiskeldi með áherslu á hafið, auðlindir og umhverfið. Skólinn fagnar samstarfi við fiskeldisfyrirtækin í nærumhverfinu sem er mikilvægt í ljósi framþróunar í fiskeldi.“ Mikilvægur þáttur í verkefninu er stofnframlag fiskeldisfyrirtækjanna. Brautin mun fara af stað haustið 2023 og gert er ráð fyrir að námið verði sjálfbært hvað varðar rekstrarfé. Þó verður áfram fullt samstarf við fyrirtækin hvað varðar verklega kennslu og kynningar á starfsvettvangi.

Fiskeldisfyrirtækin sem koma að náminu fagna samstarfinu. Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells segir það „frábært skref að koma á fiskeldisbraut við Menntaskólann á Ísafirði. Fiskeldi byggir á þekkingu og er þetta mikilvægur liður í því að mennta hæft starfsfólk. Það er sérstaklega ánægjulegt að það sé hér á svæðinu, en við hjá Háafelli leggjum mikið upp úr að innviðir og þjónusta byggist upp í nærumhverfi greinarinnar.” Í sama streng tekur Björn Hembre, framkvæmdastjóri Arnarlax og telur að nýtt nám í fiskeldi á Ísafirði og á öðrum landshlutum sé stórt skref fyrir eldisiðnaðinn. „Það er mikil þörf fyrir gott, hæfileikaríkt ungt fólk á komandi árum í greininni. Ég tel að við sem fyrirtæki getum ábyrgst að þeir sem hafa lokið náminu fái vinnu þegar þeir hafa lokið sínu námi.“

Mennt er máttur og það er mikilvægt að byggja upp menntun og rannsóknir í heimabyggð og skapa þannig fjölbreytt störf með áherslu á hafið, umhverfið og auðlindir því þekking og skilningur á umhverfinu skapar traustan grundvöll við uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra.