Fara í efni

Fundur um framtíðarsýn í fiskeldi

Frá fundinum á Patreksfirði fundarstjóri og fyrirlesarar: Björn Hembre, Ragnar Jóhannsson, Stein Ove…
Frá fundinum á Patreksfirði fundarstjóri og fyrirlesarar: Björn Hembre, Ragnar Jóhannsson, Stein Ove Tveiten, Kolbeinn Árnason, Ólafur Sveinn Jóhannesson, Hulda Soffía Jónasdóttir, Rebekka Hilmarsdóttir, Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, Lilja Magnúsdóttir, Guðrún Anna Finnbogadóttir, Kristján G. Jóakimsson og Davíð Kjartansson. Ljósmyndari Guðlaugur Albertsson.

Vestfjarðarstofa boðaði í vikunni til funda undir yfirskriftinni framtíðarsýn í fiskeldi  - þróun atvinnugreinar. Tveir fundir voru haldnir sá fyrri á Patreksfirði og sá síðari á Ísafirði þar sem hagaðilar, opinberir aðilar og íbúar komu saman til að kynna sér núverandi stöðu og framtíðarhorfur í fiskeldi á Vestfjörðum.

Fundirnir voru báðir vel sóttir og tókust vel undir góðri fundarstjórn Ólafs Sveins Jóhannessonar og Héðins Unnsteinssonar. Rúmlega 80 manns voru á hvorum fundi og til viðbótar fylgdust tæplega fjörtíu manns með síðari fundinum í streymi.

Kolbeinn Árnason skrifstofustjóri matvælaöryggis og fiskeldis og fór yfir aðgerðir ráðuneytisins í þágu fiskeldis á Íslandi í ávarpi sínu út frá sjónarhorni Atvinnuvega- og Nýsköpunarráðuneytisins. Fram kom í máli hans að vöxtur greinarinnar hefur verið mjög hraður og  hið opinbera átt erfitt með að halda í við þróunina svo vel sé.

Samfélagssáttmáli um fiskeldi var kynntur af sveitastjórum Vesturbyggðar á Patreksfirði og Ísafjarðarbæjar á Ísafirði og farið yfir drög að aðgerðaáætlun um næstu skref en þar er mikilvægur þáttur að sveitarfélögin og fiskeldisfyrirtækin vinni saman. Einnig kom fram mikilvægi þess að gjaldtaka af fiskeldi skiptist á sanngjarnan hátt til þeirra sveitarfélaga sem veita þjónustu í fiskeldi en eins og lögin eru nú fær aðeins það sveitarfélag þar sem fiski er slátrað greitt.

Skýrsla KPMG um áhrif fiskeldis á Vestfjörðum sem gefin var út fyrr á árinu var kynnt. Í skýrslunni kemur fram að íbúaþróun á þeim svæðum sem fiskeldi er komið vel á veg hefur verið jákvæð og fasteignaverð hefur hækkað mjög á þeim svæðum. Í skýrslunni er einnig farið yfir framlög hins opinbera vegna nýfjárfestinga á Íslandi þar sem kemur fram að heildar framlag til Vestfjarða hefur verið  vegna á Bíldudalshafnar samtals 265 milljónir fyrir fiskeldið og kalkþörungaverksmiðjuna. Til samanburðar voru nefndir milljarða styrkir vegna uppbyggingar á Reyðarfirði 1.580 milljónir, Bakka 4.019 milljónir og Helgavík 1.577 milljónir allt á verðlagi þess tíma er framkvæmdirnar áttu sér stað.

Ragnar Jóhannsson sviðsstjóri fiskeldissviðs hjá Hafrannsóknarstofnun kynnti rannsóknir og framleiðslu á kynlausum fiskum, laxi og bleikju, og þróun á hrognkelsum til að éta lús í laxakvíum. Fram kom hjá Ragnari að næstu skref í rannsóknum á fiskeldi verði rannsóknir á vettvangi eldisins því megi gera ráð fyrir auknum staðbundnum rannsóknum á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Dr. Hulda Soffía Jónasdóttir sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun fór yfir hlutverk stofnunarinnar við eftirlit með fiskeldi, yfir lagagrundvöll og framkvæmd eftirlitsins. Fiskeldið og leyfisveitingar í sambandi við það heyra undir fleiri en eitt ráðuneyti og nokkrar stofnanir. Í erindi benti hún auk þess á að við höfum öll eftirlitshlutverk og því mikilvægt að láta stofnunina vita ef umgengni er slæm eða einhverju er ábótavant.

Greinin er í mikilli þróun, fyrirtækin hafa vaxið hratt og samfélögin hafa varla haft undan að bregðast við nýjum áskorunum. Í erindi Sigríðar Ó. Kristjánsdóttur kom fram að nú er sá tími kominn að við þurfum að móta framtíðarsýn í greininni og ákveða hvort við erum að byggja upp til einnar nætur eða til framtíðar.

Fyrirtækin Arnarlax, Arctic Fish, Háafell, Hábrún og Sjótækni héldu svo góð erindi um sína starfsemi og framtíðarsýn en það sem stendur upp úr eru leikreglur við leyfisveitingar og mikilvægi þess að tryggja afhendingaröryggi og nægilegt magn orku til að taka þátt í grænni framþróun. Auk þess er mjög áhugavert að sjá hvernig fyrirtæki eins og Sjótækni hefur vaxið með fiskeldinu sem þjónustufyrirtæki.

Á fundunum kom fram að sveitarfélögunum er gert að senda inn umsóknir í Fiskeldissjóð vegna uppbyggingar þjónustu og innviða en það er sérstök nálgun á dreifingu fjármagns sem bráðvantar inn í grunnstoðir sveitarfélaga sem þurfa að auka þjónustu vegna uppbyggingar fiskeldisins.

Stærstur hluti Umhverfissjóðsins rennur til stofnana og fjögurra manna stjórn hverju sinni leggur línurnar fyrir áherslur hverrar úthlutunar. Síðastliðið vor voru áherslurnar kynntar fjórum vikum fyrir lokafrest og hægt er að fara inn á síðu sjóðsins og sjá að engar skýrslur eru birtar þar en sumar er hægt að nálgast á innri síðum ýmissa stofnanna sem styrkinn hlutu.

Fundarmönnum gafst tækifæri til að spyrja frummælendur og komu upp spurningar um hvort að ætti að vera skilyrði fyrir hversu stór fyrirtækin eiga og verða, staðsetningu sláturhúss, launakjör starfsmanna í fiskeldi og starfsmannaleigur. 

Samtal milli íbúanna og hagaðila er hafið en mikilvægt er að vinna að heildar stefnumótun fyrir greinina á Íslandi þar sem framtíðarsýnin er sjálfbær atvinnugrein sem skapar ný tækifæri og fjölbreytt störf á sviði fiskeldis, stjórnunar, tækni og vísinda í sátt við náttúru og samfélögin á Vestfjörðum.

Upptökur af fundinum á Ísafirði má finna hér