Fara í efni

Lykilsvið og sjálfbærnivísar

Fréttir

Innan svæðastaðals EarthCheck í vottunarkerfinu hafa verið skilgreind 12 lykilsvið og samtals 16 sjálfbærniskylduvísar innan lykilsviðanna en sveitarfélögin geta bætt við valkvæðum vísum eins og við á. Gögnum vegna sjálfbærnivísanna (Benchmarking tölur) er skilað árlega og reiknar EarthCheck út einkunn frá þeim tölum. Samtökin hafa sett viðmið um lágmarksframmistöðu varðandi hvern sjálfbærnivísi, sem gengið er út frá að um helmingur sveitarfélaga ætti að geta náð. Einnig hafa þau sett annað viðmið um það sem telst vera framúrskarandi frammistaða. Gert er ráð fyrir að einungis um 20% sveitarfélaga geti náð svo góðum árangri.

Árangur hvers árs er gefinn út af vottunarsamtökunum í svokallaðri “benchmarking skýrslu” þar sem þau meðal annars meta hvar úrbóta er þörf. Hægt er að finna skýrsluna á undirsíðunni  

Verkefnastjóri hjá Fjórðungssamandi Vestfirðinga vinnur að því ár hvert að fá þessar upplýsingar frá sveitarfélögum og öðrum aðilum. Þessar upplýsingar eru svo nýttar til að reikna út árangur sveitarfélaganna í umhverfis- og félagslegu tilliti. Það að mæla auðlindanotkun á staðlaðan hátt eins og hér er gert, eykur gagnsæi og gefur yfirsýn sem annars væri tæplega fyrir hendi.

Með bættri yfirsýn er m.a. hægt að:

  • Draga úr kostnaði
  • Auðvelda skýrslugjöf um frammistöðu
  • Bæta umhverfisvernd og ná sjálfbærnimarkmiðum
  • Stuðla að vottun og staðfesta ákveðin gæði
  • Bæta almenningsálit

 

Hér á eftir verður farið nánar yfir hvaða lykilsviða og sjálfbærnivísa litið sé til í vottunarverkefninu og þau sett í samhengi við aðstæður hér heima fyrir.

 

Lykilsvið 1: Losun gróðurhúsalofttegunda

 Mannkynið hefur haft veruleg áhrif á loftslag jarðarinnar og þá sérstaklega með losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Notkun jarðefnaeldsneytis hefur margfaldast ef litið er til byrjun iðnbyltingar og hefur hún leitt  til mikilla losunar koltvísýrings (CO2). Einnig hefur losun Metan (CH4) tvínituroxíð (N2O)  aukist vegna landbúnaðar og annarrar starfsemi.

Þær rannsóknir sem hafa farið fram á áhrifum aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda á

loftslag jarðar hafa sýnt fram á að losun gróðurhúsaloftegunda hafi að öllum líkindum áhrif á hlýnun jarðar og er ljóst að hnattræn hlýnun var rúmlega 0,7°C á liðinni öld. (Umhverfisstofnun)

Ef áhrif losunar gróðurhúsalofttegunda eru skoðuð út frá áhrifum á heimshöfin er hægt að sýna fram á að þau hafa frá miðri 18. öld súrnað um 0,1 PH gildi, vegna aukinnar upptöku koltvísýrings úr andrúmsloftinu. „Áhrif þessa á lífríki hafsins eru enn lítt þekkt, en súrnun er talin geta haft neikvæð áhrif á ýmsar lífverur, s.s. kórala og skeldýr. Talið er mjög líklegt að hægja muni á hringrás hafstrauma í Atlantshafi á þessari öld, en það er mjög ólíklegt að stórfelldar og snöggar breytingar verði, s.s. að Golfstraumurinn stöðvist.

Breytingar á straumakerfi geta haft áhrif á framleiðni vistkerfa í hafinu, fiskveiðar og upptöku kolefnis úr andrúmslofti.“ (http://www.ust.is/einstaklingar/loftslagsbreytingar/ahrif-a-jordina/)

Á Vestförðum er stærsti hluti beinnar losunar gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum (bíla- og skipaumferð) og notkun vinnuvéla, en raf- og hitaveitur losa hlutfallslega lítið. Loks má geta þess að umtalsvert magn af gróðurhúsalofttegundum losnar vegna umsvifa fiskiskipaflota svæðisins

Sveitarfélög geta lagt sitt að mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að

a) Standa fyrir fræðslu til starfsmanna og íbúa sveitarfélaganna.

b) Beita sér fyrir því að ferðaþjónustuaðilar sem flytja ferðamenn til Vestfjarðar séu meðvitaðir um framlag sitt til losunar gróðurhúsalofttegunda á svæðinu og mögulegar aðferðir til að draga úr þeirri losun,

c) Farartæki og samgöngur á vegum starfsmanna sveitarfélaganna losi sem minnst af gróðurhúsalofttegundum.

d) Auðvelda íbúum og gestum að nota farartæki sem nýta umhverfisvænni orkugjafa.

 

Frammistaða sveitarfélaganna á þessu lykilsviði er mæld sem:

  • Losun koltvísýrings (CO2) á mannár í tonnum, og tekur til heildarlosunar allra íbúa og gesta á Vestfjörðum en tekur ekki til losunar fiskiskipaflotans.

Upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda fyrir Vestfirði eru ekki fáanlegar og reiknaði því EarthCheck losun út frá þeim upplýsingum sem þau fengu varðandi orkunotkun og bílaeign á Vestfjörðum 

 

Lykilsvið 2: Orkunýting, -sparnaður og -stjórnun

Ísland er í mikilli sérstöðu þegar orkunotkun er skoðuð. Landið er ríkt af fossum og öðrum endurnýtanlegum orkugjöfum sem hægt er að virkja og er hlutfall endurnýtanlegra orkugjafa yfir 70% sem er mun hærra en í öðrum iðnvæddum löndum. Skipta má orkunotkun Íslendinga gróflega í tvo flokka.  Annars vegar orka sem fengin er frá innlendum orkulindum, einkum jarðhita og vatnsafli, sem losa hlutfallslega lítið af gróðurhúsalofttegundum í samanburði við brennslu jarðefnaeldsneyta. Mikilvægi jarðhita í orkubúskapnum er hvergi meira en hér á landi, enda er Ísland á

meðal þeirra þjóða sem nýta þessa orkulind mest. Auk jarðhita byggist orkubúskapur okkar á vatnsafli og innfluttu eldsneyti Nær öll raforka sem notuð er á Vestfjörðum kemur frá endurnýtanlegum orkugjöfum. Þegar rafmagnsleysi er á svæðinu er notuð díselolía til að keyra díselrafstöðvarnar áfram.

Upplýsingar um hve mikil olía er notuð til að knýja díselrafstöðvarnar voru fengnar hjá Orkubúi Vestfjarða en þær liggja fyrir í ársreikningi þeirra fyrir hvert ár

Frammistaða sveitarfélaganna níu á Vestfjörðum á þessu lykilsviði er einkum mæld með sjálfbærnivísinum:

  • Orkunotkun á mann á ári. Að baki útreikningum eru tölur um notkun eldsneytis, rafmagns og heits vatns.

 Lykilsvið 3: Stjórnun ferskvatnsauðlinda

Vatn er forsenda lífs á jörðinni og þurfa allar lífverur að hafa aðgang að vatni til þess að lifa. Því er þetta lykilsvið afar mikilvægt. Íbúar á Íslandi búa það vel að þurfa yfirleitt ekki að hafa áhyggjur af því að ekki sé til nægt vatn og hafa menn talað um að við séum með óþrjótandi auðlind sem við getum gengið að hvenær sem er. Mikil vitundarvakning hefur orðið undanfarin ár og er ljóst að maðurinn hefur gengið mjög á birgðir  jarðarinnar af fersku hreinu grunnvatni og því er hreint neysluhæft vatn auðlind sem ekki má ganga of nærri og passa þarf að nægur aðgangur komandi kynslóða verði að vatni því án vatns mun ekkert líf þrífast á jörðinni.  

Í flestum tilfellum er nóg til af fersku vatni á Vestfjörðum og þess vegna hefur hingað til ekki verið talið nauðsynlegt að draga úr vatnsnotkun.

Sveitarfélögin á Vestfjörðum nota eftirfarandi sjálfbærnivísa til að fylgjast með þróun mála hvað varðar stjórnun ferskvatnsauðlinda á svæðinu:

 

  • Notkun neysluvatns á mannár í rúmmetrum (skylduvísir skv. EarthCheck)
  • Einkunn fyrir aðgerðir til vatnssparnaðar (skylduvísir skv. EarthCheck) - á t.d. við um vökvun lóða eftir myrkur og söfnun og notkun á regnvatni en þessir hlutir eiga kannski ekki mikið við um aðstæður á Íslandi. Hins vegar er gert ráð fyrir mælingum á frammistöðu varðandi hlutfall vatnssparandi sturtuhausa og krana, og salerna sem hafa spartakka. Ekki er raunhæft að fylgjast með þróun þessara mála á öllum heimilum og fyrirtækjum á Vestfjörðum en sveitarfélög geta beitt sér fyrir vatnssparandi aðgerðum í sínum stofnunum og gefið upp tölur fyrir þær.

 

Lykilsvið 4: Verndun og stjórnun vistkerfa

Til að koma í veg fyrir eyðingu búsvæða lífvera þarf að huga vel að náttúrunni og verndun vistkerfa. Líffræðileg fjölbreytni felur í sér fjölbreytni dýra, örvera og alla fjölbreytni plantna. Mannkynið hefur átt stóran þátt í  því síðustu áratugi að tegundir í vistkerfinu deyi út. Mikilvægt er fyrir framtíð Vestfjarða að ákveðin svæði séu skilgreind sem vernduð eða friðlýst svæði. Úttekt SÞ á vistkerfum (Millennium Ecosystem Assessment) frá árinu 2005 gaf til kynna að athafnir manna á síðastliðnum 50 árum hefðu breytt vistkerfum heimsins meira en á nokkru öðru skeiði í sögu mannkynsins. Þýðingarmestu þættirnir á bak við þessar tilhneigingar eru m.a. eyðing búsvæða, ágengar framandi tegundir, ósjálfbær nýting náttúruauðlinda, loftslagsbreytingar og mengun. 

Um 9 %  af Vestfjörðum eru friðlýst svæði.  Heildarstærð sveitarfélaganna á Vestfjörðum eru 8.844,24 km² og byggjast tölurnar á upplýsingum frá Landmælingum ríkisins.  (http://www.lmi.is/mork/)

Í viðbót við þessar friðlýsingar er í vinnslu friðlýsing á Látrabjargi og nágrenni. Þegar er komin deiliskipulagstillaga fyrir svæðið og einnig er hafin vinna við gerð verndaráætlunar fyrir væntanlegan þjóðgarð.

Til þess að hafa áhrif á það hvaða svæði á Vestfjörðum eru skilgreind sem vernduð svæði þurfa sveitarfélögin á Vestfjörðum að setja sér stefnumörkun varðandi slíkt  í svæðisskipulagi, aðalskipulagi og deiliskipulagi . Þar er hægt að teikna upp og taka frá þau svæði sem eiga að vera sett undir vernd, landgræðslu og vistheimtar.

Sveitarfélögin þurfa að láta fara fram úttekt og stefnumótun um forsendur hvaða svæði eigi að koma til greina og forgangsraða þeim.

Aðrar aðgerðir:

  • Aðgerðir sem leitast við að takmarka tjón af opinberlega skilgreindum ágengum tegundum
    ( til dæmis lúpínu og kerfli). 
  • Reglulegum úttektum og athugunum á ástandi beitilanda og girðinga um þau.
  • Setningu reglna er varða náttúrutengda ferðamennsku.

 

Sveitarfélögin á Vestfjörðum nota eftirfarandi sjálfbærnivísa til að fylgjast með þróun mála hvað varðar verndun og stjórnun vistkerfa á svæðinu:

  • Flatarmál svæða sem vernduð eru vegna innlends lífríkis, sem hlutfall af heildarflatarmáli svæðisins (skylduvísir skv. EarthCheck)

 

Lykilsvið 5: Stjórnun félagslegra- og menningarlegra áhrifa ferðaþjónustunnar

 Ferðamennska er eitt helsta einkenni nútímasamfélaga og horfa sveitarfélögin á Vestfjörðum á ferðaþjónustu sem þá þjónustu sem er hvað mest í uppgangi í dag.  Árið 2012 komu til landsins 672.800 erlendir ferðamenn, samanborið við 277.900 árið 2002. Aukningin jafngildir meira en 240% á 10 árum og sér ekki fyrir endann á fjölguninni. (Hagstofa Íslands)

Ferðaþjónusta getur haft mikil áhrif á landið bæði til góðs og ills. Áhrif ferðaþjónustu á íslenska menningu og samfélag hefur þó verið lítið rannsökuð. Gæta þarf að því að þolmörk ferðamannastaða séu skoðuð þannig að ekki sé hætta á að dýrmætar náttúruperlur og ósnortið land eyðileggist vegna of mikils átroðnings. Því er mjög mikilvægt fyrir Vestfirði að þetta lykilsvið sé skoðað og sveitarfélögin noti það til þess að hægt sé að fyrirbyggja  skemmdir á náttúru Vestfjarða sem jafnvel væru ekki afturkræfar.

Þetta lykilsvið snýr ekki eingöngu að sveitarfélögunum heldur eru ferðaþjónar kallaðir til ábyrgðar í auknum mæli þannig að þeir  beri ábyrgð á eigin athöfnum og athöfnum þeirra ferðamanna sem þeir hafa tekjur af.

Ferðaþjónusta er mjög mikilvæg atvinnugrein og er von sveitarfélaganna að hún muni aukast í framtíðinni á Vestfjörðum. Ferðaþjónustan þarf hins vegar að huga að því að stór hluti þeirra sem koma til Vestfjarða koma til að skoða óspillta náttúru og fegurð hennar. Það er því til hagsbóta fyrir ferðaþjónustuna að hafa sjálfbærni sem leiðarljós í sinni vinnu.

Sveitarfélögin á Vestfjörðum nota eftirfarandi sjálfbærnivísa til að fylgjast með þróun mála hvað varðar stjórnun félagslegra og menningarlegra áhrifa ferðaþjónustunnar:

 

  • Fjöldi vottaðra ferðaþjónustufyrirtækja sem hlutfall af heildarfjölda ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu. (skylduvísir skv. Earth Check)

Lykilsvið 6: Skipulags- og byggingarmál

Þegar skipuleggja á byggð og landnotkun er mjög mikilvægt að tengja hana við verndun búsvæða ásamt mögulegum áhættum er varða mengun og losun sorps eða annars úrgangs.

Skipulag og byggingarmál eru á hendi sveitarfélaganna og geta þau haft áhrif á þetta lykilsvið með stefnumörkun sem sett er í skipulagsáætlun ( svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag) og einnig í setningu stefnumarkanna í gerð útboðsganga og leyfisveitinga sem eru í tengslum við framkvæmdir í sveitarfélaginu.

Mikilvægt er að leiðbeiningar er varða skipulags- og byggingamál séu skýr og séu í þágu sjálfbærrar þróunar  þannig að verklag  er varðar uppbyggingu og verndun séu auðveld að fara eftir.

 

Sá sjálfbærnivísir sem samkvæmt svæðastaðli EarthCheck vegur þyngst í einkunnargjöf fyrir þetta lykilsvið er:

  • Flatarmál grænna svæða sem hlutfall af heildarflatarmáli svæðisins.

 

Þessi mælikvarði á lítið erindi við strjálbýl svæði eins og Vestfirðir eru og hefur verið talað við EarthCheck að fallast á þá túlkun en vitað er að EarthCheck féllst á það varðandi Snæfellsnes.

 

Annar vísir er mun mikilvægari fyrir Vestfirði:

  •  Flatarmál verndaðra svæða m.t.t. vernd upprunalegra tegunda, sem hlutfall af heildarflatarmáli Vestfjarða.

 

Lykilsvið 7: Félagshagfræðilegur ávinningur svæðisins af ferðaþjónustu

Sveitarfélögin á Vestfjörðum geta haft ýmiskonar ávinning af ferðaþjónustu. Hann getur verið efnahags-, félags- og menningarlegur. 

Efnahagslegi ávinningurinn getur verið sá að fjármagn komi inn til sveitarfélaganna í formi aukins útsvars og störf verða til í tengslum við samgöngur, gistingu, mat og afþreyingu, auk fjölmargra annarra afleiddra starfa í þjónustu- og framleiðslugreinum.

Ferðaþjónustan getur einnig ýtt á að innri uppbyggingu verði flýtt svo sem samgöngur og þjónusta. Mjög mikilvægt er að stærsti hluti ávinningsins verði eftir í sveitarfélögunum og nýtist þannig til uppbyggingar á svæðinu. Því miður er of mikið af því að hagnaður flytjist burt af svæðinu til höfuðstöðva fyrirtækjanna sem eru með þjónustuna út á landi en höfuðstöðvar jafnvel í höfuðborginni.

 

EarthCheck hafa ekki skilgreint sjálfbærnivísa fyrir þennan þátt og er því enga slíka vísa að finna. Ef auka á félagshagfræðilegan ávinning af ferðaþjónustunni á Vestfjörðum er lykilatriði að ferðamannatíminn verði lengdur svo að aðilar í ferðaþjónustu sjái hag sinn í að sinna slíkum verkefnum og fyrirtækið sé rekstarhæft allt árið. Á veturnar hamlar veður oft samgöngum og hefur það gert ferðaþjónustufyrirtækjum erfiðara fyrir varðandi það að vera samkeppnishæf á landsvísu. Hins vegar væri hægt að lengja ferðamannatímann þannig að þjónusta fyrir ferðamenn nái lengra fram eftir hausti og byrji fyrr á vorin. Sveitarfélögin gætu komið að því með því að bæta söfn sín og skilgreina þær lykilupplifanir sem svæðin hafa upp á að bjóða fyrir ferðamenn sem koma á svæðið.

 

Lykilsvið 8: Verndun loftgæða og stjórnun hávaða

Athafnir daglegs lífs nútímamannsins hafa veruleg áhrif á loftgæði og hávaða. Notkun farartækja sem nota eldsneyti ásamt öðrum athöfnum mannsins hafa ollið því að loftgæði í heiminum hafa farið þverrandi. Léleg loftgæði eru víða vandamál og þá sérstaklega í þéttbýlum svæðum. Þetta lykilsvið er því mjög mikilvægt fyrir allt líf en slæm loftgæði hafa verið tengd við lægri lífslíkur og aukningu ýmissa öndunarfærasjúkdóma. Einnig hefur verið sýnt fram á að hávaði veldur streitu sem aftur getur valdið ýmiskonar sjúkdómum er tengjast hjarta og geðheilsu.

Svifryksmengun á Íslandi er mest þar sem mikið er um bifreiðar og umferð mikil. Svifryk eru litlar agnir sem innihalda ýmiskonar efnasambönd og jafnvel malbik. Dreifing svifryks fer eftir veðri, vindum, umferðarþunga og umferðarhraða. (Wikipedia.org). Svifryk losnar einnig á náttúrulegan hátt t.d. fok úr eldfjallajarðvegi landsins.

Vestfirðir eru strjálbýlir án stóriðju og umferð er ekki þung. Þetta gerir það að verkum að loftgæðin eru yfirleitt með besta móti.

 

Ekki eru til beinar mælingar á þessum efnum á Vestfjörðum en losun þeirra er áætluð út frá heildarakstri á Vestfjörðum, sem metinn er út frá tölum um bifreiðaeign og akstur frá Umferðarstofu.  Seinnipart ársins 2014 eftir að eldgosið í (Bárðarbungu)Holuhrauni hófst fékk Umhverfisstofnun fleiri mæla á Ísland og því er von til þess að þessi þáttur verði mun betri í næstu mælingum.

Frammistaða sveitarfélaganna á þessu lykilsviði er einkum mæld með þremur sjálfbærnivísum:

  • Losun köfnunarefnisoxíða (NOx) á hektara
  • Losun brennisteinsoxíða (SOx) á hektara
  • Magn svifryks (PM10) á hektara 

Í lykilsvið 1 og  2 var farið yfir leiðir til framfara varðandi stjórnun gæða lofts og eru þær því ekki tilgreindar hér aftur.

 

 Lykilsvið 9: Stjórnun fráveitumála og yfirborðsvatns

 Eins og fram kom í kaflanum um lykilsvið 3 um stjórnun ferskvatnsauðlinda er vatn mjög mikilvægt öllu lífi á jörðinni. Aðgengi að hreinu vatni er alls ekki sjálfsagður hlutur allstaðar í heiminum og því þarf að umgangast það með varúð þannig að það drykkjarhæfa vatn sem til er í heiminum spillist ekki.

Í þessu lykilsviði er lögð áhersla á að draga úr umhverfis- og heilsufarstengdum áhrifum sem losun skólps getur haft á ferskvatnsauðlindir  ásamt því að tryggja ákjósanlegt ástand grunnvatns og yfirborðsvatns (kyrrstætt eða rennandi vatn á yfirborði jarðar; straumvötn, stöðuvötn, jöklar og strandsjór).

Á Íslandi þekja jöklar tæplega 12% af yfirboði landsins og sjá jökulár vatnsaflsvirkjunum árlega fyrir 42.300 milljónum rúmmetra af vatni til framleiðslu á rafmagni. Við landið eru öflug sjávarföll sem sjá um að flytja mengunarefni eins og skólp frá ströndinni tvisvar á sólarhring og einnig á þjóðin það mikið tært grunnvatn að það sér 98% þjóðarinnar fyrir neysluvatni og 90% þjóðarinnar hita híbýli sín með jarðhitavatni. (umhverfisraduneyti.is)

Alþingi samþykkti lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála en markmið þeirra er að tryggja sjálfbæra nýtingu vatns með langtímavernd einnar dýrmætustu auðlindar jarðarinnar, vatnsauðlindarinnar í huga. Þessi lykilþáttur snýr einmitt að þessu markmiði.

Eins og á við um nær allt Ísland eru Vestfirðir mjög auðugir af hreinu og tæru vatni og er sjórinn almennt lítið mengaður ef miðað er við önnur svæði. Þó mætti á mörgum stöðum gera betur þar sem fráveitukerfi klóaks eru leidd beint út í sjó. Ef ekkert er að gert þá er hætta á því að það skólp sem beint er beina leið út í sjó geti valdið sýkingarhættu og haft neikvæða ímynd á svæðið sem gæti haft áhrif á ferðamannastaði.

Brýnt væri fyrir sveitarfélögin á Vestfjörðum að huga að úrbótum í fráveitumálum í þéttbýlum. Einnig þarf að fræða íbúa um það sem má fara í frárennsliskerfið og mikilvægt er að tryggja að fyrir liggi staðbundnar viðbragðsáætlanir vegna mengunarslysa.

Frammistaða sveitarfélaganna á þessu lykilsviði er einkum mæld með sjálfbærnivísinum:

  • Hlutfall vatnssýna sem standast kröfur um hreinleika

Fram til þessa hefur eingöngu verið notast við mælingar á sýnum úr drykkjarvatni. Miðað við þá þætti sem lykilsviðið nær til væri eðlilegra að miða við vatnssýni sem tekin væru úr yfirborðsvatni (kyrrstætt eða rennandi vatn á yfirborði jarðar, straumvötn, stöðuvötn og strandsjór). Þó að það hafi ekki verið gert hingað til væri æskilegt að slíkar mælingar væru framkvæmdar reglulega.

 

Lykilsvið 10: Stjórnun úrgangs á föstu formi

Hvert svæði þarf að vera sjálfbært með að sinna sínu sorpi og koma því í rétta förgun eða endurnýtingu. Á síðasta áratug hefur orðið mikil vitundarvakning  varðandi  hvernig hægt er að nýta sorp þannig að ekki sé öllu sorpi fargað. Það sem einum finnst vera sorp getur annar talið vera nytsamlegt og sér jafnvel auð í að safna því.

Ef sorpmálum er ekki sinnt á réttan hátt er hætta á því að verðmæti tapist og fari til spillis og hætta á því að mengandi efni leki í jarðveg. Með auknu magni af sorpi er því hætta á aukinni sóun og getur það haft í för með sér meiri umhverfisspjöll og kostnað. Sorp myndar metan, sem hefur áhrif á loftgæði og við bruna sorps myndast dioxín sem er eitt eitraðasta efnið í náttúrunni.

Ef ekki er hugað að stjórnun úrgangs er mikil hætta á því að sorpmagn og mengun frá því hafi mjög neikvæð umhverfisáhrif og einnig áhrif á ímynd svæðisins.  Á Vestfjörðum eru fjórir aðilar sem sjá um sorpsöfnun og förgun á svæðinu og eru þeir Gámaþjónustu Vestfjarða ehf., Sorpsamlag Strandasýslu, Gámaþjónustan hf. og Kubbi ehf. og voru upplýsingar um sorpmagn og endurvinnslu á sorpi fengnar frá þessum aðilum.

Leiðir til framfara

Sú leið sem sveitarfélögin á Vestfjörðum geta farið til þess að minnka sorpmyndun er að draga almennt úr innkaupum. Til þess að það sé hægt þarf að halda utan um það á skilvirkan hátt hvað er keypt inn þannig að hægt sé að skoða innkaup og draga úr þar sem við á.  Einnig þarf að beina innkaupum þannig að keypt séu inn endurunnar vörur.  Þetta þarf að gerast þannig að sveitarfélögin taki ábyrgð á sínum innkaupum og komi fræðslu til þeirra er kaupa inn fyrir sveitarfélögin ásamt því að kynna leiðir sem leiða til minnkunar á sorpframleiðni í sveitarfélaginu fyrir almenning.

Þetta er hægt með því að sveitarfélögin skoði eftirfarandi atriði:

  • Að magn úrgangs sem fellur frá sveitarfélögunum minnki árlega.
  • Að hlutfall úrgangs sem fer til endurnýtingar eða endurvinnslu hækki ár frá ári.
  • Að eingöngu séu keyptar umhverfismerktar pappírsvörur fyrir skrifstofur og stofnanir sveitarfélaganna á Vestfjörðum.
  • Að eingöngu séu keypt umhverfismerkt hreinsiefni fyrir skrifstofur og stofnanir sveitarfélaganna á Vestfjörðum.
  • Tekið verði upp flokkunarkerfi þar sem heimilissorp er flokkað í þrjá mismunandi  flokka sem eru:  endurvinnanlegt efni,   lífrænn úrgangur og almennt óendurnýtanlegt sorp.
  • Að Vestfirðir verði að mestu plastpokalausir fyrir árið 2017.

Frammistaða sveitarfélaganna á þessu lykilsviði er einkum mæld með þremur sjálfbærnivísum:

  • Magn úrgangs til urðunar á mann á ári (miðað við heildarsorpmyndun allra í sveitarfélögunum).
  • Hlutfallsleg endurvinnsla úrgangs (allur úrgangur í sveitarfélaginu).
  • Hlutfall umhverfismerktrar pappírsvöru (á við um innkaup á vegum sveitarfélaga og stofnana þeirra) .

Lykilsvið 11: Geymsla og notkun efna sem eru skaðleg umhverfinu

Eiturefni sem notuð eru í náttúrunni geta haft margvísleg neikvæð áhrif. Í eitri svo sem skordýra-, illgresis-, sveppa- og nagdýraeitri eru efni sem geta haft veruleg áhrif jafnvel til langs tíma. Eituráhrifin geta verið allt frá því að valda bruna á stuttum tíma eða valdið krabbameini sem gætu tekið mörg ár að koma fram.  Mjög lítið er notað af skaðlegum efnum af sveitarfélaginu en helst má nefna arfaeitur og meindýraeitur.  Er ekki viss um að þetta sé mjög lítið. Hins vegar eru ýmis hreingerningarefni sem innihalda eiturefni sem hafa áhrif á náttúruna þegar þau fara í náttúruna. Því er mikilvægt að sveitarfélögin dragi úr notkun þessara efna eins mikið og kostur er og reyni að velja við innkaup náttúruleg efni (biodegradable) sem bera viðurkennd umhverfismerki sem merkir að þau valdi minni neikvæðum umhverfisáhrifum. Einnig þarf að vera ljóst hvernig förgun eiturefna og efna sem innihalda skaðleg efni skulu fara fram.

Sveitarfélögin þurfa að stuðla að því að ekki séu notuð, né keypt inn efni sem eru skaðleg umhverfinu og  hætta notkun eiturefna s.s. til illgresiseyðingar og noti önnur ráð s.s. salt. Öll keypt hreinsiefni skulu bera viðurkennd umhverfismerki og ef þau eru ekki í boði skal skipta út skaðsömum efnum fyrir efni sem ekki eru eins skaðleg.

 

Lykilsvið 12: Verndun menningarminja

 Með því að vernda menningarminjar er verið að trygga að aðgangur komandi kynslóða að þekkingu um fortíðina sé varðveittur ásamt því að  viðhalda menningarlegum fjölbreytileika.

Á heimasíðu Minjastofnunar Íslands segir „Menningarminjar teljast ummerki um sögu þjóðarinnar, svo sem fornminjar, menningar- og búsetulandslag, kirkjugripir og minningarmörk, hús og önnur mannvirki, skip og bátar, samgöngutæki, listmunir og nytjahlutir, svo og myndir og aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar. Lög þessi ná einnig til staða sem tengjast menningarsögu.
 Lög þessi eiga að tryggja eftir föngum varðveislu menningarminja í eigin umhverfi, auðvelda aðgang og kynni þjóðarinnar af menningarminjum og greiða fyrir rannsóknum á þeim“ (http://www.minjastofnun.is/minjar)

Ekki hafa verið skilgreindir sjálfbærnivísar fyrir þennan þátt hjá EarthCheck.