Fara í efni

Af hverju umhverfisvottun?

Fréttir

Sú ákvörðun sveitarfélaganna níu  að vinna í sameiningu að því að fá starfsemi sína umhverfisvottaða er skerf í þá átt að skapa þekkingarsamfélag með sjálfbærni að leiðarljósi. Í því viðskiptalega umhverfi og í ljósi þeirrar hnattvæðingar sem ríkir í heiminum í dag  telja sveitarstjórnarmenn það vera mjög jákvæða stefnu að fá  starfsemi sveitarfélaganna umhverfisvottaða. Líklegt er að það hafi  jákvæð áhrif á markaðssetningu á hverskonar afurðum er koma frá svæðinu og veki athygli ferðamanna. Fjögur sveitarfélög af níu á Vestfjörðum samþykktu Staðardagskrá 21 á sínum tíma og eru það sveitarfélögin; Ísafjarðarbær, Strandabyggð, Reykhólahreppur og Tálknafjarðarhreppur. 

 

Sveitarfélögin geta farið ýmsar leiðir í því að bæta umhverfi sitt án þess að sækjast eftir vottun í leiðinni. Því er eðlilegt að spyrja sig hvort sú leið að sækjast eftir umhverfisvottun hafi eitthvað upp á að bjóða umfram aðrar leiðir. Lykilatriði í viðurkenndu vottunarferli tekur m.a. til úttektar og mats óháðs aðila á árangri þess sem leitast eftir að fá vottun. Þetta er mjög mikilvægt atriði og felast ótvíræðir kostir í því að byggja upp sjálfbærari lífs- og starfshætti með vottun óháðs þriðja aðila:

  • Trúverðugleiki. Þar sem mælanlegur árangur er metinn af óháðum aðila og þarf að standast skilgreinda staðla og viðmið er tryggt að sá árangur sem haldið er fram að hafi náðst sé raunverulegur en ekki eingöngu huglægur.
  • Gæðastjórnun. Þátttaka í vottunarferli tryggir nákvæma skráningu auðlindanotkunar og eykur gagnsæi upplýsinga. Hún bætir þannig verk- og pappírsferla og gefur betra yfirlit um notkun náttúruauðlinda. Hún stuðlar því að bættri gæðastjórnun, sem auðveldar eftirlit með breytingum og viðbrögð þar sem úrbóta er þörf.
  •  Aðhald og eftirfylgni. Árleg úttekt vottunaraðila tryggir aðhald, eftirfylgni og haldbærar upplýsingar um frammistöðu. Kerfið er því líklegra til að skila raunverulegum skrefum í átt til sjálfbærni.

 Af þessu sést að sú leið að sækjast eftir umhverfisvottun getur haft margt fram yfir aðrar leiðir. Að auki má nefna að umhverfisvottun alþjóðlega viðurkennds vottunaraðila getur tvímælalaust bætt ímynd þess sem vottað er og falið í sér ný og fjölbreytt tækifæri til kynningar og markaðssetningar.