Fara í efni

Staða sviðsstjóra fiskeldis

Fréttir

Um helgina var auglýst hjá Hafrannsóknastofnun, Rannsókna og ráðgjafastofnun hafs og vatna, starf sviðsstjóra á sviði fiskeldis. Fjórðungssamband Vestfirðinga væntir þess að hér sé um að ræða viðbót við þá starfsemi á sviði rannsókna og ráðgjafar í fiskeldi sem unnið var að fyrir sameiningu Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunar, enda mikið hagsmunamál fyrir Vestfirði ekki síst nú við hraða uppbyggingu sjókvíaeldis á Vestfjörðum.

 

Ekki kemur fram í auglýsingunni hvar starfið verði staðsett, en á vefnum www.starfatorg.is er staðsetning tilgreind í Reykjavík. Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur því beint fyrirspurn til Hafrannsóknarstofnunar hvort það hafi verið tekið ákvörðun um staðsetningu starfsins en beinir því leið til stofnunarinnar að líta ber á Vestfirði sem augljósan kost fyrir staðsetningu starfsins.

 

Þarf vart að rekja að Fjórðungssamband Vestfirðinga og sveitarfélögin sem að því standa, hafa um árabil haldið þeirri stefnu að stjórnvöldum að uppbygging rannsókna, ráðgjafar og eftirlits í kjarnaatvinnugreinum og náttúrufari landshlutans verði byggðar upp á Vestfjörðum. Benda má þar á velheppnaða uppbyggingu Hafrannsóknastofnunar á sviði veiðarfærarannsókna á Ísafirði sem og uppbyggingu eftirlits og rannsókna á sviði ofanflóða á vegum Veðurstofu.

 

Stjórnvöld hafa nú tekið undir framangreinda stefnu en í tillögu í skýrslu nefndar forsætisráðuneytis „Aðgerðaráætlun á sviði samfélags- og atvinnuþróunar fyrir Vestfirði“  https://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/adgerdaaaetlun-fyrir-vestfirdi-1 og afgreidd var á ríkisstjórnarfundi þann 20. september s.l. segir. „Nefndin leggur til að stjórnvöld taki ákvörðun um að staðsetja störf í stoðkerfi fiskeldis fyrir landið allt á Vestfjörðum og að þar verði svokölluð miðstöð fiskeldis staðsett til framtíðar. Þar er um að ræða störf á sviði stjórnsýslu, eftirlits og rannsókna frá t.d. Matís, Fiskistofu, Hafrannsóknarstofnun og annarri rannsóknarstarfsemi tengdri fiskeldi.“

 

Fjórðungssamband Vestfirðinga ítrekar skoðun sína í þessu máli og beinir því til stjórnvalda að uppbygging starfa á sviði fiskeldis verði staðsettar á Vestfjörðum og lýsir sig reiðubúið til viðræðna við Hafrannsóknastofnun og viðkomandi ráðuneyti um málið.