Fara í efni

100 manns á velheppnuðum fundur um fiskeldi

Fréttir
Edinborgarsalur þétt setinn (mynd Edinborgarhúsið)
Edinborgarsalur þétt setinn (mynd Edinborgarhúsið)

Fjórðungssamband Vestfirðinga boðaði til opins fundar með framboðum í Norðvesturkjördæmi til Alþingiskosninga, um málefni fiskeldis sunnudaginn 16. október kl 20:00 í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Fundurinn var mjög vel sóttur en rúmlega 100 manns sóttu hann víðsvegar af Vestfjörðum.

Framsögu á fundinum höfðu Pétur G Markan formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, Jón Helgi Björnsson frá Landsamband veiðifélaga og Höskuldur Steinarsson frá Landssamband fiskeldisstöðva. Hvert og eitt framboð hafði síðan stutta kynningu á stefnu í málaflokknum.

Þeir fulltrúar sem mættu til fundarins voru

 

  • Björt framtíð – G. Valdimar Valdemarsson
  • Dögun – Sigurjón Þórðarson
  • Framsóknarflokkur – Gunnar Bragi Sveinsson
  • Íslenska þjóðfylkingin – Jens Jensson
  • Píratar – Gunnar Guðmundsson
  • Samfylkingin  – Guðjón Brjánsson
  • Sjálfstæðisflokkur. – Teitur Einarsson
  • Vinstri Græn – Lilja Rafney Magnúsdóttir

Auk þessa var lesin upp yfirlýsing frá fulltrúa Viðreisnar sem forfallaðist.

Í málið Péturs Markans, formanns Fjórðungssambands Vestfirðinga kom fram að fiskeldi hefur haft mjög jákvæð áhrif á samfélögin á sunnanverðum Vestfjörðum, þar sem orðinn er viðsnúningur í íbúaþróun og efnahagslífi. Ekki er að ætla annað en sambærileg þróun geti orðið á norðanverðum Vestfjörðum. Fjórðungssamband Vestfirðinga bendir á að uppbygging fiskeldis á Vestfjörðum, í Eyjafirði og á Austfjörðum, byggði á svæðaskiptingu sem landbúnaðaráðherra hefði gefið út árið 2004 um hvar væri heimilt að ala frjóan eldisfisk í sjókvíum. Sveitarfélögin á Vestfjörðum hefðu á þessu grundvelli litið á fiskeldi sem tækifæri og því stutt við uppbyggingu fiskeldis, enda væri það undirbúið á forsendum umhverfismats og því regluverki sem stjórnvöld hefðu sett atvinnugreininni hverju sinni. Það er mat Fjórðungssambandsins að með þessum hætti væri tekið á samspili verndunar og nýtingar umhverfisins m.a. áhrif á villta laxastofna, sjúkdómahættu og úrgangsmálum. Sveitarfélögin gerðu hinsvegar þá kröfu að strandsvæðaskipulag verði sett í lög og sveitarfélögin leiði þá skipulagsvinnu. Ríkir hagsmunir væru fyrir nærsamfélagið að verndun umhverfis og uppbygging nýrra atvinnugreina eins og fiskeldis og ferðaþjónustu, fari vel saman við hlið hefðbundinna atvinnugreina.

 

 

Landsamband veiðifélaga taldi að stöðva yrði alla frekari leyfisveitingar í sjókvíeldi með frjóa laxfiska. Lýstu þeir þungum áhyggjum af þróun mála og hættu á erfðablöndun íslenskra laxastofna við eldisstofn af norskum uppruna. Það blasi einnig við, að með þéttu eldi muni laxalús verða mikið vandamál auk sjúkdóma. Seiði sem leyti til sjávar og göngufiskur sem fari um fiskeldissvæðin væru þar í mikilli hættu. Fiskeldi eigi rétt á sér en það verði að fram í lokuðum kerfum eða með geldfiski. Þessu máli yrði fylgt eftir af hörku að hálfu landssambandsins.

Landsamband fiskeldisstöðva lagði áherslu á að fiskeldi væri atvinnugrein sem hefði fest sig í sessi. Íslendingar væru stærstu framleiðendur í eldi á bleikju og aðrar tegundir væru lofandi. Eldi laxfiska í sjókvíum væri ekki lengur áform, heldur atvinnugrein í vexti. Frá árinu 2010 til 2015 hefði framleiðsla á laxfiskum samanlagt numið um 20.000 tonnum. Nú stefnir í að ársframleiðslan ein og sér nemi þessu sama magni. Landsambandið hefði haft frumkvæði að því að umhverfisstaðlar og öryggi fiskeldisbúnaðar væru jafns á við það sem best þekktist s.s. í Noregi. Í dag gilti víðtæk lokun svæða fyrir sjókvíaeldi með laxfiska frá árinu 2004, sem hefði verið ákveðin sátt í að finna jafnvægi á milli eldis og verndunar.

Í máli fulltrúa framboðanna kom fram að misjafnt var hvað framboðin hefðu markað sér stefnu í málaflokknum, sum nær ekkert á meðan önnur meira. Fulltrúi Pírata lýsti miklum efasemdum um að ala eldisstofn af norskum uppruna vegna sjúkdómahættu. Önnur framboð töldu uppbyggingu koma til með að vera. Öll framboðin voru sammála að mikilvægt væri að stefnumótun yrði hrint í gang til að tryggja atvinnugreininni ramma. Með uppbyggingu fiskeldis yrði að tryggja að ekki yrði gengið á umhverfið, efla yrði rannsóknir, eftirlit,  stjórnsýslu greinarinnar og nýsköpun í eldi og hliðargreinum þeim tengdum. Þar var bent á ákvörðun sjávarútvegsráðherra um eflingu eftirlits á fiskeldissvæðum og að fiskeldissvið Hafrannsóknastofnunar yrði á Ísafirði. Öll framboðin tóku undir sjónarmið að tryggja sveitarfélögum arð af nýtingu auðlindarinnar og að komið yrði á strandsvæðaskipulagi á forræði sveitarfélaganna. Því með strandsvæðaskipulagi væri tekið á hagsmunum mismunandi aðila t.d. skiptingu og eða verndun svæða. Hér mætti vísa til umræðu um mismunandi hagsmuni ferðaþjónustu og fiskeldis er varðar Jökulfirði norðan Ísafjarðardjúps.