Fara í efni

Málaflokkar

Orkumál

Með breytingu á raforkulögum á árinu 2003 var umhverfi og aðkoma stjórnvalda gerbreytt að er varðandi stórnotkun eða framleiðslu á raforku. Raforkulög gera skýra kröfu til Landsnets um að kostnaður vegna viðbóta við flutningskerfið sé greiddur á markaðslegum forsendum, hvort sem um sé að ræða framleiðslu eða notkun.

Áratugum áður hafði drifkraftur í uppbyggingu flutningskerfis raforku verið stórar virkjanaframkvæmdir og eða verkefni á sviði stóriðju. Gátu stjórnvöld og eða fyrirtæki í eigu ríkisins beitt sér marktækt að veita þeim brautargengi. Hliðaráhrif  þessara verkefna var að landshlutinn fékk aukið afhendingaröryggi raforku og þannig „sjálfkrafa“ treyst grundvöll fyrir uppbyggingu  samfélaga og atvinnulífs.

Á Vestfjörðum hafa slík orkutengd verkefni ekki komið til og landshlutinn hefur því ekki forgjöf sem hafa stuðlað að auknu afhendingaröryggi líkt og í öðrum landshlutum. Þessi staða hefur verði mjög hamlandi fyrir framþróun samfélaga og atvinnulífs á Vestfjörðum m.a. haft áhrif á launaþróun og komið í veg fyrir fjárfestingu innan landshlutans.

Staða orkuframleiðslu á Vestfjörðum hefur raun lítið breyst á undanförnum áratugum. Virkjað vatnsafl á Vestfjörðum var á árinu 2017 um 23 MW með framleiðslu um 115 GWh á ári. Orkuþörf svæðisins var á árinu 2017,  247,7 GWh, aflþörf fer eftir árstíðum og getur verið allt að 40 MW yfir veturinn.

Aukin eftirspurn er eftir raforku á Vestfjörðum í tengslum m.a. við fiskeldi og vinnslu kalkþörungasets. Í skýrslu Eflu - verkfræðistofu um mat á orkuþörf sviðsmynda um mögulega þróun atvinnu og mannlífs á Vestfjörðum árið 2035. Metið er sem svo að raforkuþörf á Vestfjörðum geti verið rúmlega 60% meiri en Orkuspánefnd sem spáir fyrir um og er m.a. lögð til grundvallar tillögu Landsnets að Kerfisáætlun 2020-2029   

Áætlaður kostnaður vegna uppbyggingar samkeppnishæfs flutningskerfis á Vestfjörðum er 10–20 milljarðar króna. Atvinnustefna, sem byggir á hægfara aukningu og fjölbreyttri starfsemi, mun greiða fyrir uppbyggingu á löngum tíma eftir því sem orkukaup aukast. Í millitíðinni yrði að koma hækkun flutningsgjalda á raforku og það hefur mætt andstöðu orkufyrirtækja og dreifingaraðila m.a. á höfuðborgarsvæðinu.

Verkefni í orkumálum eru því viðamikil og skipta má þeim í þrennt;

•        að gera úrbætur á svæðisbundnu flutningskerfi (>66 KV) og á almenna dreifikerfinu, en ástand flutnings og dreifkerfi var víða hörmulegt í samanburði við önnur landssvæði.

•        að leita leiða til hringtengja flutningskerfi á Vestfjörðum og tryggja betur flutning raforku til Vestfjarða frá landskerfinu

•        að leita leiða til að auka orkuframleiðslu innan Vestfjarða en orkuframleiðslan samsvarar. 

Nánari upplýsingar má finna margvíslegu efni sem gefið hefur verið út. Skýrsla Eflu-verkfræðistofu hefur hér verið nefnd. Einnig hefur Vestfjarðastofa gefið út minnisblað:

Staðreyndir um raforkumál á Vestfjörðum

Unnið er að uppbyggingu tengipunkts í Ísafjarðardjúpi. Skipað hefur verið verkefnaráð til að fylgja eftir skýrslu Landsnets um málið "Tengipunktur í Ísafjarðardjúpi og tenging Hvalár" sem út kom vorið 2019. Fylgjast má með vinnu verkefnaráðs hér á síðu Landsnets

Leitast hefur verið eftir að finna leiðir til að auka orkuframleiðslu á Vestfjörðum. Verkefnið "Smávirkjanir á Vestfjörðum" var áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vestfjarða árið 2019 og var verkfræðistofan Verkís var fengin til að skoða um 30 - 40 virkjanakosti.  

Hægt er að skoða skýrsluna hér

Fjórðungssamband Vestfirðinga og Vestfjarðastofa hafa unnið margvíslegar umsagnir í málum er tengjast orkumálum á Vestfjörðum og sjá má þær umsagnir hér á síðunni.  

 

 

Ferðaþjónusta

Vestfjarðastofa sinnir ferðaþjónustu svæðisins undir merkjum Markaðsstofu Vestfjarða og Visit Westfjords. Verkefni í tengslum við ferðaþjónustu eru unnin í  samstarfi við sveitarfélögin á svæðinu sem og ferðaþjónustufyrirtækin. 

Markaðsstofa Vestfjarða starfar sem deild innan Vestfjarðastofu og sinnir markaðssetningu, innviðamálum og stefnumótun ferðaþjónustu svæðisins. Helstu hlutverk Markaðsstofu Vestfjarða eru:

- Kynning svæðisins 
- Umsjón með heimasíðu og samfélagsmiðlum (www.westfjords.is)
- Útgáfa kynningarefnis, bæklinga og korta
- Blaðamannaferðir í samstarfi við Íslandsstofu
- Ferðasýningar á lykilmörkuðum
- Gerð og eftirfylgni áfangastaðaáætlunar 

Markaðsstofa Vestfjarða hélt utan um vinnu við Áfangastaðaáætlun Vestfjarða, en sú áætlun var gefin út seinni hluta árs 2018, en unnið er að uppfærslu og verður hún gefin út fyrir lok árs 2020. Í Áfangastaðaáætluninni er sett fram heilsteypt stefna fyrir svæðið í ferðaþjónustu. 

Sjávarútvegur

Sjávarútvegur er ráðandi atvinnugrein á Vestfjörðum og áberandi í umræðu um byggðamál fjórðungsins. Sú umræða hefur að mestu snúist um að skoða þróun á kvóta, afla, áhrif kvótakerfisins og hugsanlegar breytingar á því.

Nýsköpun og atvinnuþróun tengd sjávarútvegi er lykilþáttur í samkeppnishæfni Vestfjarða og eru öflug nýsköpunarfyrirtæki eins og Skaginn 3X og Kerecis þar góðar fyrirmyndir. 

Í starfi sínu leggur Vestfjarðastofa mikla áherslu á atvinnuþróun, nýsköpun og hagsmunabaráttu tengda sjávarauðlindinni en verkefnastjóri Vestfjarðastofu stýrir einnig Sjávarútvegsklasa Vestfjarða.

Fiskeldi

Fiskeldi er umhverfisvæn atvinnugrein sem skapað getur umtalsverð útflutningsverðmæti fyrir land og þjóð og haft í för með sér jákvæða íbúaþróun. Kolefnisspor sjókvíeldis er svipað og við veiðar á villtum fiski og lægra en í flestri annarri framleiðslu á dýraafurðum til manneldis. Áhersla á fiskeldi rímar því vel við áherslur umhverfisvottaðra sveitarfélaga á Vestfjörðum.  

Fiskeldi hefur í Sóknaráætlun Vestfjarða verið skilgreint sem áhersluþáttur og verkefni Vestfjarðastofu er að styðja við uppbyggingu atvinnugreinarinnar með hagsmunagæslu, atvinnuþróun og nýsköpun. 

Fiskeldi er einn helsti vaxtarbroddur atvinnvinnulífs á Vestfjörðum. Helst hagsmunamál Vestfjarða er að byggja upp sjálfbæra atvinnugrein þar sem lagarammi greinarinnar og tekjustofnar sveitafélaganna eru skýrir.  Ef framleidd verða 51.000 tonn á Vestfjörðum eins og áætlanir gera ráð fyrir má gera ráð fyrir 640 beinum störfum og 390 óbeinum og afleiddum störfum á Vestfjörðum. Það eru spennandi tækifæri í greininni hvað varðar fjölbreytt störf þar sem greinin spannar fjölda fræði- og tæknigreina og Vestfirðir gætu snúið vörn í sókn og byggt upp öfluga innviði.  

Hjá Vestfjarðastofu hefur verið lögð áhersla á að fylgjast með þróun fiskeldisgreinarinnar. Til að fá mælanleg gögn vann RHA viðhorfskönnun þar sem Vestfirðingar voru spurðir um fiskeldi og KPMG vann nýja greiningu á áhrifum fiskeldis fyrir Vestfirði vorið 2021 í samstarfi við Vestfjarðastofu. Til að efla samtalið um greinina voru haldnir fiskeldisfundir á Patreksfirði og Ísafirði í september 2021 og var þáttaka fyrirtækja og íbúanna góð.

Umhverfismál

Vestfjarðastofa starfar náið með sveitarfélögunum á Vestfjörðum að umhverfismálum, enda hafa Vestfirðir einsett sér að standa framarlega í umhverfismálum. Sveitarfélögin hafa meðal annars unnið sér inn silfurvottun umhverfissamtakanna Earth Check. Vestfjarðastofa heldur utan um þá vottun með verkefninu Umhverfisvottun Vestfjarða

Í júlí 2019 tók Náttúrustofa Vestfjarða við framkvæmd verkefnisinns og er það samstarf enn við lýði. Guðfinna Lára Hávarðardóttir starfsmaður hjá Nave með netfangið gudfinna@nave.is heldur utan um verkefnið og sér hún um að uppfæra öll þau gögn sem þarf að hafa tilbúin til að fá árlegar vottanir eins og framkvæmdaráætlun sveitarfélaganna, lagakrá, sameiginlega stefnu, fundi græns teymis og Græn skref. Öll gögn tengda vottun má finna til hliðar á síðunni.  Vestfjarðastofa hefur aðeins yfirumsjón með verkefninu. 

Vestfjarðastofa heldur einnig utan um verkefnið Græn skref en verkefnið snýst um að efla vistvænan rekstur í starfsemi sveitarfélaganna  ásamt því að skapa fordæmi í því að minnka umhverfisáhrif með kerfisbundnum hætti. 

Vestfjarðastofa heldur jafnframt utan um tilraunaverkefnið Náttúrulega Vestfirðir sem er tilraun til að búa til samfélag á Facebook þar sem Vestfirðingar geta deilt góðum ráðum til að minnka plastnotkun og önnur umhverfismál. 

Sveitarstjórnarmál

Vestfjarðastofa samþættir krafta landshlutans, fylgir eftir hagsmunum umhverfisins, samfélagsins og efnahaglífs byggðanna og stuðlar þannig að öflugum og sjálfbærum Vestfjörðum. Vestfjarðastofa vinnur að fjölmörgum verkefnum með sveitarfélögunum fjórðungsins, stuðlar að samstarfi sveitarfélaga og annast rekstur skrifstofu Fjórðungssambands Vestfirðinga. 

Vestfjarðastofa er samstarfsverkefni sveitarfélaganna á Vestfjörðum og atvinnulífsins á svæðinu og er stjórn Vestfjarðastofu skipuð fimm aðilum frá sveitarstjórnum svæðisins (stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga) og fjórum aðilum frá atvinnulífi og menningu. 

Á Vestfjörðum eru níu sveitarfélög sem starfa saman að fjölmörgum hagsmunamálum fjórðungsins. Helsti sameiginlegi vettvangur sveitarstjórnarfólks er haustþing Fjórðungssambands Vestfirðinga og þar eru málefni sem efst eru á baugi tekin fyrir.  

 

Sóknaráætlun

Sóknaráætlun Vestfjarða er þróunaráætlun sem felur í sér stöðumat og framtíðarsýn landshlutans ásamt markmiðum og leiðum til að ná fram þeirri sýn. 

Sóknaráætlanir landshluta eru þróunarverkefni  sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og landshlutasamtaka sveitarfélaga samkvæmt samningum sem gilda til fimm ára. Núgildandi Sóknaráætlun er fyrir tímabilið 2020-2024.

Undir Sóknaráætlun er annars vegar Uppbyggingarsjóður Vestfjarða og hins vegar Áhersluverkefni sem skilgreind eru til allt að þriggja ára í senn.
Áætlunin er gerð til 5 ára en hægt er að uppfæra hana innan tímabilsins.

Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða fer fram einu sinni á ári í desember. Skipuð er níu manna úthlutunarnefnd sem fer yfir umsóknir um styrki, og síðan 2015 hafa um eða yfir 120 umsóknir um styrki borist ár hvert og hafa fjölmörg áhugaverð verkefni orðið að veruleika með tilstuðlan styrkja úr Uppbyggingarsjóði.

 

Innviðir

Traustir innviðir eru grundvöllur vaxtar í höfuðatvinnugreinum. Vestfjarðastofa tengist og vinnur að uppbyggingu innviða á mörgum sviðum, meðal annars orkumálum, samgöngumálum og ferðaþjónustu. Vestfjarðastofa sinnir greiningar- og stefnumótunarvinnu fyrir hönd sveitarfélaganna á Vestfjörðum. 

Innan vébanda Fjórðungssambands Vestfirðinga er starfandi fastanefnd um samgöngumál og fjarskipti, er þar meðal annars sett fram sameiginleg sýn Vestfirðinga í samgöngumálum og uppbyggingu innviða. Samgöngu- og fjarskiptastefna Vestfjarða er grundvöllur sóknar í samgöngumálum og sáttar um forgangsröðun verkefna.

Uppbygging innviða er eitt mikilvægasta hagsmunamál svæðisins. Vestfjarðastofa vinnur að hagsmunagæslu á því sviði. 

Á árinu 2020 hófst vinna að gerð Innviðaáætlun Vestfjarða. Innviðaáætlun samanstendur af samgönguáætlun, jarðgangaáætlun, raforkuáætlun og fjarskiptaáætlun.