Fara í efni

Málaflokkar

Orkumál

Orkuframleiðsla og flutningsmál raforku eru lykilmál á Vestfjörðum, því innan landshlutans eru einungis framleidd um 40% af núverandi notkun.  Vestfirðir eru því mjög háðir flutningi orku frá öðrum hlutum landsins.

Öryggi núverandi flutningskerfis raforku (Vesturlína) inn til Vestfjarða á megintengipunkt (Mjólká í Arnarfirði), er óviðunandi. Til að tryggja samkeppnishæft öryggi yrði að tvöfalda Vesturlínu og auka orkuframleiðslu innan Vestfjarða.  

Áætlanir um úrbætur sem hafa verið í umræðu allt frá árinu 2007 en hafa strandað á ákvæði raforkulaga um að viðbætur við flutningskerfið megi ekki auka kostnað á aðra notendur. Styrkingu flutningskerfisins yrði að kosta með sértækum ríkisstyrk eða stórframleiðandi og eða stórnotandi kæmi inn á svæðið og greiddu fyrir flutningslínur. Ríkið hefur með aðgerðarleysi í raun hafnað kröfu um sértækan ríkisstuðning.  Virkjunaráform sem eru í undirbúningi á Vestfjörðum eru sú leið getur leyst orku og flutningsmál raforku á Vestfjörðum. 

Krafa sveitarfélaga á Vestfjörðum er að aukin orkuframleiðsla innan landshlutans geri svæðið sjálfbært varðandi orkunotkun.  Lykilþáttur fyrir framkvæmd þessara verkefna er staðsetning tengipunkts í Ísafjarðardjúpi og hringtenging flutningskerfis um Vestfirði. 

Staðreyndir um raforkumál á Vestfjörðum

Skipað hefur verið verkefnaráð til að fylgja eftir skýrslu Landsnets "Tengipunktur í Ísafjarðardjúpi og tenging Hvalár" sem út kom vorið 2019. Fylgjast má með vinnu verkefnaráðs hér á síðu Landsnets

Ferðaþjónusta

Vestfjarðastofa sinnir ferðaþjónustu svæðisins undir merkjum Markaðsstofu Vestfjarða og Visit Westfjords. Verkefni í tengslum við ferðaþjónustu eru unnin í  samstarfi við sveitarfélögin á svæðinu sem og ferðaþjónustufyrirtækin. 

Markaðsstofa Vestfjarða starfar sem deild innan Vestfjarðastofu og sinnir markaðssetningu, innviðamálum og stefnumótun ferðaþjónustu svæðisins. Helstu hlutverk Markaðsstofu Vestfjarða eru:

- Kynning svæðisins 
- Umsjón með heimasíðu og samfélagsmiðlum (www.westfjords.is)
- Útgáfa kynningarefnis, bæklinga og korta
- Blaðamannaferðir í samstarfi við Íslandsstofu
- Ferðasýningar á lykilmörkuðum
- Gerð og eftirfylgni áfangastaðaáætlunar 

Markaðsstofa Vestfjarða hélt utan um vinnu við Áfangastaðaáætlun Vestfjarða, en sú áætlun var gefin út seinni hluta árs 2018, en unnið er að uppfærslu og verður hún gefin út fyrir lok árs 2020. Í Áfangastaðaáætluninni er sett fram heilsteypt stefna fyrir svæðið í ferðaþjónustu. 

Sjávarútvegur

Sjávarútvegur er ráðandi atvinnugrein á Vestfjörðum og áberandi í umræðu um byggðamál fjórðungsins. Sú umræða hefur að mestu snúist um að skoða þróun á kvóta, afla, áhrif kvótakerfisins og hugsanlegar breytingar á því.

Nýsköpun og atvinnuþróun tengd sjávarútvegi er lykilþáttur í samkeppnishæfni Vestfjarða og eru öflug nýsköpunarfyrirtæki eins og Skaginn 3X og Kerecis þar góðar fyrirmyndir. 

Í starfi sínu leggur Vestfjarðastofa mikla áherslu á atvinnuþróun, nýsköpun og hagsmunabaráttu tengda sjávarauðlindinni. 

Fiskeldi

Fiskeldi er umhverfisvæn atvinnugrein sem skapað getur umtalsverð útflutningsverðmæti fyrir land og þjóð og haft í för með sér jákvæða íbúaþróun. Kolefnisspor sjókvíeldis er svipað og við veiðar á villtum fiski og lægra en í flestri annarri framleiðslu á dýraafurðum til manneldis. Áhersla á fiskeldi rímar því vel við áherslur umhverfisvottaðra sveitarfélaga á Vestfjörðum.  

Fiskeldi hefur í Sóknaráætlun Vestfjarða verið skilgreint sem áhersluþáttur og verkefni Vestfjarðastofu er að styðja við uppbyggingu atvinnugreinarinnar með hagsmunagæslu, atvinnuþróun og nýsköpun. 

Fiskeldi er einn helsti vaxtarbroddur atvinnvinnulífs á Vestfjörðum og er sjálfbær uppbygging atvinnugreinarinnar eitt stærsta hagsmunamál svæðisins. Á sunnanverðum Vestfjörðum hafa orðið til rúmlega 300 ný störf á síðustu árum við eldi og afleidd störf og býður mikil tækifæri til sóknar.  

 

Umhverfismál

Vestfjarðastofa starfar náið með sveitarfélögunum á svæðinu að umhverfismálum, enda hafa Vestfirðir einsett sér að standa framarlega í umhverfismálum. Sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa meðal annars unnið sér inn silfurvottun umhverfissamtakanna Earth Check. Vestfjarðastofa heldur utan um þá vottun með verkefninu Umhverfisvottun Vestfjarða

Í júlí 2019 tók Náttúrustofa Vestfjarða við verkefninu í reynslu í eitt og hálft ár eða til lok desember 2020.  María Hildur Maack  starfsmaður hjá Nave heldur utan um verkefnið og sér hún um að uppfæra öll þau gögn sem þarf að hafa tilbúin til að fá árlegar vottanir eins og framkvæmdaráætlun sveitarfélaganna, lagakrá, sameiginlega stefnu, fundi græns teymis og Græn skref. Öll gögn tengda vottun má finna til hliðar á síðunni.  Vestfjarðastofa hefur aðeins yfirumsjón með verkefninu. Póstfang hjá Maríu er maria@nave.is

Vestfjarðastofa heldur einnig utan um verkefnið Græn skref en verkefnið snýst um að efla vistvænan rekstur í starfsemi sveitarfélaganna  ásamt því að skapa fordæmi í því að minnka umhverfisáhrif með kerfisbundnum hætti. 

Vestfjarðastofa heldur jafnframt utan um tilraunaverkefnið Náttúrulega Vestfirðir sem er tilraun til að búa til samfélag á Facebook þar sem Vestfirðingar geta deilt góðum ráðum til að minnka plastnotkun og önnur umhverfismál. 

Sveitarstjórnarmál

Vestfjarðastofa samþættir krafta landshlutans, fylgir eftir hagsmunum umhverfisins, samfélagsins og efnahaglífs byggðanna og stuðlar þannig að öflugum og sjálfbærum Vestfjörðum. Vestfjarðastofa vinnur að fjölmörgum verkefnum með sveitarfélögunum fjórðungsins, stuðlar að samstarfi sveitarfélaga og annast rekstur skrifstofu Fjórðungssambands Vestfirðinga. 

Vestfjarðastofa er samstarfsverkefni sveitarfélaganna á Vestfjörðum og atvinnulífsins á svæðinu og er stjórn Vestfjarðastofu skipuð fimm aðilum frá sveitarstjórnum svæðisins (stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga) og fjórum aðilum frá atvinnulífi og menningu. 

Á Vestfjörðum eru níu sveitarfélög sem starfa saman að fjölmörgum hagsmunamálum fjórðungsins. Helsti sameiginlegi vettvangur sveitarstjórnarfólks er haustþing Fjórðungssambands Vestfirðinga og þar eru málefni sem efst eru á baugi tekin fyrir.  

 

Sóknaráætlun

Sóknaráætlun Vestfjarða er þróunaráætlun sem felur í sér stöðumat og framtíðarsýn landshlutans ásamt markmiðum og leiðum til að ná fram þeirri sýn. 

Sóknaráætlanir landshluta eru þróunarverkefni  sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og landshlutasamtaka sveitarfélaga samkvæmt samningum sem gilda til fimm ára. Núgildandi Sóknaráætlun er fyrir tímabilið 2020-2024.

Undir Sóknaráætlun er annars vegar Uppbyggingarsjóður Vestfjarða og hins vegar Áhersluverkefni sem skilgreind eru til allt að þriggja ára í senn.
Áætlunin er gerð til 5 ára en hægt er að uppfæra hana innan tímabilsins.

Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða fer fram einu sinni á ári í desember. Skipuð er níu manna úthlutunarnefnd sem fer yfir umsóknir um styrki, og síðan 2015 hafa um eða yfir 120 umsóknir um styrki borist ár hvert og hafa fjölmörg áhugaverð verkefni orðið að veruleika með tilstuðlan styrkja úr Uppbyggingarsjóði.

 

Innviðir

Traustir innviðir eru grundvöllur vaxtar í höfuðatvinnugreinum. Vestfjarðastofa tengist og vinnur að uppbyggingu innviða á mörgum sviðum, meðal annars orkumálum, samgöngumálum og ferðaþjónustu. Vestfjarðastofa sinnir greiningar- og stefnumótunarvinnu fyrir hönd sveitarfélaganna á Vestfjörðum. 

Innan vébanda Fjórðungssambands Vestfirðinga er starfandi fastanefnd um samgöngumál og fjarskipti, er þar meðal annars sett fram sameiginleg sýn Vestfirðinga í samgöngumálum og uppbyggingu innviða. Samgöngu- og fjarskiptastefna Vestfjarða er grundvöllur sóknar í samgöngumálum og sáttar um forgangsröðun verkefna.

Uppbygging innviða er eitt mikilvægasta hagsmunamál svæðisins. Vestfjarðastofa vinnur að hagsmunagæslu á því sviði.