Fara í efni

Skoðuðu samfélagslega nýsköpun á Vestfjörðum

Fréttir MERSE

Þátttakendur í MERSE, sem Vestfjarðastofa er aðili að, komu í heimsókn á Vestfirði dagana 9.-10. apríl. Mid Sweden University (Mittuniversitetet) leiðir verkefnið, en auk Svía taka þátt aðilar frá Noregi, Finnlandi, Írlandi og auðvitað Íslandi. Þetta er í annað skiptið sem hópurinn hittist á staðfundi og var áherslan núna á að undirbúa fasa tvö hjá verkefninu sem snýr að því að þróa stuðningskerfi fyrir samfélagslega nýsköpun. Í þeim vinnupakka verður meðal annars komið á tengslaneti á milli þeirra aðila sem hafa valist í verkefnið, þar sem þeir munu deila þekkingu sinni og læra hver af öðrum.

Hópurinn heimsótti tvo af þremur aðilum sem hafa verið valdir sem þátttakendur í verkefninu á Vestfjörðum: Galdrasýninguna á Hólmavík og Netagerðina á Ísafirði, en Skriða á Patreksfirði er þriðji þátttakandinn. Einnig heimsóttu þau Skjaldborgarbíó á Patreksfirði og Blábankann á Þingeyri. Það er óhætt að segja að um skottúr á Vestfirði hafi verið að ræða á þessu fremur kalda vori, en allt fór þetta vel með Víkara við stýrið á langferðabílnum og gleðina að vopni hjá þátttakendum.

MERSE hefur undirtitilinn Business Models Empowering Rural Social Entrepreneurship voicing the rural norm. Verkefnið er stutt af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins. Það hófst á síðasta ári og stendur fram til 2026. Markmiðið þess er að þróa viðskiptamódel, stuðningskerfi og aðstæður fyrir samfélags-frumkvöðla sem annað hvort vilja stofna eða þróa samfélagsdrifin verkefni í dreifðum byggðum.