Ůingsk÷p fyrir Fjˇr­ungssamband Vestfir­inga

1. gr.

Ársþingið heitir Fjórðungsþing Vestfirðinga.

 

2. gr.

Þingið er haldið samkvæmt lögum sambandsins.

 

3. gr.

Formaður stjórnar sambandsins, eða annar í umboði hans, setur þingið og gengst fyrir kosningu þingforseta. Lætur forseti því næst kjósa varaforseta og ritara, einn eða fleiri, og rita þeir eða láta rita í gerðabók gerðir þingsins og atkvæðagreiðslur og skal bókun lesin upp í þinglok, sé þess óskað.  Heimilt er að færa þinggerð í tölvu.  Heimilt er þingforsetum að ráða utanþingsskrifara til aðstoðar ritara. Heimilt er að senda út og hljóðrita ræður þeirra sem til máls taka á þingfundum.

 

4. gr.

Kjörbréf fulltrúa skulu lögð fyrir þingið í upphafi þess, undirrituð af hlutaðeigandi sveitarstjórn, eða framkvæmdastjóra hennar. Þingfundur kýs þriggja manna kjörbréfanefnd til að athuga kjörbréf fulltrúa í upphafi þings og leggur hún niðurstöður sínar fyrir fundinn til samþykktar eða synjunar.

 

5. gr.

Fulltrúar skulu tilkynna þingforseta skriflega málefni þau er þeir óska að komi til umræðu og sé jafnframt getið flutningsmanna. Þingforsetar ráða röð málanna á dagskránni.

 

6. gr.

Í upphafi þings skal kjósa eftirtaldar fastar nefndir: Fjórðungsmálanefnd, fjármálanefnd og allsherjarnefnd. Málum skal, eftir eðli þeirra, vísað til þeirra nefnda en kjósa má fleiri nefndir ef þurfa þykir. Rísi ágreiningur um til hverrar nefndar skuli vísað sker þingfundur úr. Á þingum, þegar stjórnarkjör fer fram, skal þingið kjósa fimm manna kjörnefnd sem gera skal tillögur að skipan stjórnar, varastjórnar, aðal- og vara- endurskoðenda.  Á dagskrá má taka mál, sem síðar koma, ef þingfundur leyfir.

 

7. gr.

Meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum á fundum. Mál er fallið ef atkvæði eru jöfn.

 

8. gr.

Tvær umræður skulu fara fram um hvert mál, þó er heimilt að víkja frá þessari reglu ef fundurinn samþykkir.  Við lok fyrri umræðu skal málum vísað til nefnda. Eftir umfjöllun nefnda skal mál tekið til annarrar umræðu og afgreiðslu þings.

 

9. gr.

Hver þingfulltrúi hefur leyfi til að koma með breytingar- eða viðaukatillögur, bæði við aðaltillögur og breytingartillögur. Breytingartillögur hafa forgangsrétt við atkvæðagreiðslur. Allar tillögur skal afhenda forseta skriflega, undirritaðar af tillögumanni, áður en til atkvæða er gengið.

 

10. gr.

Máli má víkja frá umræðu með rökstuddri dagskrá og skal hún borin undir atkvæði þingfundar.

 

11. gr.

Atkvæðagreiðsla fari fram með nafnakalli, ef þess er krafist, eða ef hún er óljós að dómi forseta. Sé óskað skriflegrar atkvæðagreiðslu, skal hún fara fram og skal stjórnin hafa tiltæka atkvæðaseðla miðað við atkvæði hvers þingfulltrúa.

 

12. gr.

Þegar forseti vill taka þátt í umræðum víkur hann sæti en varaforseti gegnir þá forsetastörfum.

 

13. gr.

Fulltrúar skulu taka til máls standandi frá sætum sínum eða í ræðustól og snúa máli sínu til forseta, sem sjá skal um, að fulltrúar taki til máls í réttri röð, eftir því sem þeir hafa kvatt sér hljóðs. Enginn fulltrúi má í ræðu sinni lesa upp prentað mál, nema með leyfi forseta.

 

14. gr.

Enginn fulltrúi má taka oftar til máls en þrisvar sinnum við sömu umræðu í hverju máli, en þó skulu flutningsmenn máls og framsögumenn meiri- og minnihluta nefnda hafa rétt til að taka oftar til máls.

 

15. gr.

Forseta skal skylt að bera undir atkvæði hvort umræðum skuli hætt, ef fimm fulltrúar æskja þess skriflega.

 

16. gr.

Forseti sér um að góð regla sé á fundum og hefur rétt til að víta framkomu fulltrúanna í orðum og hátterni.  Sé fulltrúi mjög ókurteis í orðum hefur forseti leyfi til að taka af honum orðið við þá umræðu.  Skyldir skulu fulltrúarnir til að aðstoða forseta í að halda góðri reglu.

 

17. gr.

Þingfundir skulu öllum opnir á meðan húsrúm leyfir án málfrelsis og tillöguréttar. Heimilt er að halda lokaðan þingfund ef meirihluti þingfulltrúa samþykkir.

 

18. gr.

Þingsköpum þessum má breyta og þarf 2/3 hluta gildra atkvæða til að breytingin nái fram að ganga.

 

Þannig samþykkt á 55. Fjórðungsþingi Vestfirðinga 2010.

Svipmynd