Sam■ykktir Fjˇr­ungssambands Vestfir­inga

1. gr. Heiti og heimili 

Samtökin nefnast Fjórðungssamband Vestfirðinga. Starfsvæði Fjórðungssambandsins er Vestfirðir allir að Brekkuá í Gilsfirði að vestan og austur um að Stikuhálsi milli Bitru og Hrútafjarðar. Heimili og varnarþing sambandsins er á Ísafirði.

 

 2. gr. Hlutverk 

Fjórðungssamband Vestfirðinga eru landshlutasamtök sveitarfélaga á Vestfjörðum og starfar með tilvísun til 97. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

 

Markmið sambandsins eru:

 • að efla og styðja við búsetu, mannlíf og atvinnulíf á Vestfjörðum.
 • að vera sameiginlegur málsvari sveitarfélaga á Vestfjörðum og vinna að hagsmunum og samstarfi þeirra.
 • að efla samvinnu sveitarfélaga og sveitarstjórnarmanna.
 • að vinna að sameiginlegum málum er löggjafinn kann að fela þeim.

Málaflokkar sem Fjórðungssamband Vestfirðinga fæst við, snúa að byggðaþróun og atvinnumálum, menningarmálum, markaðsmálum og kynningu Vestfjarða. Heimilt er að stofna og starfrækja ráð og nefndir til að sinna afmörkuðum verkefnum og hafa samvinnu um vinnu við tiltekna málaflokka á grundvelli samninga.

 

Sambandið skal starfa í samvinnu við önnur landshlutasamtök sveitarfélaga, Samband íslenskra sveitarfélaga og samstarfsnefndir sveitarfélaga á Vestfjörðum auk annarra félaga og stofnana sem starfa á vestfirska vísu, eða vinna að hagsmunamálum Vestfjarða eftir því sem við á.

 

3. gr. Fjórðungsþing Vestfirðinga 

Ársfundur Fjórðungssambands Vestfirðinga nefnist Fjórðungsþing Vestfirðinga. Fjórðungsþing skal kallað saman árlega, eigi síðar en í maí. Stjórn boðar til þingsins með minnst fjögurra vikna fyrirvara og skal dagskrá send sveitarstjórnum eigi síðar en tíu dögum fyrir þingið. Þingið er lögmætt ef löglega er til þess boðað. Fjórðungsþing Vestfirðinga setur sér þingsköp í samræmi við samþykktir sambandsins.

 

Stjórn er heimilt að bjóða til Fjórðungsþings aðilum, sem tengjast umfjöllun og starfi sambandsins og hafi þeir málfrelsi og tillögurétt.

 

Haustþing um hagsmunamál sveitarfélaganna á Vestfjörðum skal haldið í september mánuði ár hvert sbr. 10. gr.

 

Aukaþing skulu haldin þegar stjórn sambandsins telur ástæðu til svo og þegar fjórðungur sveitarfélaga innan sambandsins óskar þess, enda sé fundarefni tilgreint. Boðað skal til aukaþings með a.m.k. viku fyrirvara og skal aukaþing haldið innan tveggja mánaða frá því að beiðni berst. 

 

Á fjórðungsþingi, sem haldið er á kosningaári til sveitarstjórna skal fresta kosningum til haustþings  sbr. 5. gr. og 8. gr.

 

4. gr. Fulltrúar á Fjórðungsþing og atkvæðavægi

Að afloknum sveitarstjórnarkosningum skulu sveitarstjórnir kjósa fulltrúa til tveggja ára á Fjórðungsþing og aftur á miðju kjörtímabili. Kjörgengir sem fulltrúar á Fjórðungsþing eru aðalmenn í sveitarstjórn og varamenn þeirra jafnmargir að tölu.

Sveitarstjórn er heimilt að kjósa jafnmarga fulltrúa og skipa sveitarstjórn hverju sinni og jafnmarga til vara til setu á Fjórðungsþingi.

 

Atkvæðisréttur sveitarfélaga á þingum Fjórðungssambands Vestfirðinga skipast þannig: Hvert sveitarfélag hefur 300 atkvæði sem grunnatkvæði. Fyrir hvern einn íbúa sveitarfélagsins bætist við eitt atkvæði. Atkvæðavægi hvers sveitarfélags ræðst af íbúatölu sveitarfélagsins þann 1. janúar ár hvert.

 

Sveitarstjórn skal senda Fjórðungssambandinu tilkynningu um fulltrúa sína á þing Fjórðungssambands Vestfirðinga eigi síðar en 7 dögum fyrir upphaf þinghalds. Heimilt er sveitarstjórn að framselja atkvæðisrétt sinn til eins eða fleiri þingfulltrúa. Sveitarstjórn skal senda Fjórðungssambandinu tilkynningu um kjör fulltrúa á Fjórðungsþing

 

5. gr. Stjórn Fjórðungssambandsins

Á fyrsta Fjórðungsþingi (haustþingi) eftir sveitarstjórnarkosningar skal kjósa fimm menn í stjórn sambandsins og jafn marga til vara og skal kjörtímabil stjórnar vera tvö ár. Kjörgengir til stjórnar eru aðal- og varafulltrúar í sveitarstjórnum á Vestfjörðum.

 

Úr hópi kjörinna stjórnarmanna kýs Fjórðungsþing formann stjórnar, en stjórn kýs varaformann. Stjórnarformaður, sem gegnt hefur formennsku í fjögur ár samfleytt, er ekki kjörgengur til formannskjörs fyrr en að jafnlöngum tíma liðnum.

 

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga fer með yfirstjórn á rekstri sambandsins í samræmi við fjárhagsáætlun og aðrar samþykktir. Stjórn vinnur að framkvæmd mála sem Fjórðungsþing ákveður hverju sinni eða lög frá Alþingi segja til um. Stjórn er heimilt að hafa frumkvæði að málum og taka upp mál sem sveitarfélög innan sambandsins beina til hennar og varða hagsmuni vestfirskra sveitarfélaga.

 

6. gr. Framkvæmdastjóri 

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga ræður framkvæmdastjóra sambandsins og gerir við hann skriflegan ráðningarsamning. Framkvæmdastjóri veitir skrifstofu sambandsins forstöðu og hefur á hendi fjármálastjórn. Framkvæmdastjóri á sæti á Fjórðungsþingi, haustþingi og stjórnarfundum með fullu málfrelsi og tillögurétti. Hann skal leggja fram starfsskýrslu á Fjórðungsþingi. Framkvæmdastjóri ræður aðra fastráðna starfsmenn sambandsins í samráði við stjórn, markar starfssvið þeirra og gerir við þá ráðningarsamninga, eftir því sem við á.

 

7. gr. Ársreikningur 

Reikningsár sambandsins er almanaksárið.

 

8. gr. Dagskrá Fjórðungsþings 

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga skal undirbúa og hafa umsjón með Fjórðungsþingi.

 

Stjórnin leggur fyrir Fjórðungsþing endurskoðaða ársreikninga, endurskoðaða fjárhagsáætlun og undirbýr önnur mál fyrir þingið. Bæði reikningarnir og endurskoðaða fjárhagsáætlunin skulu hafa verið send sveitarstjórnum eigi síðar en 10 dögum fyrir Fjórðungsþing. Á dagskrá Fjórðungsþings skulu vera þessi mál;

 1. Skýrsla stjórnar og rekstareininga, sem FV ber ábyrgð á.
 2. Afgreiðsla ársreikninga og skýrslu endurskoðenda FV og rekstareininga sem FV ber fjárhagslega ábyrgð á.
 3. Endurskoðuð fjárhagsáætlun starfsársins og ákvörðun um árstillag.
 4. Kosning stjórnar og varastjórnar og kosning formanns, nema á kosningaári til sveitarstjórna, en þá er kosningu frestað til haustþings.
 5. Kosning í fastanefndir, nema á kosningaári til sveitarstjórna, en þá er kosningu frestað til haustþings.
 6. Laun og þóknun til stjórna og nefnda.
 7. Kosning endurskoðanda eða endurskoðendafyrirtækis.
 8. Ákvörðun dagsetningar haustþings og umfjöllunarefnis.
 9. Önnur mál löglega fram borin.

Árstillag sveitarfélaganna til sambandsins skal vera tiltekin upphæð á hvern íbúa viðkomandi sveitarfélags miðað við 1. janúar ár hvert. Gjalddagar skulu vera 15. dags hvers mánaðar með jöfnum greiðslum yfir árið. Sé gjaldið ekki greitt fyrir 1. dag næsta mánaðar skal reikna dráttarvexti frá gjalddaga.

 

9. gr. Fastanefndir

Á vegum Fjórðungssambands Vestfirðinga starfa tvær fastanefndir, Fastanefnd um samgöngumál og fjarskipti og Úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða. Á Fjórðungsþingi skulu kosnir fulltrúar í þessar nefndir; í samgöngu- og fjarskiptanefnd skulu kjörnir fimm fulltrúar og fimm til vara. Formann nefndar um samgöngumál og fjarskipti skal kjósa sérstaklega úr hópi stjórnar sambandsins. Í Úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða skulu kjörnir níu fulltrúar og níu til vara, allt að fjórir aðalfulltrúar komi úr hópi aðal- og eða varafulltrúa í sveitarstjórnum á Vestfjörðum og aðrir aðalfulltrúar úr atvinnulífi, menningarlífi og rannsókna og háskólastofnunum. Kjörtímabil nefnda skal vera tvö ár og fylgir kosningu stjórnar samanber 5. gr. Þá skal Fjórðungsþing kjósa fulltrúa sambandsins í aðrar nefndir og ráð.

 

Stjórn Fjórðungsambands Vestfirðinga skal stofna til samráðsvettvangs framkvæmdastjóra og oddvita sveitarfélaga á Vestfjörðum sem fundi með stjórn allt að fjórum sinnum á ári.

 

10. gr. Haustþing

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga skal halda haustþing um hagsmunamál sveitarfélaganna á Vestfjörðum í september mánuði ár hvert. Á haustþingið hafa kjörgengi fulltrúar sveitarfélaganna samkvæmt 3. grein samþykkta þessara. Stjórn Fjórðungssambandsins er heimilt að bjóða til haustþingsins aðilum sem tengjast umfjöllun og starfi sambandsins, með málfrelsi og tillögurétt. Haustþingið getur ályktað um þau mál sem borin eru þar upp og ræður afl atkvæða niðurstöðu máls. Á haustþingi skal leggja fram fjárhagsáætlun og starfsáætlun sambandsins fyrir komandi ár.

 

11. gr. Kostnaður

Kostnaður við stjórn sambandsins, fundahöld, ferðalög stjórnar og annar sameiginlegur kostnaður greiðist af sambandinu. Þóknanir vegna setu í stjórn, nefndum og ráðum skulu ákveðnar á Fjórðungsþingi.

 

Hvert sveitarfélag greiðir ferðakostnað eigin fulltrúa.

 

12. gr. Breytingar á samþykktum

Tillögur til breytinga á samþykktum þessum skulu sendar aðildarsveitarfélögum með dagskrá þingsins. Breyta má samþykktum þessum á Fjórðungsþingi og þarf 2/3 hluta gildra atkvæða til að breyting nái fram að ganga.

 

13. gr. Um aðild og úrsögn

Sækist sveitarfélag eftir aðild að sambandinu skal það senda umsókn til stjórnar sambandsins eigi síðar en mánuði fyrir Fjórðungsþing og skal leggja umsóknina fyrir þingið. Meirihluta atkvæða þarf fyrir samþykki um aðild. Ef umsókn um aðild er samþykkt skal hún taka gildi næstu áramót eftir Fjórðungsþing.

 

Sveitarfélag sem hefur fengið samþykkta aðild skal greiða fyrir eignarhlut sinn í sambandinu í hlutfalli við íbúafjölda, miðað við 1. janúar. Miða skal við hreina eign sambandsins, miðað við síðustu áramót.

 

Kjósi sveitarfélag að hætta þátttöku í sambandinu, skal tilkynna það stjórn eigi síðar en sex mánuðum fyrir Fjórðungsþing og tekur úrsögnin gildi um næstu áramót á eftir. Á kosningaári til sveitarstjórna skal úrsögn tilkynnast fyrir 1. júlí. Við úrsögn skal reikna út eignarhlut eða skuld sveitarfélags í sambandinu. Greiðsla til sveitarfélags, eða frá sveitarfélagi, skal vera í hlutfalli við íbúafjölda. Hætti sveitarfélag þátttöku í sambandinu þá skal jafnframt fara fram endurskoðun á samþykktum þessum.

 

14. gr. Slit

Fjórðungssambandið verður ekki lagt niður nema tvö löglega boðuð Fjórðungsþing samþykki það með 2/3 hluta atkvæða. Þingin skulu haldin með a.m.k. þriggja mánaða millibili. Tillaga að slitum sambandsins skal fylgja fundarboði. Áður en seinni fundurinn er haldinn skal afstaða aðildarsveitarfélaga til slitanna liggja fyrir. Til þess að slit á sambandinu nái fram að ganga þurfa 2/3 hlutar sveitarstjórna aðildarsveitarfélaga að staðfesta þau.

 

Þannig samþykkt á 63. Fjórðungsþingi Vestfirðinga 2. maí 2018. 

 

Ůingsk÷p fyrir Fjˇr­ungssamband Vestfir­inga

1. gr.

Ársþingið heitir Fjórðungsþing Vestfirðinga.

 

2. gr.

Þingið er haldið samkvæmt lögum sambandsins.

 

3. gr.

Formaður stjórnar sambandsins, eða annar í umboði hans, setur þingið og gengst fyrir kosningu þingforseta. Lætur forseti því næst kjósa varaforseta og ritara, einn eða fleiri, og rita þeir eða láta rita í gerðabók gerðir þingsins og atkvæðagreiðslur og skal bókun lesin upp í þinglok, sé þess óskað.  Heimilt er að færa þinggerð í tölvu.  Heimilt er þingforsetum að ráða utanþingsskrifara til aðstoðar ritara. Heimilt er að senda út og hljóðrita ræður þeirra sem til máls taka á þingfundum.

 

4. gr.

Kjörbréf fulltrúa skulu lögð fyrir þingið í upphafi þess, undirrituð af hlutaðeigandi sveitarstjórn, eða framkvæmdastjóra hennar. Þingfundur kýs þriggja manna kjörbréfanefnd til að athuga kjörbréf fulltrúa í upphafi þings og leggur hún niðurstöður sínar fyrir fundinn til samþykktar eða synjunar.

 

5. gr.

Fulltrúar skulu tilkynna þingforseta skriflega málefni þau er þeir óska að komi til umræðu og sé jafnframt getið flutningsmanna. Þingforsetar ráða röð málanna á dagskránni.

 

6. gr.

Í upphafi þings skal kjósa eftirtaldar fastar nefndir: Fjórðungsmálanefnd, fjármálanefnd og allsherjarnefnd. Málum skal, eftir eðli þeirra, vísað til þeirra nefnda en kjósa má fleiri nefndir ef þurfa þykir. Rísi ágreiningur um til hverrar nefndar skuli vísað sker þingfundur úr. Á þingum, þegar stjórnarkjör fer fram, skal þingið kjósa fimm manna kjörnefnd sem gera skal tillögur að skipan stjórnar, varastjórnar, aðal- og vara- endurskoðenda.  Á dagskrá má taka mál, sem síðar koma, ef þingfundur leyfir.

 

7. gr.

Meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum á fundum. Mál er fallið ef atkvæði eru jöfn.

 

8. gr.

Tvær umræður skulu fara fram um hvert mál, þó er heimilt að víkja frá þessari reglu ef fundurinn samþykkir.  Við lok fyrri umræðu skal málum vísað til nefnda. Eftir umfjöllun nefnda skal mál tekið til annarrar umræðu og afgreiðslu þings.

 

9. gr.

Hver þingfulltrúi hefur leyfi til að koma með breytingar- eða viðaukatillögur, bæði við aðaltillögur og breytingartillögur. Breytingartillögur hafa forgangsrétt við atkvæðagreiðslur. Allar tillögur skal afhenda forseta skriflega, undirritaðar af tillögumanni, áður en til atkvæða er gengið.

 

10. gr.

Máli má víkja frá umræðu með rökstuddri dagskrá og skal hún borin undir atkvæði þingfundar.

 

11. gr.

Atkvæðagreiðsla fari fram með nafnakalli, ef þess er krafist, eða ef hún er óljós að dómi forseta. Sé óskað skriflegrar atkvæðagreiðslu, skal hún fara fram og skal stjórnin hafa tiltæka atkvæðaseðla miðað við atkvæði hvers þingfulltrúa.

 

12. gr.

Þegar forseti vill taka þátt í umræðum víkur hann sæti en varaforseti gegnir þá forsetastörfum.

 

13. gr.

Fulltrúar skulu taka til máls standandi frá sætum sínum eða í ræðustól og snúa máli sínu til forseta, sem sjá skal um, að fulltrúar taki til máls í réttri röð, eftir því sem þeir hafa kvatt sér hljóðs. Enginn fulltrúi má í ræðu sinni lesa upp prentað mál, nema með leyfi forseta.

 

14. gr.

Enginn fulltrúi má taka oftar til máls en þrisvar sinnum við sömu umræðu í hverju máli, en þó skulu flutningsmenn máls og framsögumenn meiri- og minnihluta nefnda hafa rétt til að taka oftar til máls.

 

15. gr.

Forseta skal skylt að bera undir atkvæði hvort umræðum skuli hætt, ef fimm fulltrúar æskja þess skriflega.

 

16. gr.

Forseti sér um að góð regla sé á fundum og hefur rétt til að víta framkomu fulltrúanna í orðum og hátterni.  Sé fulltrúi mjög ókurteis í orðum hefur forseti leyfi til að taka af honum orðið við þá umræðu.  Skyldir skulu fulltrúarnir til að aðstoða forseta í að halda góðri reglu.

 

17. gr.

Þingfundir skulu öllum opnir á meðan húsrúm leyfir án málfrelsis og tillöguréttar. Heimilt er að halda lokaðan þingfund ef meirihluti þingfulltrúa samþykkir.

 

18. gr.

Þingsköpum þessum má breyta og þarf 2/3 hluta gildra atkvæða til að breytingin nái fram að ganga.

 

Þannig samþykkt á 55. Fjórðungsþingi Vestfirðinga 2010.

Svipmynd