A­fer­ir

Gert er ráð fyrir að samvinnunefnd svæðisskipulags fyrir Vestfirði, sem sett var á fót árið 2008 í samræmi við skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1993, muni hafa umsjón með gerð nýtingaráætlunarinnar. Samvinnunefndin  starfar á grundvelli samþykktar frá árinu 2006 á 51. Fjórðungsþings Vestfirðinga. Þannig er stjórnsýsluleg aðkoma sveitarfélaganna sett í ákveðinn farveg sem hentar vel, því hér þarf að vinna þvert á sveitarfélagsmörk. Lagt er til að fulltrúi skipulagsstofnunar sitji jafnframt í nefndinni, líkt og lögin gera ráð fyrir við gerð svæðisskipulags. Þannig hafa stjórnvöld beina aðkomu að þessari vinnu. Rétt er þó að ítreka að verkefnið er að frumkvæði heimamanna og það er þeirra að vinna að framgangi verkefnisins. Hlutverk samvinnunefndarinnar er einkum að leggja línur fyrir vinnuna og móta það verklag sem nota á. Nefndin mun jafnframt fjalla um og staðfesta fyrir sitt leyti nýtingaráætlunina.

 

Hluti af vinnu við verkefnið felst í að þróa það verklag sem hentar fyrir skipulag strandsvæða hér á landi. Í þessu samhengi er samvinna íbúa og annarra hagsmunaaðila, sveitarfélaga, fagaðila, ráðuneyta og stofnana grundvallaratriði, enda er hún einn af hornsteinum sjálfbærrar umhverfis- og auðlindastjórnunar. Með virki þátttöku íbúa og fleiri hagsmunaaðila hafa þeir möguleika á að móta með beinum framtíð strandsvæðis Arnarfjarðar. Settur verður á fót hópur hagsmunaaðila sem mun fjalla um nýtingu strandsvæðis í Arnarfirði og gera tillögu að nýtingaráætlun. Hópurinn mun starfa eftir ákveðnu verklagi sem skilgreint verður og kynnt við upphaf vinnunnar. Fulltrúar í þessum hópum verða talsmenn ákveðinna félaga eða annarra hópa sem hafa sameiginlega hagsmuni. Hér er einkum átt við atvinnulíf, íbúa og frjáls félagasamtök. Þetta verklag mun leiða til þess að auðveldara verður að afla upplýsinga og greina helstu hagsmunaárekstra og vandamál. Þátttaka þessara aðila er jafnframt mjög mikilvæg því hún eykur almennan skilning og stuðning við þá áætlun sem lögð verður fram að lokum. Mikilvægt að hópurinn komist að sameiginlegri niðurstöðu sem mun nýtast til uppbyggingar á svæðinu. Litið er á þessa vinnu sem langtímafjárfestingu. Til stuðnings verkefnastjórnar er bakhópur fagstofnana en hlutverk hans er að veita aðgang að gögnum og sérfræðiþekkingu sem nýst getur í verkefninu. Þessar stofnanir eru Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Orkustofnun og Hafrannsóknarstofnun.

 

Þegar nýtingaráætlun fyrir Arnarfjörð liggur fyrir verður fjallað um önnur svæði á Vestfjörðum með svipuðum  hætti. Skipulagshóparnir verða skipaðir hagsmunaaðilum, íbúum og fulltrúum sveitarfélaga sem er til umfjöllunar hverju sinni. Hlutverk hópanna er að gera nýtingaráætlun fyrir sitt svæði. Lagt er til að skipaðir verði fjórir hópar sem hver um sig mun fjalla um eitt svæði:

  • Suðursvæði:, Reykhólahreppur,Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð.
  • Norðursvæði: Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður, og Súðavíkurhreppur.
  • Austursvæði: Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð og Bæjarhreppur.

 

Áætlað er að nýta þau tæki sem til eru í skipulagslöggjöf okkar. M.a. mun nýtingaráætlunin verða umhverfismetin í samræmi við lög um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006. Jafnframt verður áætlunin send stofnunum til umsagnar, líkt og aðrar skipulagsáætlanir. Áhersla verður lögð á gott upplýsingaflæði þar sem gögnum verður m.a. miðlað í gegnum heimasíðu Fjórðungssambands Vestfirðinga. Auk þess verða fundir og þing fyrir almenning þar sem vinnan verður kynnt frekar. Talsverð vinna hefur nú þegar verið lögð í kynningu á verkefninu með opnum fundum, fundum með sveitarstjórnum og hagsmunaaðilum.

 

Gert er ráð fyrir að nýtingaráætlunin verði  afgreidd í sveitarstjórnum, líkt og gert er með skipulagsáætlanir. Jafnframt verður leitað eftir áliti fagaðila eftir því sem við á á hverjum tíma, bæði við gagnaöflun en einnig við mótun og framkvæmd sjálfrar skipulagsvinnunnar.

 

Fjórðungssambandið hefur, í samvinnu við Teiknistofuna Eik og Háskólasetur Vestfjarða, undirbúið þetta verkefni frá árinu 2009. Teiknistofan og Háskólasetur Vestfjarða hafa sérhæft sig í þessum málaflokki og þeirri aðferðafræði sem hér á að beita. Því til stuðnings er bent á Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar 2008-2020 sem staðfest var í mars 2010 og Aðalskipulag Bolungarvíkur sem nú bíður staðfestingar umhverfisráðherra. Einnig má benda á að nú þegar hafa erlendir kennarar og nemendur við meistaranám Háskólaseturs Vestfjarða í haf- og strandsvæðastjórnun komið að undirbúningi þessa verkefnis. Gert er ráð fyrir frekari samvinnu á þessu sviði í tengslum við verkefnið.

Svipmynd