Nokkur verkefni á Vestfjarðakjálkanum fá styrki úr Þjóðhátíðarsjóði fyrir árið 2010, en úthlutað var 1. desember að venju. Er þetta næstsíðasta starfsár sjóðsins, en umsóknarfrestur fyrir síðustu úthlutun rennur út í lok ágústmánaðar 2010. Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til stofnana og annarra aðila, er hafa það verkefni að vinna að varðveislu og vernd þeirra verðmæta lands og menningar, sem núverandi kynslóð hefur tekið í arf.  

Alls bárust 259 umsónir, en 65 fengu styrk, samtals að upphæð 33,9 milljónir. Verkefni sem tengjast Vestfjörðum eru eftirfarandi:  

Félag áhugamanna um bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum fær 1 milljón í styrk til að lagfæra hús í eigu Reykhólahrepp og setja upp safn báta, verkfæra og annarra muna sem tilheyra bátasmíði, ásamt því að endursmíða gamlan bát og hafa til sýnis á safninu.  

Melrakkasetur Íslands í Súðavík fær 600 þúsund til að hanna og setja upp sýningu um refaveiðimenn, eina elstu launuðu starfstétt Íslendinga.  

Þrísker ehf. fær 500 þúsund til að endurbyggja Hraðfrystihúsið í Flatey.  

Félag um Snjáfjallasetur fær 500 þúsund til að setja upp sýningar um Drangajökul þar sem gerð er m.a. grein fyrir leiðum yfir jökulinn, fyrr á tímum.

Háskóli Íslands og Vestfirðir á miðöldum fær 500 þúsund til að vernda og kynna menningarverðmæti sem komið hafa í ljós í Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi.

Sjóminjasafnið Ósvör í Bolungarvík fær 500 þúsund til að gera skinnklæði eins og notuð voru á áraskipum á árabátaöldinni.

Þá má nefna að Ólafsdalsfélagið fékk 1 milljón til að vinna að endurreisn Ólafsdals í Gilsfirði og tryggja staðnum sess sem framfarasetur á 21. öld.  

Allmargir styrkir fara til ríkisstofnanna, Þjóðminjasafns, Stofnunar Árna Magnússonar, Listasafns Íslands, Málvísindastofnunar Háskóla Íslands og fleiri aðila.

Svipmynd