Á vefnum www.patreksfjordur.is er nú birt ávarp til bæjarbúa á Patreksfirði þar sem þeir eru beðnir að leggja hönd á plóg við sjálfboðavinnu við endurbætur á félagsheimili staðarins. Framundan er að mála salina í húsinu fyrir sjómannadaginn. Ávarpið hljóðar svo:

"Kæru bæjarbúar!

Árið 1958 var byrjað á byggingu FHP. Þá var grunnurinn steyptur og svo kom hitt koll af kolli. Allt þetta hús var byggt í sjálfboðavinnu af bæjarbúum og margir lögðu þar hönd á plóg. Á endanum byggðist húsið upp af mikilli bjartsýni og dugnaði bæjarbúa. Húsið hefur síðan þjónað miklum tilgangi fyrir þorpið okkar og við fólkið í bænum deilt þar bæði gleði og sorgum. Nú er svo komið að húsið okkar er nánast komið á gjörgæslu vegna lélegs ástands. En með bjartsýni og dugnaði er allt hægt. Gaman væri ef við gætum sýnt félagsheimilinu okkar þann sóma og þar með öllum þeim sem lögðu vinnu sína og krafta í þetta mikla verkefni á sínum tíma, og endurtekið leikinn. Tökum höndum saman og málum bæði stóra og litla salinn fyrir sjómannadag svo við getum tekið stolt á móti gestum sem heimsækja okkur þessa helgi ár hvert. Með góðri skipulagningu ætti verkið ekki að taka langan tíma. Hver hálftími, sem þú kæri bæjarbúi, getur séð af í þetta verkefni getur skipt sköpum því margar hendur vinna létt verk.

Til þess að auðvelda framkvæmdina væri gott ef þú skrifaðir þig á lista sem liggur í versluninni því nauðsynlegt er að vita hve við getum á von á mörgum svo hægt sé að gera sér grein fyrir hve verkið tekur langan tíma eða hvort nægur mannskapur fáist yfirhöfuð.

Ef þú getur ....

málað, sparslað,pússað, skrúfað, hellt uppá kaffi, þrifið pennsla og rúllur, sagt brandara, komið með góðgæti með kaffinu, bakað vöfflur, tekið tusku í hönd, ryksugað, komið með góða skapið og dreift yfir hópinn þá þiggjum við það með þökkum því allar hendur og kraftar eru vel þegnir !

Með kveðju,
Eigendafélag FHP."

Svipmynd