| fimmtudagurinn 31. j˙lÝá2008

Sei­andi sumarhljˇmar ß fimmtudagskv÷ldi

Geir■r˙­ur og Matthildur
Geir■r˙­ur og Matthildur

Seiðandi sumarhljómar munu hljóma í Hömrum fimmtudagskvöldið 31 júlí kl. 20:00. Það eru ungar íslenskar tónlistarkonur, Geirþrúður Ása Guðjónsdóttir fiðluleikari og Matthildur Anna Gísladóttir píanóleikari, sem ætla að spila efnisskrá með verkum eftir snillingana Mozart, Ravel og Sarasate. Sumarlegt og fallegt og ekki spillir að aðgangur að tónleikunum er ókeypis.

Geirþrúður Ása, sem er af ísfirsku bergi brotin (sonardóttir Geirþrúðar Charlesdóttur og Jóns Guðjónssonar), hóf fiðlunám þriggja ára gömul hjá Lilju Hjaltadóttur. Eftir tíu ára nám hjá Lilju lá leiðin til Auðar Hafsteinsdóttur. Hún hefur verið í Listaháskóla Íslands síðan haustið 2005 á hljóðfærabraut í fiðluleik, undir handleiðslu Auðar. Geirþrúður Ása hefur tekið virkan þátt í kammertónlist þar sem aðalkennarar hennar hafa verið Gunnar Kvaran og Svava Bernharðsdóttir. Í leyfi Auðar stundaði Geirþrúður Ása nám hjá Sigrúnu Eðvaldsdóttur í hálft ár. Hún hefur tekið þátt í námskeiðum meðal annars á Ítalíu, Englandi, Þýskalandi og Svíþjóð m.a. hjá Margaret Pressley, Routa Kroumovich, Donald Weilerstein, Almita Vamos og Roland Vamos. Að auki hefur hún sótt masterklassa hjá Guðný Guðmundsdóttur, Sigrúnu Eðvaldsdóttur og Svövu Bernharðsdóttur.

Geirþrúður Ása varð í fyrsta sæti í fyrstu einleikarakeppni Tónlistarskólans í Reykjavík 2004. Hún spilaði einleik með hljómsveit T.R. í febrúar 2005. Þá lenti hún í þriðja sæti í Simon-Fiset fiðlukeppninni í Seattle, í Bandaríkjunum ári seinna. Hún hefur tekið þátt í kosertkeppni í Schlern Music Festival á Ítalíu og einleikarakeppni Listaháskóla Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Geirþrúður Ása hefur spilað með Sinfóníuhljómsveit Tónlistarháskólans í Gautaborg, Unfóníu og verið konsertmeistari hljómsveitar T.R. Hún hefur verið konertmeistari í tveimur síðustu verkefnum óperustúdíós Íslensku Óperunnar. Geirþrúður Ása lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík í vor ásamt Bachelor of Music gráðu frá Listaháskóla Íslands. Í haust mun Geirþrúður Ása hefja nám við Stetson University í Flórída, Bandaríkjunum.

Matthildur Anna hóf píanónám í Tónmenntaskóla Reykjavíkur hjá Erlu Stefánsdóttur. Þaðan lá leiðin í Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hún lærði hjá Svönu Víkingsdóttur. Eftir að hafa lokið þar 8. stigi samhliða stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð, hélt hún til Árósa í Det Jyske Musikkonservatorium og stundaði þar nám í einn vetur. Árið 2007 lauk Matthildur Bachelornámi í píanóleik frá Listaháskóla Íslands hjá Peter Máté, en þar naut hún einnig leiðsagnar Halldórs Haraldssonar. Matthildur hefur tekið þátt í masterklössum, m.a. hjá Jaromír Klepac, Barry Snyder, Ann Schein og Nelitu True. Hún hefur einnig tekið ríkan þátt í kammermúsík. Matthildur tók þátt í Lied Festival í Bergen í Noregi með Þorvaldi Þorvaldssyni bassasöngvara. Í nóvember síðastliðnum fékk hún tækifæri til að spila með söngvurum í Oxford Lieder Festival undir leiðsögn Söruh Walker. Matthildur stundar núna Mastersnám í meðleik við Royal Academy of Music í London og útskrifast þaðan vorið 2009.

Næstu sumartónleikar í Hömrum verða fimmtudagskvöldið 7. ágúst og þá mun Hafdís Vigfúsdóttir leika fjöruga og skemmtilega flautumúsík. Dagskráin Sumar í Hömrum er styrkt af Menningarráði Vestfjarða.

Svipmynd