Efnt verður til málþings undir heitinu Matur og menning á suðursvæði Vestfjarðakjálkans í Félagsheimilinu á Patreksfirði laugardaginn 24. maí 2008. Þingið hefst kl. 10 að morgni og stendur allan daginn. Flutt verða 18 stutt erindi (10-15 mínútur) og öðru hverju verða fyrirspurnir og umræður.
 
Fjallað verður um verkun og meðferð matvæla sem landið og sjórinn gefa (egg, fugl, fisk, sel, hval, jarðargróða), hlunnindi við Breiðafjörð, mataræði sjósóknara á fyrri tíð, sjóræningja á Vestfjörðum, breiðfirsku bátana, náttúru og sögu suðursvæðis Vestfjarða, sérstöðu fuglalífs á svæðinu, sögustaði, skrímsli í Arnarfirði, listamenn á suðursvæði Vestfjarða og fleira (sjá dagskrána hér fyrir neðan).
 
Málþinginu lýkur með veislu þar sem gjafir náttúrunnar verða matreiddar og framreiddar á fjölbreyttan hátt og verður þar ekki síst litið til fyrri tíma. Undir borðhaldi mun listafólk á svæðinu koma fram.
 
Landsvæðið sem málþingið tekur til eru Barðastrandarsýslur, þ.e. allt svæðið sunnan Arnarfjarðar og Reykhólahreppur ásamt Breiðafjarðareyjum. Hugmyndina að málþinginu á Magnús Ólafs Hansson á Patreksfirði en fjöldi áhugafólks um sögu og menningu á svæðinu er honum til stuðnings.
 
Aðgangur að þinginu er ókeypis og getur fólk komið og farið að vild og valið sér fyrirlestra til að hlýða á og taka þátt í umræðum. Þeir sem sitja veisluna um kvöldið þurfa hins vegar að greiða málsverðinn.
 
Dagskráin er eftirfarandi:
 
 – Málþingið sett kl. 10.
 
1. Svartfugl og svartfuglsegg - Erla og Anna Hafliðadætur
2. Hveitikökur, ómissandi með kjötinu - Anna Jensdóttir
3. Steinbítur, feitur og fallegur - Skjöldur Pálmason 
4. Mataræði til sjós á fyrri tíð - María Óskarsdóttir
5. Sjóræningjar á Vestfjörðum - Alda Davíðsdóttir
 
– Hádegishlé kl. 12-13.
 
6. Breiðfirsku bátarnir - Aðalsteinn Valdimarsson
7. Náttúra og saga - Úlfar Thoroddsen
8. Hlunnindi við Breiðafjörð - Hlynur Þór Magnússon
9. Hvalkjöt, steik sem bragð er að - Soffía Gústafsdóttir
10. Selur, hollt og gott bjargráð - Hafsteinn Guðmundsson
11. Sögustaðir - Ragnar Guðmundsson
12. Björn í Sauðlauksdal og kartöflurnar - Hlynur Þór Magnússon
 
– Síðdegiskaffi um kl. 15.30.
 
13. Iðnskólinn á Patreksfirði - Guðbjartur Ólafsson
14. Skrímsli í Arnarfirði - Þorvaldur Friðriksson
15. Listafólk á suðursvæði Vestfjarða - Haukur Már Sigurðarson
16. Tónlistin eflir sálina - Jón Kr. Ólafsson
17. Einstakt fuglalíf - Böðvar Þórisson
18. Sjómannadagurinn á Patreksfirði - Hjörleifur Guðmundsson

– Umræðum lýkur um kl. 18.

Nöfn fyrirlestra eru vinnuheiti og geta breyst. Einstakir dagskrárliðir verða tímasettir nánar þegar nær dregur. Frekari upplýsingar gefa Magnús Ólafs Hansson (magnus@vesturbyggd.is - 490-2301 / 868-1934) og Hlynur Þór Magnússon (htm@snerpa.is - 434-7735 / 892-2240).

Svipmynd