| mi­vikudagurinn 26. marsá2008

HßtÝ­arstemmning ß pßskatˇnleikum

Frß tˇnleikunum - ljˇsm. www.tonis.is
Frß tˇnleikunum - ljˇsm. www.tonis.is

Það ríkti sannkölluð hátíðarstemmning á fjölsóttum páskatónleikum Tónlistarskóla Ísafjarðar sem haldnir voru í Ísafjarðarkirkju síðdegis á föstudaginn langa undir yfirskriftinni Heimsins ljós. Hátt á annað hundrað áheyrendur sóttu tónleikana og ljóst að þeir kunnu vel að meta þetta framtak.

Á tónleikunum komu fram strengjasveit, einleikarar, sönghópar og upplesarar, alls um 25 manns og fluttu valda þætti úr meistaraverki Bachs, Jóhannesarpassíunni. Það var pólski fiðluleikarinn Janusz Frach, serm átti hugmyndina að þessum óvenjulegu tónleikum, valdi þætti úr passíunni, útsetti, æfði verkið og stjórnaði flutningnum. Markmiðið var að kynna Vestfirðingum eitt af merkustu verkum tónbókmenntanna og veita kennurum og nemendum tækifæri til að taka þátt í flutningi þeirra auk þess að að bjóða heimafólki og gestum Skíðavikunnar upp á að hlýða á tónlist sem fjallar um boðskap páskahátíðarinnar. Þá voru tónleikarnir liður í afmælishaldi Tónlistarskóla Ísafjarðar sem fagnar 60 ára afmæli á þessu ári.

Kammersveitina skipuðu nokkrir nemendur og kennarar Tónlistarskóla Ísafjarðar ásamt framhaldsnemum úr Listaháskóla Íslands og víðar sem tengjast Vestfjörðum á einn eða annan hátt.. Hljóðfæraleikararnir eru Janusz Frach, Maksymilian Frach, Geirþrúður Guðjónsdóttir og Halldór Sveinsson á fiðlu, Bjarni Frímann Bjarnason á víólu, Þorbjörg Daphne Hall á selló og Iwona Frach á orgel. Nokkrir stuttir einleikskaflar voru í höndum Arnþrúðar Gísladóttur á þverflautu, Madis Mäekalle á kornett og Þrastar Jóhannessonar á gítar. Sönghóparnir eru tveir, annar þeirra var að mestu skipaður ungum söngnemum og kórstúlkum sem stunda söng- eða hljóðfæranám við Tónlistarskóla Ísafjarðar en í hinum hópnum voru nokkrir ungir drengir, sem einnig stunda nám við skólann.

Upplesturinn skipaði stóran sess í flutningnum.  Pétur Markan guðfræðinemi las texta guðspjallamannsins, en Þórunn Arna Kristjánsdóttir leiklistarnemi og söngkona flutti aðra texta, ljóð, hugleiðingar og útlegging á söguþræðinum. Í Jóhannesarpassíunni er rakin píslarsaga Jesú Krists eins og hún kemur fyrir í Jóhannesarguðspjalli Nýja testamentisins. Óhætt er að fullyrða að flytjendum á tónleikunum hafi tekist að koma þessari dramatísku sögu til skila til áheyrenda á áhrifamikinn hátt, því að flutningurinn tókst með miklum ágætum, hvort sem um var að ræða söng, hljóðfæraleik eða upplestur. Hrifning og gleði ríkti meðal áheyrenda að loknum tónleikunum enda var allur heildarsvipur þeirra með geðþekkum og hátíðlegum brag, sem bar vitni ást og virðingu flytjendanna á viðfangsefnunum.

Fréttatilkynning frá Tónlistarskóla Ísafjarðar - www.tonis.is.

Svipmynd