Frestur til að sækja um styrki til Menningarráðs Vestfjarða vegna seinni úthlutunar ársins 2008 rennur út á morgun. Að sögn Jóns Jónssonar menningarfulltrúa sækja langflestir um á síðustu dögunum þó ýmsar áhugaverðar umsóknir séu þegar komnar í hús. „Síðast kom meira en helmingur umsókna í gegnum umsóknarform á vefsíðu Menningarráðsins á tveimur síðustu dögunum, 65 umsóknir af 110. Það verður því væntanlega nóg að gera í móttökunni í dag og á morgun.“ Aðspurður segir Jón að starf Menningarráðsins hafi gengið vel og mörg skemmtileg verkefni komist á laggirnar síðasta árið, stór og smá. Menningarlífið á Vestfjörðum hafi verið virkilega öflugt síðustu árin og engar líkur á öðru en svo verði áfram.

„Það er þó dálítið misjafnt hvar gróskan er mest og á hvaða sviðum, en að mörgu leyti standa Vestfirðingar vel að vígi og mjög framarlega í menningarmálum. Framundan eru þó fjölmörg verkefni í vestfirsku menningarstarfi, það er mitt mat að gæðaþróun og samvinna séu lykilhugtök 21. aldarinnar þegar horft er á málin frá sjónarhorni þeirra sem í eldlínunni standa. Þegar málin eru skoðuð frá sjónarhorni stjórnsýslunnar, ríkis- og sveitarfélaga, er framtíðarsýn og stefnumótun þau málefni sem þurfa að vera efst á baugi og í sífelldri skoðun,“ segir Jón.

Jón vill hvetja alla þá sem eru með afmarkað menningarverkefni til að sækja um stuðning til Menningarráðsins: „Þangað geta menn sótt stuðning til góðra verka, bæði einstaklingar og stofnanir, félög og fyrirtæki. Það eina sem er alveg á hreinu í þessum efnum er að það fær enginn stuðning nema með því að bera sig eftir honum, það eru aðeins þeir sem róa til fiskjar sem fá.“

Frétt á www.bb.is.

Svipmynd